Saturday, April 24, 2010

Er menntakerfið okkar meingallað?

Síðustu misseri hef ég annað slagið verið að pæla í menntun. Þessar pælingar hafa gjarnan fylgt pælingum um vestrænt samfélag almennt, kosti þess og galla. Aðallega galla reyndar, ef ég á að vera alveg hreinskilinn. Ég hef talsvert verið að spá í hvernig hægt er að bæta samfélagið okkar. Þessar pælingar koma auðvitað í kjölfar HRUNSINS, þar sem við vorum skyndilega minnt á hve brothætt og skrítið þetta efnahagskerfi okkar er.

Eitt af því sem slær mann þegar maður skoðar aðdraganda hrunsins er sú blinda græðgi og samkeppni sem einkenndi framferði fólks. Þessi óslökkvandi þrá eftir MEIRU. Að vera MEIRI en hinir. Við bendum á útrásarvíkingana og bankafólkið, þar sem þetta var auðvitað mjög skýrt, en gleymum því að þetta var hið almenna viðhorf og andrúmsloft í þjóðfélaginu. Og er kannski enn? Ég er nefnilega alls ekki viss um að efnishyggja hafi minnkað.

Annað sem slær mann er skortur á ábyrgðartilfinningu. Menn æða áfram í blindri græðgi og bera svo enga ábyrgð þegar allt hrynur í höndunum á þeim.

Samkeppni, efnishyggja og ábyrgðarleysi. Hvaðan kemur þetta? Af hverju erum við svona? Af hverju ekki samvinna, nægjusemi og ábyrgð?

Þetta er auðvitað risavaxin spurning sem ekki verður svarað í litlu og ómerkilegu bloggi, en þó ætla ég að velta við a.m.k. einum steini í leit að svari. Ég hef nefnilega verið að spá í hvort menntakerfið og aðferðir okkar við að mennta fólk geti verið hluti af svarinu.

Ég vil þó áður en lengra er haldið taka það skýrt fram að ég ber gífurlega virðingu fyrir kennurum, enda er ég kennarabarn. Margir ættingjar mínir og vinir eru kennarar og ég veit að þetta er fólk sem hefur einlægan áhuga á því að efla nemendur sína með ráðum og dáð og fær fyrir það allt of lítið þakklæti og laun. Það er ERFITT starf að vera kennari, sérstaklega ef fólk hefur metnað og samvisku til að sinna því vel.

Það sem ég hef hins vegar spáð í er hvort menntaKERFIÐ sé gallað, m.a. af þessum sökum:

  • Í skóla eiga allir að læra það sama. Þeir eiga að læra það sem skólayfirvöldum þóknast (ég veit, ég veit...einstaklingsmiðað nám...blabla, en þegar öllu er á botninn hvolft ER þetta svona. Nemandi hefur ekkert val um það hvort hann lærir náttúrufræði. Hann fær bara erfiðari verkefni ef hann er góður í náttúrufræði)
  • Skólinn er einræðisstofnun. Skólastjórinn ræður. Og kennararnir. Nemandinn ræður engu og hefur ekkert að segja um námsumhverfið.
  • Þar sem nemandinn ræður engu, þá ber hann líka í raun litla ábyrgð. Hann ber auðvitað ábyrgð á eigin hegðun að einhverju marki, svipað og fangi ber ábyrð á því að fylgja fangelsisreglunum
  • Skólar hvetja til samkeppni. Allir eru metnir eftir sömu mælistikunni og menn keppast við að ná sem bestum árangri, enda hrósað fyrir þann árangur. Þeir sem ná ekki "árangri" skv. mælistikunni sitja eftir með bogna sjálfsmynd.
  • Krakkar hafa innbyggða þörf fyrir að læra. Það sést vel á því hvað þau læra ÁÐUR en þau byrja í skóla. Þau læra að tala, ganga og milljón aðra hluti. Enginn kennir þeim neitt af þessu með markvissum hætti. Þau einfaldlega herma eftir, spyrja, prófa sig áfram og fá endurgjöf frá umhverfinu. Svona eru börn víruð til að læra.
  • Í skólanum er börnum hins vegar sagt hvernig þau eiga að læra, hvað þau skuli læra, hvernig þau skuli hegða sér þegar þau læra, hvenær þau eiga að standa og hvenær að sitja. Þau læra líka í hópi jafnaldra sinna þar sem þau geta ekki fylgst með þeim sem eldri eru og lært af þeim, eins og náttúran gerir ráð fyrir. Þetta er fullkomlega ónáttúruleg aðferð við að læra. Fyrstu tvö árin í skóla fara því í að "aðlaga" (móta? brjóta?) börnin að módeli skólans.

Ég spyr: Er þetta kerfi líklegt til að kenna fólki ábyrgð, samvinnu og nægjusemi? Eða elur það á ábyrgðarleysi, samkeppni og firringu? Af hverju koma svona margir út úr skólum án þess að vita hverjir þeir eru eða hvað þeir vilja? Af hverju vita sumir ekki einu sinni á hverju þeir hafa áhuga? Getur hugsast að þetta kerfi sé til þess fallið að gera okkur að góðum neytendum? Að þrælum í einhverri vél?

Ég hef ekki svarið, en mér finnst a.m.k. áhugavert að velta þessu fyri mér. Ég veit nefnileg að það hafa verið gerðar tilraunir með öðruvísi skóla sem byggja á lýðræði, samábyrgð og frelsi. T.d. svokallaðir Sudbury skólar:

http://en.wikipedia.org/wiki/Sudbury_Valley_School

Í þessum skólum er engin námsskrá og algert lýðræði. Nemendur eru frá 4- 19 ára og engin aldursskipting. Engin skipuleg kennsla fer fram nema nemendunum finnist þörf fyrir það. Nemendur geta kosið um að láta kennara fara og þeir taka ákvarðanir um ráðningar. Hljómar ótrúlega, en þessir skólar ná fínum árangri. Um 80% nema úr Sudbury Valley skólanum klárar háskólanám. Og ég þori að veðja að þeir vita hverjir þeir eru, á hverju þeir hafa áhuga, að þeir kunni að vinna með öðrum og bera ábyrgð.

Þetta er kannski eitthvað sem við ættum að skoða betur?

No comments: