Wednesday, July 07, 2010

Fótbolti- Óheiðarlegasta íþrótt í heimi?

Ég er búinn að horfa talsvert á HM. Hef haft ansi gaman af því, þótt mér leiðist fótbolti svona almennt séð. Ég fylgist ekki með ensku, eða neinni annarri deild. Ég hef reyndar svipað viðhorf til íþrótta og til kynlífs: Mér finnst skemmtilegra að stunda þær en að horfa á einhverja aðra spreyta sig.

HM er hins vegar "a whole different ball game". Þarna kljást þjóðir og heimsálfur og dramatíkin er mikil. Á köflum sér maður hæfileika á dásamlegu plani og þótt ég haldi ekki sérstaklega með neinni þjóð þá er þetta oft unun á að líta. Ég er samt ekki frá því að ég sé farinn að halda með Þjóðverjum, enda eru þeir með einstaklega skemmtilegt og ungt lið. Bunderslígan er ekki sú ríkasta í heimi, þannig að þeir hafa lagt mikið upp úr því að ala upp góða leikmenn og að uppskera árangur erfiðisins núna. Ég vona að þeir vinni keppnina.

Við það að horfa á þessa leiki hefur það samt farið sífellt meira í taugarnar á mér hvað óheiðarleiki og óíþróttamannsleg framkoma er ríkur hluti af þessari íþrótt. Dæmi:

  • Ef það er svo mikið sem andað á leikmenn þá kasta þeir sér í jörðina eins og þeir hafi stigið á jarðsprengju. Þetta er kallað að "fiska". Þetta er ömurleg hegðun. Ég man ekki eftir því úr nokkurri annarri íþrótt að það sé svona ríkur hluti af leiknum að reyna að blekkja dómara með þessum hætti.
  • Í hvert einasta skipti sem boltinn fer út af vellinum, þá halda báðir leikmenn því fram að þeir eigi boltann. Annar þeirra er alltaf að ljúga. Þeir vita nákvæmlega hver á boltann. Hvað er málið?!!
  • Leikmaður sem brýtur á öðrum leikmanni þrætir nánast undantekningalaust fyrir því að hafa gert það. Verður jafnvel oft alveg brjálaður út í dómarann ef dæmd er aukaspyrna eða spjald. Leikmaðurinn vissi alveg hvað hann gerði. Áhorfendur vita alveg hvað hann gerði (enda myndavélar að taka upp frá ótal sjónarhornum). Samt er tuðað, oft af mikilli vandlætingu.
  • Það er viðurkennd hegðun að bjálast út í dómarann. Menn æða mjög ógnandi að honum og öskra eins og vitlausir menn. Af hverju er þetta leyft? Af hverju eru menn ekki reknir umsvifalaust af velli fyrir svona nokkuð?

Mér finnst sorglegt að ofangreint skuli vera viðurkenndur hluti af leiknum. Hverskonar siðferðisboðskapur er þetta? Er þetta eitthvað sem við viljum hafa í heiðri og kenna börnunum okkar?

Eh...nei takk!

Mér finnst að fótboltinn þurfi að gera gangskör í að laga þetta og það væri ágætt að byrja á að laga þetta á HM. Og þetta er einfalt. Það á bara að fara yfir leikinn eftirá og spjalda öll þessu brot. Ef menn "fiska" víti= Rautt spjald. Ef menn sparka í einhvern viljandi og þykjast svo vera saklausir sem nýfædd lömb=Rautt spjald. O.s.frv.

Ég held að þetta sé eina leiðin til að breyta þessu. Það virðist a.m.k. ólíklegt að leikmenn taki það upp hjá sjálfum sér að haga sér eins og alvöru íþróttamenn.

No comments: