Wednesday, April 28, 2010

Tilviljunarkennt röfl að morgni dags

Vaknaði kl:05:10 í morgun. Verð greinilega að bæta myrkvun í herbergi litla mannsins. Ekki alveg að meika þetta.

Annars hefur það sína kosti að vakna fyrir allar aldir. Þetta er rólegur tími sem maður getur nýtt í lestur. Jafnvel skriftir. Margt vitlausara en það. Eitt af markmiðum ársins hjá mér var að skrifa að minnsta kosti tvær smásögur sem ég væri ánægður með. Hef enn varla skrifað stafkrók og því þörf á bragarbót.

Ég er líka búinn að vera fulllatur við lesturinn. Hef varla náð að lesa eina bók á viku á þessu ári. Var að klára aðra endurminningabók Ólafs Hauks Símonarsonar sem er ákaflega ljúf lesning. Hann fjallar þar um nokkur ár í uppvextinum- frá ca. 10-16 ára aldurs. Mæli eindregið með henni, eins og öllu sem Óli hefur skrifað. Núna er ég að lesa bókina Fortress of solitude eftir Jonathan Lathem. Sú fjallar um uppvöxt hvíts drengs í Brooklyn á áttunda áratugnum. Ansi magnað stöff, en svolítið uppskafningslegur og mikill texti. Fíla knappari penna betur. Djöfull hlakka ég til að ná mér í nýju Paul Auster bókina! Hún ætti að koma á kilju núna fljótlega.

Það hefur annars ekki verið nein lognmolla hjá mér síðustu vikur. Brjálað að gera í vinnunni og Urð á fínu flugi. Við erum að bæta við okkur nýjum lögum og það gengur bara eins og í sögu. Við spiluðum á þriðju tónleikunum okkar um síðustu helgi og það gekk bara fínt. Við erum að plana upptökur í sumar og tónleikahald með CIB og fleirum. Fjör. Á næsta leyti er svo öldungamót í blaki í Mosfellsbæ. Það verður eflaust gaman eins og alltaf, þótt oft hafi ég verið í betra formi (reyndar í mun verra formi líka).

Talandi um form, þá hef ég verið nokkuð harður á að borða hollt þótt æfingar hafi verið af skornum skammti. Ég borða svona ca. 80% "rétt". Það dugar til að halda þyngd í rétt rúmlega 80 kg. Ég er aftur farinn að lyfta af krafti, en fer bara einu sinni í viku og tek vel á því. Er orðinn nokkuð sannfærður um að það sé málið, þótt auðvitað megi flá kött á ýmsa vegu. Það er samt mjög margt sem ég hef verið að lesa sem bendir til þess að þessi blanda- kolvetnalítið fæði+stuttar föstur+lyftingar- sé ansi magnaður kokteill.

2 comments:

Anonymous said...

Ertu búinn að lesa Yfir hafið og í steininn eftir Tapio Koivukari? Ef ekki þá mæli ég með henni.

Kveðja,
Steinunn Þóra

Anonymous said...

Humm..nei. Tékka á henni. Hef heyrt góða hluti um hana.

kv.
Siggi