Skip to main content

Good? Bad? Who knows?

Ég hef svolítið hugsað um dómhörku upp á síðkastið. Það er enginn skortur á henni þessa dagana. Við köllum fólk fífl, hálfvita, glæpamenn, landráðamenn og margt verra.

Þetta er eitt birtingarform þess hvernig við dæmum menn og málefni. Við erum að þessu allan daginn. Hlutir gerast og við verðum ánægð, eða pirruð, eða reið . Við gerum okkur fyrirfram væntingar um það hvað Á að gerast og svo miðast viðbrögðin við væntingarnar.

En hvað ef maður hefði engar væntingar? Hvað ef maður hætti að setja merkimiða á alla skapaða hluti og tæki þeim eins og þeir bera að án þess að dæma?

Þegar maður spáir í það þá er þessi tilhneiging okkar til að svekkja okkur á því sem gerist frekar barnaleg. Maður ákveður hvernig hlutirnir EIGA að vera og er svo hundfúll þegar raunin verður önnur, eins og lítill krakki sem fær ekki nammið sem hann langaði í.

Svo erum við ekki alltaf fær um að ákveða fyrirfram hvað er best fyrir okkur. Það getur farið alveg eftir sjónarhorninu hvort atburður er jákvæður eða neikvæður. Hér er dæmisaga sem mér finnst skemmtileg:

http://saveourspecies.wordpress.com/2008/10/19/good-bad-who-knows/

Við vitum ekki alltaf hvort það sem hendir okkur er jákvætt eða neikvætt til lengri tíma litið. Þá er alveg spurning um að hætta bara að dæma það sem gerist. Taka því bara eins og það ber að höndum. Anda djúpt og brosa.

Mér finnst það allavega ágæt pæling. Eða er það slæm pæling? Hver veit?

Comments

Sóley said…
Góð dæmisaga og mjög áhugaverð pæling. Held að í sumum tilfellum sé auðvelt að tileinka sér þennan hugsunarhátt sem og það sem þú tókst fyrir um daginn, að lifa í núinu og hugsa minna um komandi daga og fortíðina, en í mörgum tilfellum getur það verið erfitt, t.d. eins og varðandi val á námi/skóla, maður gerir sér auðvitað væntingar varðandi það sem maður velur, varðandi nám og námsland og er með hugann við það á meðan umsóknarferlið er í gangi. Eins og í mínu tilfelli, mér þykir æðislegt að vera hér í Stokkhólmi og námið frábært, eitthvað sem ég hefði ekki vitað ef skólarnir í USA hefðu ekki neitað mér, good, bad or who knows? En nú er ég kominn á þennan stað aftur, varðandi doktorsnám. Æ, ég er ekki alveg nógu góður penni til að koma hugsunum mínum á blað, en ég held þú skiljir hvað ég er að meina.
Bið að heilsa heim! Og fyrirfram til hamingju með snáðann á morgun :)
Anonymous said…
Þú ert nú bara fín í að koma hugsunum þínum á blað Sóley mín :-)

Þetta er auðvitað alls ekkert auðvelt mál. Og það einkennir einmitt oft metnaðarfullt og klárt fólk að hafa sterkar væntingar til sjálfs sín og annarra. En þá kannski enn mikilvægara að tileinka sér þessi stóísku/zen viðhorf: Reyna að lifa sem mest í núinu- einn dag í einu og taka því sem að höndum ber. Það þýðir samt EKKI að maður eigi ekki að hugsa um framtiðina og gera áætlanir.

Þetta er svolítið eins og að vera á göngu í þéttum frumskógi (þótt ég hafi reyndar enga reynslu af því:-) Maður þarf að höggva sig áfram og passa hvar maður stígur niður, en á sama tíma að njóta þess sem fyrir augu ber og svekkja sig ekki á því þótt maður fái annað slagið trjágrein í trýnið. Annað slagið þarf maður svo að klifra upp í tré, ná yfirsýn og tryggja að maður sé að stefna í rétta átt. Ef maður gerir það ekki, þá aukast mjög líkurnar á því að maður villist af leið. Eða gangi í hringi.

Þetta er því spurning um að balansera metnað/markmiðssetningu og þess að njóta lífsins og svekkja sig ekki á smámálunum.

