Thursday, March 29, 2012

Ósjálfstæðisflokkurinn fengi mitt atkvæði

Síðustu vikur hef ég mikið unnið heima við og á kaffihúsi bæjarins (hvar ég sit nú og sötra afbragðsgott kaffi). Á þessum tíma hef ég fylgst betur með fréttum og þjóðmálaumræðu en síðustu ár. Get ekki sagt að það arna sé til þess fallið að bæta geð og lund. Því betur sem maður fylgist með, því svartsýnni verður maður. Ég er að verða endanlega sannfærður um að Íslendingar geta ekki stjórnað eigin málum.

Ég held því miður að Einar Steingrímsson hafi rétt fyrir sér. Ísland er andverðleikasamfélag. Við eigum ekki nóg af kláru fólki til að halda úti flóknu nútímasamfélagi. Það gerir vandann svo öllu verri að klárasta fólkið okkar kemst aldrei að til að láta ljós sitt skína. Það er ekki okkar besta fólk sem prílar upp á fjóshauginn og galar hæst. Besta fólkið okkar hefur engan áhuga á því að príla upp á fjóshauga.

En þetta er ekkert nýtt. Svona hefur þetta verið áratugum saman. Við erum samt hugsanlega fyrst núna að fá afleiðingarnar í hausinn af fullum þunga. Við höfum algerlega klúðrað okkar málum. Fjármálakerfið í heild sinni er ónýtt. Stór hluti Íslendinga er í skuldafangelsi þar sem dómarnir lengjast og þyngjast um hver mánaðarmót. Engin sátt ríkir um nokkurn skapaðan hlut. Við virðumst algerlega ófær um að komast að skynsamlegum og sanngjörnum niðurstöðum um nýtingu auðlinda lands og sjávar. Hver höndin er uppi á móti annari. Alþingi er óstarfhæft og rúið trausti. Fólk hefur enga trú lengur á stofnunum samfélagisins og væntingavísitalan er á lóðbeinni niðurleið.

Á Íslandi geisar andlegt borgarastríð

Síðast þegar borgarastríð geisaði á Íslandi voru menn nógu skynsamir til að átta sig á því að það þyrfti að höggva á hnútinn. Íslendingar gengust Noregskonungi á hönd og friður komst á í landinu. Ég er að komast á þá skoðun við sambærilega aðgerð þurfi nú. Ég var lengi vel á því að lausnin væri að ganga í Evrópusambandið, en ég óttast að í því myndi ekki felast nægilegt afsal fullveldis (eins og staðan á Írlandi og Grikklandi sýna glögglega). Ég held því að Íslendingar ættu að grátbiðja Norðmenn að taka við okkur aftur. Mér er skítsama þótt fiskimið og orkuauðlindir fylgi með í kaupunum. Við myndum njóta góðs af faglegri stjórnsýslu og verða hluti af öflugu og stöðugu hagkerfi. Losna við allt helvítis fúskið, sérhagsmunapotið, verðtryggingu og ónýtan gjaldmiðil á einu bretti.

AA samtökin predika að fyrsta skrefið í átt að bata sé að viðurkenna vandann. Að maður hafi ekki stjórn á sjálfum sér. Ég bíð því spenntur eftir því að stofnaður verði ósjálfstæðisflokkur. Sá flokkur myndi berjast fyrir því að Íslendingar horfist í augu við það að við séum of fá, vanmáttug og vanhæf til að stjórna eigin málum. Að við munum aldrei útkljá þetta andlega borgarastríð sjálf.

Slíkur flokkur fengi mitt atkvæði.

2 comments:

Einar said...

Ég væri hlynntur þess háttar flokki Sigurður :) sérstaklega þeim flokki sem legði mikla áherslu á 5. og 9. spor AA samtakana :)

Siggi Óla said...

Haha! Nákvæmlega!