Monday, April 05, 2010

Íslenska þjóðin í djúpum skít...what else is new?

Ég var í morgunsárið að blaða í árbók ársins 1982. Á þessu herrans ári var ég 8 ára gamall og rámar því í eitthvað af þessu. Og ekki laust við að þetta hristi aðeins upp í manni. Það er ekkert voðalega langt síðan við frónverjar vorum ansi aftarlega á merinni. Helsta efnahagsmarkmið þáverandi ríkisstjórnar var t.d. að koma verðbólgunni NIÐUR í 40%. Skipsskaðar og slysadauðsföll voru nánast daglegt brauð. Ungmenni grilluðu í sér heilabúið með kveikjarabensíni og lími. Latté var óþekkt fyrirbæri og kremkex frá Frón þótti bara nokkuð fínt.

Ég man alveg hvernig var að vera barn á þessum tímum. Við fengum stundum nammi á laugardögum, annars alls ekki. Við fórum ekki til útlanda í frí. Það gerðu fáir. Við fórum ekki mikið í frí yfir höfuð. Til þess voru hvorki tími né peningar.

Þótt nú séu ekki beint bjartir tímar, þá er ágætt að hafa í huga hvernig við lifðum fyrir ekki svo mjög löngu. Við erum miklu betur stödd í dag en fyrir aldarfjórðungi síðan: Ríkari, betur menntuð og tiltölulega sófistikeraðir heimsborgarar. Fær í flestan sjó. Það er því ákveðin huggun að glugga í söguna og líta nokkur ár aftur í tímann. Það er ekkert nýtt að pólitíkusar séu misvitrir, efnahagslífið í klessu, gjaldmiðillinn ónýtur, menn ráði frændur sína í opinberar stöður, að útvegsmenn séu brjálaðir, að menn rífist um orkuverð til stóriðju. Svona var þetta allt árið 1982.

Og það er líka gott að hafa í huga að við getum verið hamingjusöm þótt kjör okkar rýrni og þjóðfélagsástandið sé skrítið. Ég minnist a.m.k. ekki annars en að æska mín hafi verið ákaflega hamingjurík þótt maður hafi ekki átt alla skapaða hluti.

No comments: