Friday, June 18, 2010

Að vera í sambandi

Í nútímanum eru allir "tengdir". Það er kúl að vera tengdur. Símafyrirtækin markaðssetja 3G síma af miklum krafti og því er sífellt haldið að fólki að allir eigi að vera tengdir- helst alltaf. Lífið hjá þeim sem eru tengdir er skemmtilegra. Þeir eiga mörg þúsund vini! Það er klikkað fjör hjá þeim!

Það er orðið algengt að vinnuveitendur geri þá kröfu, beint eða óbeint, að starfsmenn séu alltaf tiltækir. Það er gert ráð fyrir að menn lesi póstinn sinn jafnóðum og hann berst. Það gerir vinnuveitandanum auðvelt fyrir að starfsmanninum finnst þetta bara fjandi kúl. Það er svalt að vera tengdur og að vera hrikalega upptekinn. "Er ekki nóg að gera?"......"Jú, maður! Alltaf brjálað að gera!"

Ætli þetta hafi góð áhrif á einbeitingu fólks? Ætli þetta stuðli að því að fólk hugsi málin og taki yfirvegaðar ákvarðanir? Ætli þetta hjálpi fólki að líða vel?

Eða hefur þetta þveröfug áhrif? Vinnur þetta gegn andlegri ró og yfirvegun? Hver er tilgangurinn með þvi að stækka brauðsneiðina sífellt þegar maður alltaf jafn mikið smjör (eða jafnvel sífellt minna smjör)?

Ég hallast að því síðarnefnda. Ég er enginn luddíti, en ég held að notkun þessarar tækni sé farin úr böndunum. Ég held að það sé einfaldlega ekkert sniðugt að það sé hægt að ná í hvern sem er, hvenær sem er. En ég held að það megi lágmarka skaðann á ýmsan hátt. T.d. með því að:

  • Skoða póstinn sinn bara á ákveðnum tímum dags-Afgreiða hann t.d. á morgnana og áður en maður fer heim á kvöldin (fyrir þá sem vinna á skrifstofu)
  • Fækka vinum á Facebook. Ef um er að ræða manneskju sem þú myndir spjalla við þegar þú hittir hana úti í búð, þá er hún "vinur". Annars ekki. Rannsóknir benda til þess að það sé ekki hægt að "þekkja" nema 100-150 manns.
  • Ekki svara í símann ef það má bíða og þú ert upptekinn við eitthvað annað. Það er ekki skylda að svara í símann. Þú sérð alveg hver var að hringja. Hringdu bara til baka þegar betur stendur á.
  • Ekki hafa kveikt á gemsanum heima hjá þér. Ef fólk vill ná í þig þá getur það hringt í heimasímann.
  • Prófaðu að slökkva á símanum þegar þú ferð í frí. Bentu fólki á að senda þér sms ef það þarf að ná í þig. Svo hringir þú til baka í þá sem þú nennir að tala við.
  • Ekki fá þér netið í símann. Það er rugl.