Saturday, September 25, 2010

Föstudagar

Hjá mér eru allir dagar föstudagar. Let me explain:

Ég virðist vera þeirri náttúru gæddur að ef ég myndi borða allt sem mig langar í, þá myndi ég á tiltölulega skömmum tíma fara að líkjast Goodyear loftbelgnum. Þetta kallar á einhverskonar aðhald til að halda spikinu í skefjum.

Í því skyni hef ég gert margar tilraunir. Stundum hef ég passað hrikalega vel hvað ég læt ofan í mig og þá fyrst og fremst forðast óþverra eins og kornmeti, sykur og önnur slæm kolvetni. Þetta hefur oftast skilað fínum árangri, en er svolítið erfitt fyrir sálina. Margt að því sem er óhollt er jú hluti af okkar kúltúr og endalaust á borðstólnum. Það kemur því yfirleitt að því að maður springur á limminu og þá læðast kílóin að manni.

Ég hef því verið að prófa nýja aðferð síðustu vikurnar. Hún gengur út á að minnka þann tíma sem maður borðar, fækka þannig kaloríunum sem maður lætur ofan í sig og gefa líkamanum tækifæri til að vinna úr því sem maður lætur ofan í sig.

Aðferðin er í stuttu máli þannig að ég borða ekkert á milli 20:00 á kvöldin og fram að hádegi daginn eftir. Ég fasta því í 15-16 tíma á sólarhring. Þannig eru allir dagar föstudagar hjá mér.

Í stuttu máli sagt virðist þetta vika skrambi vel. Ég hef alls ekki verið fanatískur á það hvað ég borða, heldur bara hvenær. Síðustu tvær vikur hef ég t.d. borðað fullt af alls kyns óþverra án þess að bæta á mig grammi. Aðferðin hefur líka þann kost að hún er einföld og þjáningarlaus. Maður er mjög fljótur að venjast því að borða bara á tímanum 12:00-20:00. Maður losnar við það að spá í að borða á morgnana og það virðist vera alger mýta að það sé lífsnauðsynlegt að gúffa einhverju í sig um leið og maður vaknar.

Þær rannsóknir sem hafa verið gerðar á föstum af þessu tagi benda til þess að þær séu þrælheilsusamlegar. Ég ætla því að halda þessu áfram og sjá hvað gerist. Stefni reyndar á að éta heldur hollari mat en ég hef gert upp á síðkastið og hreyfa mig meira. Það verður gaman að sjá hverju það skilar.

Þessi aðferð er mjög á skjön við það sem meginstraums næringar- og íþrótta"fræði" predika, en skv. postulum þeirra trúarbragða þá virðist vera vonlaust að ná árangri nema að vera síétandi og síspriklandi. Ég tel mig vera búinn að sannreyna (a.m.k. fyrir sjálfan mig) að það er algert kjaftaæði.