Monday, April 19, 2010

Minningarorð um tengdaafa

Í gær var Júlíus Þórðarson, tengdaafi minn, jarðsunginn frá Norðfjarðarkirkju. Athöfnin var falleg og látlaus og meira sungið af ættjarðarlögum en sálmum. Karlinn hefði verið ánægður með það.

Ég kynntist Júlíus, eða Júlla á Skorrastað eins og hann var alltaf kallaður, þegar við Jóna fórum að skjóta okkur saman árið 1994. Reyndar kom ég oft í heimsókn á Skorrastað sem barn. Pabbi fór oft með mig að skoða hinn fjölbreytta bústofn bæjarins, enda voru hann og tengdapabbi samkennarar. Þá hefur sennilega engan grunað að ég ætti eftir að vera húsbóndi í húsinu sem Júlli og Jóna byggðu sér, en svona er nú lífið skrítið.

Hjá Júlla mætti ég aldrei öðru en mikilli vinsemd og gestrisni. Mér fannst ég alltaf vera fullkomlega velkominn á heimilinu. Við bjuggum hjá Jónu og Júlla sumrin '96 og '97 þegar ég var í sumarfríum í Háskólanum. Ég vann sem lögreglumaður á sumrin og var af því nokkuð ónæði, enda ekkert farsímasamband á Skorrastað og vaktsíminn því tengdur beint í heimasíma. Aldrei létu þau heiðurshjón það fara hið minnsta í taugarnar á sér. Eftir að ég kláraði BA próf og við Jóna fluttum austur, bjuggum við hjá þeim í heilt ár, með Siggu Theu pínulitla. Hún lærði að labba í stofunni á Skorrastað, sem núna er stofan okkar og var í miklu uppáhaldi hjá langömmu og langafa. Þegar við fluttum svo enn og aftur á Austurlandið árið 2004 eftir dvöl erlendis og í Reykjavík, þá bjuggum við fyrst um sinn hjá gömlu hjónunum.

Þessi ótrúlega gestrisni var Júlla algerlega í blóð borin. Það leið ekki sá dagur að ekki kæmu einhverjir gestir og var þeim öllum tekið fagnandi. Á sumrin var heimilið oft eins og umferðarmiðstöð- stundum gestir í hverju herbergi. Stundum þótti manni nóg um. En þau gömlu tóku öllum jafn vel og létu alla finna að þeir væru fullkomlega velkomnir. Ég er hræddur um að slík gestrisni sé nokkuð á undanhaldi.

Ég gæti skrifað langan pistil um Júlla, en ég ætla að láta tvö lítil minningarbrot duga:

-Fyrir nokkrum árum síðan, rétt áður en Júlli hætti mjólkurbúskap, var ég að keyra heim að bæ. Karlinn hefur verið kominn fast að áttræðu held ég. Hann var að reka kýrnar heim í fjós í mjaltir. Skyndilega hleypur ein kýrin út undan sér. Karlinn brást hratt við og tók á sprett til að koma henni aftur á rétt spor! Ótrúlega sprækur miðað við aldur og fyrri störf.

-Eitt sinn fór ég með Júlla að sækja mjöl út í bræðslu. Mjölið var sett í hálfar síldartunnur. Ég skellti tunnunum í skottið á bílnum og keyrði heim að fjósi. Svo tók ég tunnurnar úr skottinu og bar upp tröppur og inn í fjós (fjandans tunnurnar voru níðþungar, en ég ætlaði sko ekki að láta á því bera að mér þætti þetta eitthvað mál). Þá drundi í karlinum "Haha! Þú er sterkur!" Ég man ekki til að mér hafi mikið verið hrósað fyrir krafta, en þetta var karlinn ánægður með.

Já, Júlli á Skorrastað var KARAKTER. Hann var spes. Hann var hann sjálfur. Ég veit ekki hvort ég hef eitthvað til míns máls, en mér finnst týpur eins og hann vera sífellt fágætari. Fólk sem er ósmeykt við að vera það sjálft og er laust við narcissískar tilvistarkreppur og aumingjaskap.

Ég mun aldrei gleyma Júlla á Skorrastað. Hann á eftir að lifa í minningunni. Ég bý í húsinu sem hann byggði, er giftur sonardóttur hans og skýrði son minn í höfuðið á honum, þannig að ég þyrfti nú reyndar að kalka all verulega til að gleyma honum. Ég verð ávallt þakklátur fyrir allt sem hann gaf mér.

Megi hann hvíla í friði.

4 comments:

Anonymous said...

Þetta eru falleg minningarorð. Ég samhryggist ykkur innilega. Kveðjur til allra á Skorrastað.

Steinunn Þóra

Anonymous said...

Takk Steinunn. Ég skila kveðjunni.

kv.
Siggi

Anonymous said...

Samúðarkveðjur frá okkur Atla. Skilaðu kveðjum til tengdó og knúsaðu Jónu frá mér.

Þórey Leifs.

Anonymous said...

Þetta eru flott minningarorð hjá þér Siggi. Ég var þess heiðurs aðnjótandi að kynnast Júlla. Hann mannaði mig helling, Hann kenndi mér að vinna. Ég á margar góðar minningar frá Skorrastað. Það sem mér finnst verst er að hafa ekki fatað það hvað þetta var gott fólk og hvað þetta var hrikalega góður skóli fyrir mig. Blessuð sé minning hans.

Kveðja Valdi.