Sunday, October 23, 2011

Rokk og ról

Á fimmtudag og föstudag spilaði ég í gítarveislu Bjössa Thor í Salnum í Kópavogi. Það var ekkert leiðinlegt. Ónei.

Fjörið byrjaði strax á þriðjudagskvöld þegar ég lenti í borginni. Ég fór beint á æfingu heim til Bjössa þar sem við renndum í lögin og fengum kaflaskiptingar á hreint. Þar komst ég að því (mér til talsverðrar skelfingar) að ég átti að taka sóló í bæði Hokus Pokus og Paranoid. Ég hafði lifaði í þeirri trú að ég ætti bara að syngja og spila rythmagítar. Og ekki nóg með að ég ætti að taka sóló, því í Paranoid áttu Guðmundur Pétursson og Þórður Árnason að vera með líka og við áttum að skiptast á sólóum. Ég er ekki frá því að það hafi aðeins losnað um hringvöðva við þessar fregnir.

Á miðvikudaginn var svo æfing í Salnum. Þar hitti ég undirleikarana, þá Jóhann Hjörleifsson og Jón Rafnsson. Algerir toppklassaspilarar og hrikalega næs gaurar. Við renndum í lögin og það gekk bara alveg bærilega. Á fimmtudeginum var svo soundtékk og eftir það var allt klárt fyrir kvöldið.

Stemningin baksviðs var mjög skemmtileg, en ekki laust við að smá spenna væri í loftinu. Það er ljóst að flestir losna aldrei alveg við sviðsskrekk, jafnvel eftir áratuga upptroðslur og fáranlega hæfileika. Það var smá huggun harmi gegn. Annars var mikið spjallað og grínast og ófáar rokksögur flugu milli manna. Allir þessir gaurar virkuðu ferlega fínir. Engir stjörnustælar í gangi. Robin Nolan hélt sig reyndar svolítið út af fyrir sig. Sat bara inni í búningsherbergi og hitaði upp. Greinilega alger pró. 

Jón Hilmar átti síðasta lag fyrir hlé. Hann spilaði lagið Cliffs of Dover, sem er epískt gítarhetjulag. Sennilega mest krefjandi lag kvöldsins og Jón Hilmar negldi það með stæl. Ég sá og heyrði á hinum gítarhetjunum að þeir voru impóneraðir.

Ég var nánast síðast í prógramminu, með þriðja- og næstsíðasta lag. Ég var með verulegan fiðring í maganum þegar ég fór inn á svið. Hokus Pokus er ekki besta lagið til að syngja "kaldur". Það gekk samt fínt, þótt reyndar hafi einn kafli klúðrast aðeins. Svo varð smá misskilningur í lokin og við hættum einum kafla of snemma. Það kom samt ekkert mjög að sök. Mér tókst að kreista út hæstu tónana og að klúðra mínum gítarpörtum ekki alveg. Paranoid gekk líka fínt og ég get ekki lýst því hvað það var klikkað móment að taka gítarsóló með Gumma Pé, Þórði Árna og Bjössa Thor. Ég leit út í sal og sá að tvær eldri konur héldu fyrir eyrun. Jess!

Ég fékk svo eitt lag í pásu á meðan Bjöggi Gísla spilaði "Sprengisand" með skyttunum þremur. Ég sturtaði í mig einum bjór og fór svo aftur á svið til að spila með í bússtandardnum "Stumble". Frábært kvöld og sennilega eftirminnilegasti afmælisdagur sem ég hef átt.

Seinna kvöldið var stressið aðeins minna. Reyndar voru komnar sirka 8 sjónvarpstökuvélar í salinn og fullt af auka ljósum. Við þurftum líka að mæta fyrr þetta kvöld til að mæta í smink! Mér þótti sérlega spaugilegt að það voru púðraðar á manni hendurnar.

Tónleikarnir gengu svo bara mjög vel og flutningur flestra laganna var orðinn slípaðari og áreynslulausari. Jón Hilmar lenti reyndar í því að fá blóðnasir í miðju lagi! Hversu mikið rokk er það?! Hann shreddaði svo svakalega að hann fékk blóðnasir! Honum tókst þrátt fyrir þetta að klára þetta hrikalega lag með stæl. Geri aðrir betur. Það var blóðblettur á gítarhálsinum sem ég vona að hann þvoi aldrei af. Það er líka spurning hvort að það tekst að ná blóðblettunum af sviðinu í Salnum. Ég vona ekki. Rokk og ról!

Minn flutningur gekk betur en kvöldið áður. Krádið var aðeins yngra og rokkþyrstara og Hokus Pokus féll vel í kramið. Gítarsólóin í Paranoid lengdust um helming og Gummi Pé mætti á svið með svartan eyeliner til heiðurs Ozzy Osborne. Hefði hugsanlega gert það sama ef ég væri ekki með svört gleraugu. Þórður Árna kom með '68 Les Paul á sviðið fyrir þetta lag. Þetta er með því skemmtilegra sem ég hef gert um dagana.

