Thursday, March 29, 2012

Ósjálfstæðisflokkurinn fengi mitt atkvæði

Síðustu vikur hef ég mikið unnið heima við og á kaffihúsi bæjarins (hvar ég sit nú og sötra afbragðsgott kaffi). Á þessum tíma hef ég fylgst betur með fréttum og þjóðmálaumræðu en síðustu ár. Get ekki sagt að það arna sé til þess fallið að bæta geð og lund. Því betur sem maður fylgist með, því svartsýnni verður maður. Ég er að verða endanlega sannfærður um að Íslendingar geta ekki stjórnað eigin málum.

Ég held því miður að Einar Steingrímsson hafi rétt fyrir sér. Ísland er andverðleikasamfélag. Við eigum ekki nóg af kláru fólki til að halda úti flóknu nútímasamfélagi. Það gerir vandann svo öllu verri að klárasta fólkið okkar kemst aldrei að til að láta ljós sitt skína. Það er ekki okkar besta fólk sem prílar upp á fjóshauginn og galar hæst. Besta fólkið okkar hefur engan áhuga á því að príla upp á fjóshauga.

En þetta er ekkert nýtt. Svona hefur þetta verið áratugum saman. Við erum samt hugsanlega fyrst núna að fá afleiðingarnar í hausinn af fullum þunga. Við höfum algerlega klúðrað okkar málum. Fjármálakerfið í heild sinni er ónýtt. Stór hluti Íslendinga er í skuldafangelsi þar sem dómarnir lengjast og þyngjast um hver mánaðarmót. Engin sátt ríkir um nokkurn skapaðan hlut. Við virðumst algerlega ófær um að komast að skynsamlegum og sanngjörnum niðurstöðum um nýtingu auðlinda lands og sjávar. Hver höndin er uppi á móti annari. Alþingi er óstarfhæft og rúið trausti. Fólk hefur enga trú lengur á stofnunum samfélagisins og væntingavísitalan er á lóðbeinni niðurleið.

Á Íslandi geisar andlegt borgarastríð

Síðast þegar borgarastríð geisaði á Íslandi voru menn nógu skynsamir til að átta sig á því að það þyrfti að höggva á hnútinn. Íslendingar gengust Noregskonungi á hönd og friður komst á í landinu. Ég er að komast á þá skoðun við sambærilega aðgerð þurfi nú. Ég var lengi vel á því að lausnin væri að ganga í Evrópusambandið, en ég óttast að í því myndi ekki felast nægilegt afsal fullveldis (eins og staðan á Írlandi og Grikklandi sýna glögglega). Ég held því að Íslendingar ættu að grátbiðja Norðmenn að taka við okkur aftur. Mér er skítsama þótt fiskimið og orkuauðlindir fylgi með í kaupunum. Við myndum njóta góðs af faglegri stjórnsýslu og verða hluti af öflugu og stöðugu hagkerfi. Losna við allt helvítis fúskið, sérhagsmunapotið, verðtryggingu og ónýtan gjaldmiðil á einu bretti.

AA samtökin predika að fyrsta skrefið í átt að bata sé að viðurkenna vandann. Að maður hafi ekki stjórn á sjálfum sér. Ég bíð því spenntur eftir því að stofnaður verði ósjálfstæðisflokkur. Sá flokkur myndi berjast fyrir því að Íslendingar horfist í augu við það að við séum of fá, vanmáttug og vanhæf til að stjórna eigin málum. Að við munum aldrei útkljá þetta andlega borgarastríð sjálf.

Slíkur flokkur fengi mitt atkvæði.

