Skip to main content

Rokk og ról

Á fimmtudag og föstudag spilaði ég í gítarveislu Bjössa Thor í Salnum í Kópavogi. Það var ekkert leiðinlegt. Ónei.

Fjörið byrjaði strax á þriðjudagskvöld þegar ég lenti í borginni. Ég fór beint á æfingu heim til Bjössa þar sem við renndum í lögin og fengum kaflaskiptingar á hreint. Þar komst ég að því (mér til talsverðrar skelfingar) að ég átti að taka sóló í bæði Hokus Pokus og Paranoid. Ég hafði lifaði í þeirri trú að ég ætti bara að syngja og spila rythmagítar. Og ekki nóg með að ég ætti að taka sóló, því í Paranoid áttu Guðmundur Pétursson og Þórður Árnason að vera með líka og við áttum að skiptast á sólóum. Ég er ekki frá því að það hafi aðeins losnað um hringvöðva við þessar fregnir.

Á miðvikudaginn var svo æfing í Salnum. Þar hitti ég undirleikarana, þá Jóhann Hjörleifsson og Jón Rafnsson. Algerir toppklassaspilarar og hrikalega næs gaurar. Við renndum í lögin og það gekk bara alveg bærilega. Á fimmtudeginum var svo soundtékk og eftir það var allt klárt fyrir kvöldið.

Stemningin baksviðs var mjög skemmtileg, en ekki laust við að smá spenna væri í loftinu. Það er ljóst að flestir losna aldrei alveg við sviðsskrekk, jafnvel eftir áratuga upptroðslur og fáranlega hæfileika. Það var smá huggun harmi gegn. Annars var mikið spjallað og grínast og ófáar rokksögur flugu milli manna. Allir þessir gaurar virkuðu ferlega fínir. Engir stjörnustælar í gangi. Robin Nolan hélt sig reyndar svolítið út af fyrir sig. Sat bara inni í búningsherbergi og hitaði upp. Greinilega alger pró. 

Jón Hilmar átti síðasta lag fyrir hlé. Hann spilaði lagið Cliffs of Dover, sem er epískt gítarhetjulag. Sennilega mest krefjandi lag kvöldsins og Jón Hilmar negldi það með stæl. Ég sá og heyrði á hinum gítarhetjunum að þeir voru impóneraðir.

Ég var nánast síðast í prógramminu, með þriðja- og næstsíðasta lag. Ég var með verulegan fiðring í maganum þegar ég fór inn á svið. Hokus Pokus er ekki besta lagið til að syngja "kaldur". Það gekk samt fínt, þótt reyndar hafi einn kafli klúðrast aðeins. Svo varð smá misskilningur í lokin og við hættum einum kafla of snemma. Það kom samt ekkert mjög að sök. Mér tókst að kreista út hæstu tónana og að klúðra mínum gítarpörtum ekki alveg. Paranoid gekk líka fínt og ég get ekki lýst því hvað það var klikkað móment að taka gítarsóló með Gumma Pé, Þórði Árna og Bjössa Thor. Ég leit út í sal og sá að tvær eldri konur héldu fyrir eyrun. Jess!

Ég fékk svo eitt lag í pásu á meðan Bjöggi Gísla spilaði "Sprengisand" með skyttunum þremur. Ég sturtaði í mig einum bjór og fór svo aftur á svið til að spila með í bússtandardnum "Stumble". Frábært kvöld og sennilega eftirminnilegasti afmælisdagur sem ég hef átt.

Seinna kvöldið var stressið aðeins minna. Reyndar voru komnar sirka 8 sjónvarpstökuvélar í salinn og fullt af auka ljósum. Við þurftum líka að mæta fyrr þetta kvöld til að mæta í smink! Mér þótti sérlega spaugilegt að það voru púðraðar á manni hendurnar.

Tónleikarnir gengu svo bara mjög vel og flutningur flestra laganna var orðinn slípaðari og áreynslulausari. Jón Hilmar lenti reyndar í því að fá blóðnasir í miðju lagi! Hversu mikið rokk er það?! Hann shreddaði svo svakalega að hann fékk blóðnasir! Honum tókst þrátt fyrir þetta að klára þetta hrikalega lag með stæl. Geri aðrir betur. Það var blóðblettur á gítarhálsinum sem ég vona að hann þvoi aldrei af. Það er líka spurning hvort að það tekst að ná blóðblettunum af sviðinu í Salnum. Ég vona ekki. Rokk og ról!

Minn flutningur gekk betur en kvöldið áður. Krádið var aðeins yngra og rokkþyrstara og Hokus Pokus féll vel í kramið. Gítarsólóin í Paranoid lengdust um helming og Gummi Pé mætti á svið með svartan eyeliner til heiðurs Ozzy Osborne. Hefði hugsanlega gert það sama ef ég væri ekki með svört gleraugu. Þórður Árna kom með '68 Les Paul á sviðið fyrir þetta lag. Þetta er með því skemmtilegra sem ég hef gert um dagana.

