Saturday, April 03, 2010

Smásögur

Ég var að flakka um vefinn í morgunsárið. Rakst á skemmtilega síðu sem ég varð að deila með ykkur. Síðuna á Ágúst Borþór Sverrisson, en hann er stórskemmtilegur penni sem hefur sérhæft sig í ritun smásagna. Ágúst er einn fárra íslenskra höfunda sem hefur sinnt þessu formi af einhverjum krafti, fyrir utan snillinginn Gyrði Elíasson auðvitað.

Smásagan er vanmetið sagnaform sem reynir mjög á höfundinn. Striginn sem höfundur málar myndir sínar á er smár, eðli málsins samkvæmt. Og allt of oft ganga menn fram hjá þessum smámyndum og mæna upp á stórar og litríkari myndir sem eru betur til þess fallnar að grípa athyglina. Það er nefnilega svolítið þversagnakennt að þótt smásögur séu stuttar þá gera þær oft meiri kröfur til lesandans en skáldsögur. Þar sem höfundur hefur lítið svigrúm fyrir lýsingar og útlistanir á samhengi, þá reynir smásagan talsvert á ímyndunarafl og athyglisgáfu lesandans. Og Það held ég að sé ástæðan fyrir því að smásagan nýtur ekki meiri hylli. Stór hluti fólks lítur á þær og hugsar "What the fuck? Er þetta eitthvað merkilegt?"

Svarið við þeirri spurningu er.....JÁ. Góðar smásögur eru stórmerkilegar og geta kveikt magnaða tilfinningu fyrir dýpt. Þær geta snert við manni á einhvern hátt sem skáldsögur gera sjaldnast. Þær hafa stundum svipuð áhrif á mann og ljóð, en þó á annan hátt.

Ég hvet ykkur til þess að tékka betur á smásögum, sérstaklega þá sem yfir höfuð eru bókhneigðir. Hér er t.d. frábær saga frá Ágústi Borgþóri um dag í lífi atvinnulauss manns. Frábær smáatriði, mikil dýpt og næmni.

http://www.pressan.is/pressupennar/LesaAgust/smasaga

Ágúst birtir reglulega sögur sínar á pressunni og það er vel þess virði að tékka á honum. Ég á pottþétt eftir að kaupa bækurnar hans líka, enda aldrei eins að lesa sögu á tölvuskjá og á prenti.

2 comments:

Ágúst Borgþór said...

Takk fyrir þetta, félagi. Ertu á Facebook?

Siggi Óla said...

Ekkert að þakka. Þakka ÞÉR fyrir sögurnar! Og jamm...er á bókinni.