Friday, February 03, 2012

Póstmódernísk angistAfsakið uppskrúfaða fyrirsögn. Ég hef verið að velta þessum skrítnu tímum fyrir mér. Veruleikinn sem flestir upplifa verður brotakenndari með hverjum deginum. Hjá mörgum er stafræn örvun nánast stöðug. Ef menn eru ekki tengdir við netið, þá er sjónvarpið í gangi. Ef ekki sjónvarpið, þá útvarpið. Allan daginn upplifum við ólíkar túlkanir og útgáfur af veruleikanum. Sterk öfl hafa hagsmuna gæta í því að við trúum þeirra útgáfu af honum og kaupum í kjölfarið þeirra lausn. Við búum við alvarlegt offramboð af veruleikum. Og framboðið er sífellt að aukast. Einu sinni var það takmarkað við samskipti okkar og samræður við annað fólk. Svo komu bækur og blöð, útvarp, sjónvarp og loks netið. Netið varð svo þráðlaust og færanlegt og félagsvefir ruddu sér til rúms og hafa á skömmum tíma orðið óaðskiljanlegur hluti af lífi margra. Og veruleikaframboðið eykst stöðugt. Nú fáum ekki veruleikann bara frá fréttamönnum, skáldum og skríbentum. Við fáum hann úr mörg þúsund áttum: Á facebook, twitter og bloggsíðum.

Því miður held ég að þetta mikla framboð á veruleika sé ekki að gera okkur að hamingjusamari manneskjum. Það er sífellt erfiðara að gera sér grein fyrir því hvaða veruleiki á við rök að styðjast: Hvað er rétt og hvað er rangt. Heilabúið í manni fer á yfirsnúning við að reyna að móta sér skoðanir, fylgjast með umræðu, rannsóknum, fréttum....Og við erum húkkd á þessu. Það er eiginlega ekki valkostur að aftengjast og vera ekki með.

Ágætt dæmi sem ég hef upplifað á sjálfum mér eru hreyfing og næring. Ég hef áhuga á því að halda mér í formi og hef því verið duglegur að lesa mér til á þessum sviðum. Þar er hins vegar ekki auðvelt að finna svör. Ótal aðilar þykjast hafa höndlað sannleikann. Flestir vísa í rannsóknir máli sínu til stuðnings. Það er mjög erfitt fyrir leikmann að átta sig á því hvað snýr upp og hvað snýr niður. Maður þyrfti að fara í það fúlltæm að lesa sér til ef maður ætlaði að finna út úr þessu og það myndi sennilega varla duga til. Niðurstaðan verður sú að maður er kolringlaður í þessu og á erfitt með að ákveða hvað maður á að láta ofan í sig og gera til að halda sér í formi.

Og hreyfing og næring eru tilfölulega einföld mál miðað við margt annað sem maður hefur verið að spá í, svo sem pólitík, efnahagsmál, trúmál o.fl. Við höfum aðgang að meiri upplýsingum og skoðunum á því hvernig best er að lifa heldur en nokkru sinni fyrr og samt hefur aldrei verið eins erfitt að ákveða hvernig maður á að lifa. Möguleikarnir eru endalausir. Sjónarhornin eru svo mörg að mann svimar. Og vandamálið er enn verra ef maður er víðsýnn og opinn. Þetta er svolítið eins og að koma í verslun þar sem úrvalið er yfirgengilega mikið. Góður vinur minn eigraði til dæmis um í Mall of America í heilan dag og endaði svo á því að kaupa eina te-síu. Hættan er sú að valmöguleikarnir verði svo yfirþyrmandi að maður gefist upp á því að velja og endi hálf lamaður.

Ég ætla ekki að halda því fram að ég kunni lausnirnar á þessu. Mig rennur þó í grun um að það sem ég nefndi í síðasta pistli geti verið mikilvægt. Eftirfarandi leiðir gætu verið vænlegar til að díla við póstmóderníska angist:

1. Vera eins VIRKUR og mögulegt er. GERA meira, hugsa minna
2. Takmarka notkun á stafrænum miðlum. Skammta sér tíma daglega í net og sjónvarp.
3. Finna sér álitsgjafa/vísindamann/hugsuð sem maður treystir til að forvinna fyrir sig. Ég tek t.d. mikið mark á ákveðnum kvikmyndagagnrýnendum og er líklegri til að horfa það sem þeir gefa toppdóma. Maður getur gert það sama með margt annað. Ég er ekki að segja að maður eigi að slökkva á gagnrýninni hugsun eða að hætta að lesa sér til sjálfur, en það getur sparað mikinn tíma að finna einhvern fagnörd sem nennir að liggja yfir hlutunum og fylgja svo bara ráðleggingum viðkomandi.
4. Ekki gleyma að hreinsa hugann annað slagið. Til erum ýmsar leiðir til þess arna, en engin öflugri en hugleiðsla.