Ég er afar þakklátur Bjössa fyrir að fá að vera með í þessu. Bjössi er ekki bara frábær gítarleikari, heldur líka alveg svakalega fínn náungi. Gaman að fá að kynnast svona dásamlegu og litríku fólki.

Þessi reynsla hefur kennt mér tvennt:

a) Maður á aldrei að afskrifa hæfileika, sama hversu obskjúr þeir eru. Hvern hefði grunað að það ætti eftir að koma manni til góða að kunna að jóðla?

b) Maður á aldrei að láta undan ótta við að gera eitthvað (tjah...nema að það sér hreinlega hættulegt). Ef einhver býður manni að vera með í svonalöguðu, þá segir maður JÁ! Eða jafnvel HELL YEAH!

Comments

Ragna said…
Þetta hefur pottþétt verið æði!! Vildi að ég hefði getað verið þarna, er úber stolt af þér!! :)
Anonymous said…
Mikið agalega er ég stoltur af þér. Vildi að ég hefði verið þarna. Sagan af Jóni og blóðnösinni er epísk.

Jón Knútur.

Popular posts from this blog

Rafmagnsbílar- ofurvélar

Var á leið í vinnu um daginn þegar ég heyrði viðtal við rafmagnsverkfræðing sem sagði illskiljanlegt af hverju ekki væri lögð meiri áhersla á framleiðslu og notkun rafmagnsbíla. Miklar framfarir hefðu orðið í framleiðlsu rafmótora og rafhlaðna og að í dag væru rafmagnsbílar fremri sprengimótorum að flestu, ef ekki öllu leyti.

Verandi forvitinn maður fór ég að rannsaka málið og datt niður á þessa síðu:

http://www.teslamotors.com/learn_more/faqs.php

Þetta er FAQ síða hjá fyrir tæki sem heitir Tesla Motors. Þeir framleiða rafmagnssportbíl (neibb....ekki oximoron!). Græjan er 4 sekúndur í hundraðið, kemst 400 km á hleðslunni og virðist vera ofursvöl græja. Og...hann kostar innan við 100.000 dollara. Strategían hjá þeim virðist vera að gera bílinn algengann hjá ríka fólkinu- fá umhverfismeðvitaða uppa til að skipta Porche-num út fyrir Teslu (Svona rafmagnsbíll myndi örugglega "get one laid" í henni Kaliforníu ,svo dæmi sé tekið). Afar snjallt.

Það sem ég er að velta fyrir mér er þet…

Menntakerfið byggir á úreltum og skaðlegum forsendum

Ákveðnar forsendur liggja til grundvallar í menntakerfinu okkar. Kerfið er í grófum dráttum svona:
Nemendum er skipt í hópa eftir aldri. Allir eru skulu dvelja á skólastofnun frá 6-16 ára. Þar skulu þeir læra samkvæmt gildandi aðalnámsskrá. Aðalnámsskráin er sett saman af sérfræðingum sem er gert að greina og ákveða hvað allir þurfa að læra svo að þeir séu tilbúnir í framhaldsnám og þátttöku í samfélaginu. Kennarar skulu svo gera sitt besta til að tryggja að allir nemendur tileinki sér sem mest af þeirri hæfni og þekkingu sem aðalnámsskráin segir til um. Það eiga sumsé allir að læra það sama. Frammistaða nemenda er vegin og metin frá upphafi með prófum og verkefnum sem eiga að segja til um hvernig þeim gengur.
Það er hægara sagt en gert að ná þeim markmiðum sem kerfið setur. Börnum er ekki eðlislægt að fylgja skipunum og sitja kyrr. Það þurfa þau samt að gera í skólanum, talsverðan hluta dags. Þau ráða engu um það hvað þau læra, hvenær, hvar, með hverjum eða hvernig (í flestum tilvik…

Lausn húsnæðisvandans: Lítil hús!

Mörg byggðarlög í landsbyggðunum eru í spennitreyju. Af ýmsum ástæðum er byggingarkostnaður þar hár (fjarlægð frá heildsölum í Reykjavík, skortur á iðnaðarmönnum o.fl.) og lágt fasteignaverð veldur því að útilokað er að selja eldri fasteign og kaupa sér nýja án þess að tapa á því stórfé. Sú eðlilega hringrás sem skapast þegar eldra fólk minnkar við sig til að fara í minna og hentugra húsnæði og rýmir þannig til fyrir barnafjölskyldum og yngra fólki er því rofin. Fólk fer beint út stóra húsinu sínu og á elliheimilið. Staðan er svo þannig í þeim landsbyggðum sem eru að vaxa (víðast vegna uppsveiflu í ferðaþjónustu) að stórvesen er að hýsa starfsfólk. Ungt fólk sem vill prófa að búa á þessum stöðum þarf annaðhvort að taka sénsinn á að kaupa sér einbýlishús sem það losnar svo tæpast við aftur, eða að leigja á háu verði, ef eitthvað leiguhúsnæði er þá í boði. 
Ég er með lausn á þessu. Hún er þessi:
Byggjum lítil og ódýr hús
Af hverju gerum við ráð fyrir að allir vilji búa í stóru húsi? Er…