Ég skila kveðju til Júlla. Þú þarft að kíkja á hann á Skæpinu. Hann talar sífellt meira...er farinn að syngja lög og allt. Hrikalega spaugilegur.

Heyrumst!

kv.
Siggi

Popular posts from this blog

Rafmagnsbílar- ofurvélar

Var á leið í vinnu um daginn þegar ég heyrði viðtal við rafmagnsverkfræðing sem sagði illskiljanlegt af hverju ekki væri lögð meiri áhersla á framleiðslu og notkun rafmagnsbíla. Miklar framfarir hefðu orðið í framleiðlsu rafmótora og rafhlaðna og að í dag væru rafmagnsbílar fremri sprengimótorum að flestu, ef ekki öllu leyti.

Verandi forvitinn maður fór ég að rannsaka málið og datt niður á þessa síðu:

http://www.teslamotors.com/learn_more/faqs.php

Þetta er FAQ síða hjá fyrir tæki sem heitir Tesla Motors. Þeir framleiða rafmagnssportbíl (neibb....ekki oximoron!). Græjan er 4 sekúndur í hundraðið, kemst 400 km á hleðslunni og virðist vera ofursvöl græja. Og...hann kostar innan við 100.000 dollara. Strategían hjá þeim virðist vera að gera bílinn algengann hjá ríka fólkinu- fá umhverfismeðvitaða uppa til að skipta Porche-num út fyrir Teslu (Svona rafmagnsbíll myndi örugglega "get one laid" í henni Kaliforníu ,svo dæmi sé tekið). Afar snjallt.

Það sem ég er að velta fyrir mér er þet…

Menntakerfið byggir á úreltum og skaðlegum forsendum

Ákveðnar forsendur liggja til grundvallar í menntakerfinu okkar. Kerfið er í grófum dráttum svona:
Nemendum er skipt í hópa eftir aldri. Allir eru skulu dvelja á skólastofnun frá 6-16 ára. Þar skulu þeir læra samkvæmt gildandi aðalnámsskrá. Aðalnámsskráin er sett saman af sérfræðingum sem er gert að greina og ákveða hvað allir þurfa að læra svo að þeir séu tilbúnir í framhaldsnám og þátttöku í samfélaginu. Kennarar skulu svo gera sitt besta til að tryggja að allir nemendur tileinki sér sem mest af þeirri hæfni og þekkingu sem aðalnámsskráin segir til um. Það eiga sumsé allir að læra það sama. Frammistaða nemenda er vegin og metin frá upphafi með prófum og verkefnum sem eiga að segja til um hvernig þeim gengur.
Það er hægara sagt en gert að ná þeim markmiðum sem kerfið setur. Börnum er ekki eðlislægt að fylgja skipunum og sitja kyrr. Það þurfa þau samt að gera í skólanum, talsverðan hluta dags. Þau ráða engu um það hvað þau læra, hvenær, hvar, með hverjum eða hvernig (í flestum tilvik…

Lausn húsnæðisvandans: Lítil hús!

Mörg byggðarlög í landsbyggðunum eru í spennitreyju. Af ýmsum ástæðum er byggingarkostnaður þar hár (fjarlægð frá heildsölum í Reykjavík, skortur á iðnaðarmönnum o.fl.) og lágt fasteignaverð veldur því að útilokað er að selja eldri fasteign og kaupa sér nýja án þess að tapa á því stórfé. Sú eðlilega hringrás sem skapast þegar eldra fólk minnkar við sig til að fara í minna og hentugra húsnæði og rýmir þannig til fyrir barnafjölskyldum og yngra fólki er því rofin. Fólk fer beint út stóra húsinu sínu og á elliheimilið. Staðan er svo þannig í þeim landsbyggðum sem eru að vaxa (víðast vegna uppsveiflu í ferðaþjónustu) að stórvesen er að hýsa starfsfólk. Ungt fólk sem vill prófa að búa á þessum stöðum þarf annaðhvort að taka sénsinn á að kaupa sér einbýlishús sem það losnar svo tæpast við aftur, eða að leigja á háu verði, ef eitthvað leiguhúsnæði er þá í boði. 
Ég er með lausn á þessu. Hún er þessi:
Byggjum lítil og ódýr hús
Af hverju gerum við ráð fyrir að allir vilji búa í stóru húsi? Er…