Skip to main content

Föstudagar

Hjá mér eru allir dagar föstudagar. Let me explain:

Ég virðist vera þeirri náttúru gæddur að ef ég myndi borða allt sem mig langar í, þá myndi ég á tiltölulega skömmum tíma fara að líkjast Goodyear loftbelgnum. Þetta kallar á einhverskonar aðhald til að halda spikinu í skefjum.

Í því skyni hef ég gert margar tilraunir. Stundum hef ég passað hrikalega vel hvað ég læt ofan í mig og þá fyrst og fremst forðast óþverra eins og kornmeti, sykur og önnur slæm kolvetni. Þetta hefur oftast skilað fínum árangri, en er svolítið erfitt fyrir sálina. Margt að því sem er óhollt er jú hluti af okkar kúltúr og endalaust á borðstólnum. Það kemur því yfirleitt að því að maður springur á limminu og þá læðast kílóin að manni.

Ég hef því verið að prófa nýja aðferð síðustu vikurnar. Hún gengur út á að minnka þann tíma sem maður borðar, fækka þannig kaloríunum sem maður lætur ofan í sig og gefa líkamanum tækifæri til að vinna úr því sem maður lætur ofan í sig.

Aðferðin er í stuttu máli þannig að ég borða ekkert á milli 20:00 á kvöldin og fram að hádegi daginn eftir. Ég fasta því í 15-16 tíma á sólarhring. Þannig eru allir dagar föstudagar hjá mér.

Í stuttu máli sagt virðist þetta vika skrambi vel. Ég hef alls ekki verið fanatískur á það hvað ég borða, heldur bara hvenær. Síðustu tvær vikur hef ég t.d. borðað fullt af alls kyns óþverra án þess að bæta á mig grammi. Aðferðin hefur líka þann kost að hún er einföld og þjáningarlaus. Maður er mjög fljótur að venjast því að borða bara á tímanum 12:00-20:00. Maður losnar við það að spá í að borða á morgnana og það virðist vera alger mýta að það sé lífsnauðsynlegt að gúffa einhverju í sig um leið og maður vaknar.

Þær rannsóknir sem hafa verið gerðar á föstum af þessu tagi benda til þess að þær séu þrælheilsusamlegar. Ég ætla því að halda þessu áfram og sjá hvað gerist. Stefni reyndar á að éta heldur hollari mat en ég hef gert upp á síðkastið og hreyfa mig meira. Það verður gaman að sjá hverju það skilar.

Þessi aðferð er mjög á skjön við það sem meginstraums næringar- og íþrótta"fræði" predika, en skv. postulum þeirra trúarbragða þá virðist vera vonlaust að ná árangri nema að vera síétandi og síspriklandi. Ég tel mig vera búinn að sannreyna (a.m.k. fyrir sjálfan mig) að það er algert kjaftaæði.

Comments

Anonymous said…
Ég finn líkamlegann sársauka við tilhugsunina um að borða ekkert frá 20-12. Það virðist litlu skipta hversu mikið ég borða í kvöldmat - um kl. 22 eru garnirnar í mér farnar að gaula og ef ég borða ekki (og við erum að tala um 2-3 brauðsneiðar með banana eða eitthvað álíka og nýmjólkurglas) sofna ég barasta ekkert fyrir hungurverkjum. Svo gúffa ég í mig hafragraut mjög fljótlega eftir að ég vakna.

Á misjöfnu þrífumst við!

Kveðja,
Steinunn Þóra
Siggi Óla said…
Jamm....þetta er klárlega ekki "one size fits all" :-)

Popular posts from this blog

Rafmagnsbílar- ofurvélar

Var á leið í vinnu um daginn þegar ég heyrði viðtal við rafmagnsverkfræðing sem sagði illskiljanlegt af hverju ekki væri lögð meiri áhersla á framleiðslu og notkun rafmagnsbíla. Miklar framfarir hefðu orðið í framleiðlsu rafmótora og rafhlaðna og að í dag væru rafmagnsbílar fremri sprengimótorum að flestu, ef ekki öllu leyti.

Verandi forvitinn maður fór ég að rannsaka málið og datt niður á þessa síðu:

http://www.teslamotors.com/learn_more/faqs.php

Þetta er FAQ síða hjá fyrir tæki sem heitir Tesla Motors. Þeir framleiða rafmagnssportbíl (neibb....ekki oximoron!). Græjan er 4 sekúndur í hundraðið, kemst 400 km á hleðslunni og virðist vera ofursvöl græja. Og...hann kostar innan við 100.000 dollara. Strategían hjá þeim virðist vera að gera bílinn algengann hjá ríka fólkinu- fá umhverfismeðvitaða uppa til að skipta Porche-num út fyrir Teslu (Svona rafmagnsbíll myndi örugglega "get one laid" í henni Kaliforníu ,svo dæmi sé tekið). Afar snjallt.

Það sem ég er að velta fyrir mér er þet…

Menntakerfið byggir á úreltum og skaðlegum forsendum

Ákveðnar forsendur liggja til grundvallar í menntakerfinu okkar. Kerfið er í grófum dráttum svona:
Nemendum er skipt í hópa eftir aldri. Allir eru skulu dvelja á skólastofnun frá 6-16 ára. Þar skulu þeir læra samkvæmt gildandi aðalnámsskrá. Aðalnámsskráin er sett saman af sérfræðingum sem er gert að greina og ákveða hvað allir þurfa að læra svo að þeir séu tilbúnir í framhaldsnám og þátttöku í samfélaginu. Kennarar skulu svo gera sitt besta til að tryggja að allir nemendur tileinki sér sem mest af þeirri hæfni og þekkingu sem aðalnámsskráin segir til um. Það eiga sumsé allir að læra það sama. Frammistaða nemenda er vegin og metin frá upphafi með prófum og verkefnum sem eiga að segja til um hvernig þeim gengur.
Það er hægara sagt en gert að ná þeim markmiðum sem kerfið setur. Börnum er ekki eðlislægt að fylgja skipunum og sitja kyrr. Það þurfa þau samt að gera í skólanum, talsverðan hluta dags. Þau ráða engu um það hvað þau læra, hvenær, hvar, með hverjum eða hvernig (í flestum tilvik…

Lausn húsnæðisvandans: Lítil hús!

Mörg byggðarlög í landsbyggðunum eru í spennitreyju. Af ýmsum ástæðum er byggingarkostnaður þar hár (fjarlægð frá heildsölum í Reykjavík, skortur á iðnaðarmönnum o.fl.) og lágt fasteignaverð veldur því að útilokað er að selja eldri fasteign og kaupa sér nýja án þess að tapa á því stórfé. Sú eðlilega hringrás sem skapast þegar eldra fólk minnkar við sig til að fara í minna og hentugra húsnæði og rýmir þannig til fyrir barnafjölskyldum og yngra fólki er því rofin. Fólk fer beint út stóra húsinu sínu og á elliheimilið. Staðan er svo þannig í þeim landsbyggðum sem eru að vaxa (víðast vegna uppsveiflu í ferðaþjónustu) að stórvesen er að hýsa starfsfólk. Ungt fólk sem vill prófa að búa á þessum stöðum þarf annaðhvort að taka sénsinn á að kaupa sér einbýlishús sem það losnar svo tæpast við aftur, eða að leigja á háu verði, ef eitthvað leiguhúsnæði er þá í boði. 
Ég er með lausn á þessu. Hún er þessi:
Byggjum lítil og ódýr hús
Af hverju gerum við ráð fyrir að allir vilji búa í stóru húsi? Er…