Ég er afar þakklátur Bjössa fyrir að fá að vera með í þessu. Bjössi er ekki bara frábær gítarleikari, heldur líka alveg svakalega fínn náungi. Gaman að fá að kynnast svona dásamlegu og litríku fólki.

Þessi reynsla hefur kennt mér tvennt:

a) Maður á aldrei að afskrifa hæfileika, sama hversu obskjúr þeir eru. Hvern hefði grunað að það ætti eftir að koma manni til góða að kunna að jóðla?

b) Maður á aldrei að láta undan ótta við að gera eitthvað (tjah...nema að það sér hreinlega hættulegt). Ef einhver býður manni að vera með í svonalöguðu, þá segir maður JÁ! Eða jafnvel HELL YEAH!

Saturday, October 15, 2011

Andinn snýr aftur

Eftir örstutta umhugsun hef ég ákveðið að byrja aftur að blogga á þessari síðu. Kollektífa bloggsíðan sem ég hef skrifað á síðustu mánuðina lognaðist eiginlega út af. Kannski af því að ég var farinn að skrifa megnið að innihaldinu (Humm....maður ætti kannski að taka þetta til sín og hætta þessari vitleysu? Eðaekki...)

Þessi fyrsta færsla verður sundurlaus grautur. You've been forwarned.

Fyrst smá frétt. Í næstu viku, á fimmtudag og föstudag nánar tiltekið, mun ég troða upp á höfuðborgarsvæðinu í fyrsta skipti. Ég mun spila með Birni Thoroddsen í Salnum í Kópavogi á tónleikum sem nefnast "Gítarveisla Bjössa Thor". Bjössi hefur haldið svona tónleika á hverju ári síðustu fimm árin eða svo og þeir verða sífellt vinsælli. Þarna verða gítarleikarar eins og Guðmundur Pétursson, Bjöggi Gísla, Þórður Árna og Robin Nolan. Og ÉG! WTF?

Þetta er þannig til komið að ég söng með Bjössa í sumar á Djasshátíð. Það kom til mjög óvænt. Það var lag á efnisskránni sem ég hélt í bríaríi fram að ég gæti sungið. Ég var tekinn á orðinu og kallaður upp til að "syngja" lagið, sem heitir "Hokus Pokus" og kemur úr smiðju hinnar hollensku hljómsveitar "Fokus". Bjössi var frekar ánægður með þetta og það varð úr að hann bað mig að koma suður og syngja þetta með honum aftur. Og ekki nóg með það, heldur fæ ég líka að syngja "Paranoid" með Black Sabbath og spila með honum á gítar. Þetta verður fjör! Til að kóróna þetta þá verða fyrri tónleikarnir á afmælisdaginn minn, auk þess sem RÚV tekur tónleikana upp.

Það er líka gaman að segja frá því að ég verð ekki eini norðfirski gítarleikarinn á þessum tónleikum, því Jón Hilmar verður líka þarna. Ég spái því að hann muni stimpla sig inn sem einn besti gítarleikari landsins þegar hann tekur "Cliffs of Dover". Það eru ekki margir gítarleikarar hérlendis sem ráða við það lag.

----------------------------

Ég fór í langt frí frá Facebook í sumar og haust. Er sannfærður um að mikil notkun á Facebook getur verði varasöm. Ég hef samt ákveðið að taka aftur upp takmarkaða notkun á henni, fyrst og fremst til að geta náð sambandi við fólk og til að miðla efni og fróðleik. Ég ætla hins vegar að takmarka notkun við örfáar mínútur á dag og nota hana fyrst og fremst sem verkfæri, en ekki stað til að hanga oft á dag eða lengi í einu. Og aldrei mun ég fá mér facebook í símann. Never!

----------------------------

Ég er að baksa við að melta nýju Opeth plötuna. Gífurlega metnaðarfullt stykki frá þessum snillingum. Þeir eru sumpartinn að taka lengra ýmsar pælingar af Watershed, en að stóru leyti er þessi plata mikil stefnubreyting. Ekki heyrist eitt einast urr á allri plötunni og ég verð nú að segja að ég sakna þess pínu. Hins vegar eru þessi ´70 prog áhrif agalega skemmtileg, sándið er frábært (enda Steve Wilson að mixa eins og fyrri daginn) og Akerfeldt brillerar í söngnum. Allur hljóðfæraleikur er unaður á að hlýða. Mendez fær meira pláss fyrir bassalínur og Axe stimplar sig endanlega inn sem einn besti trommari í bransanum. Þeir sem töluðu um að Lopez hefði verið "svo skemmtilega djassaður" þurfa endanlega að viðurkenna að Axe er ekki síðri trommari.

----------------------------

Ég er búinn að lesa talsvert upp á síðkastið. Plægði í gegnum hnullunginn "Game of Thrones". Það var ekki leiðinlegt. Held samt að ég láti bara duga að horfa á þættina. Mér skilst að þeir séu mjög trúir bókunum. Gott stöff. Er núna að lesa eina gamla eftir Jonathan Franzen. Sá maður er mikill snillingur. Mikið væri gaman að geta skrifað svona.

---------------------------

Góðar stundir. Ég mun dúndra hér inn færslum þegar andinn kemur yfir mig.