Saturday, November 15, 2014

Viskí- Ástarsaga

Síðustu árin hefur áhugi minn á viskí farið vaxandi og er nú orðinn allt að því þráhyggjukenndur. Ég er endanlega og gersamlega kolfallinn fyrir þessum guðaveigum.

Ég hef drukkið viskí ansi lengi. Var byrjaður að smakka það löngu áður en ég hafði aldur til. Þá var það drukkið með klaka eða út í kók, en svoleiðis gera alvöru viskímenn ekki. Þegar ég var kominn undir þrítugt fór ég svo að daðra við alvöru einmöltunga og á góðar minningar um að sötra Highland Park og Laphroaig með góðum vinum. En svo tók við mikið víntímabil þar sem ég drakk aðallega rauðvín mér til ánægju og ef ég drakk eitthvað sterkara þá var það oftar en ekki koníak. 

Svo kviknaði áhuginn aftur, ekki síst vegna viskíáhuga vina minna sem höfðu frelsast á ferðalagi í Skotlandi (þetta er smitandi!). Á sama tima tók ástkær eiginkona mín upp á því að gefa mér viskíflösku í jólagjöf og það gerði endanlega út um málið. A whisky nerd was born. 

Viskí er dásamlegur vökvi. Það er gífurlega fjölbreytt að bragði og lykt og mun raunar vera flóknasti drykkur sem mannkynið hefur fundið upp. Sem dæmi má nefna að talsvert fleiri bragð- og lyktartóna má finna í viskíi heldur en í rauðvíni. Gott viskí er sinfónía lyktar og bragðs og er það ekki síst lyktin sem maður verður svona ofboðslega hrifinn af. Hér kemur lýsing á viskíinu sem ég drakk í gærkveldi: Ardbeg Corrywreckan: 

Nose: sweet peat smoke mixed with lemons, fresh kumquats but also slightly overdue oranges. Walnuts and wet wool. A few grassy notes and hints of heavily toasted bread. Roasted nuts and a few spicy notes emerge after a while (pepper and ginger). I even picked up hints of violet candy which is quite remarkable. They were gone quickly, but it proves the Corryvreckan is indeed a real whirlpool of flavours. Mouth: very strong impact, starting rather sweet but evolving towards a spicy / savoury profile. Peppery with generous coal smoke. Lemon again, liquorice, phenols, very Ardbeggy. Toast with peach jam. Some cocoa. Finish: very long, continuously switching between peat, salt, mocha and pepper. Hints of olive juice.

Ég er sjálfur langt frá því að hafa svona þrautþjálfað lyktar- og bragðskyn. Ég hef reyndar ekkert óskaplega sterka þörf fyrir að setja merkimiða á lykt og bragð, ekki frekar en ég hef þörf fyrir að spá í tónfræði á meðan ég hlusta á tónlist. Ég vil bara njóta. Maður þarf ekki að vita allt um abstrakt-expressjónisma til að finnast myndirnar hans Jackson Pollock vera fallegar.  

Viskí eru sumsé mjög ólík og fjölbreytt og það getur farið eftir skapi og stemningu hvað mann langar að drekka. Sum viskí eru fínasti fordrykkur, létt, fersk og blómleg, á meðan önnur eru það síðasta sem maður drekkur það kvöldið, flókin, massíf og ofboðslega bragðmikil. Mér finnst mörg ólík viskí vera góð, en ég er mest heillaður af þeim flóknu og bragðmiklu. Viskíin frá eyjunni Islay skipa sérstakan sess í viskískápnum mínum, en þau eru flest flókin og bragðmikil. Mörg þeirra eru gerð úr móþurkkuðu byggi, sem gefur reyktan keim. Í skápunum mínum á ég núna viskí frá Ardbeg, Caol Ila, Lagavulin, Bunnahabain, Bruichladdich. Öll nema eitt eru móviskí, en öll eru þau stórfengleg. Islay virðist vera töfraeyja, því þar virðist eingöngu vera framleitt frábært viskí. Mig vantar sárlega Laphroaig, Bowmore og Kilchoman í skápinn hjá mér, svo að ég eigi eitthvað frá öllum framleiðendum á eyjunni. Islay er mitt Shangri La og þangað mun ég klárlega fara einhvern daginn. 

Eitt af því skemmtilega við viskínördisma er sú staðreynd að manni mun ekki endast ævin í að smakka þau viskí sem framleidd eru í heiminum. Um 100 framleiðendur er að finna í Skotlandi og svo eru framleidd áhugaverð viskí í mörgum öðrum löndum (bráðum verður hægt að drekka íslenskt viskí!). Flestir framleiðendur búa til nokkrar útfærslur af viskíi.  Mikið er skrifað og skrafað um það, endalaust hægt að lesa sér til, spá og spekúlera. Þetta er því fyrirtaks nördaáhugamál. 

Ef einhver skyldi hafa áhyggjur af því að ég stefni hraðbyri inn í full blown alkóhólisma, þá tek ég fram að ég drekk viskí í ákaflega litlu magni. Ég drekk ca. einn einfaldan á dag. Ég skipti þessum einfalda oftast í tvennt og drekk þá hálffaldan af tveimur viskíum úr safninu mínu. Ég er núna með átta flöskur opnar og það fer eftir skapi hvað af þessu ég drekk. Stóri kosturinn við viskí er það hvað maður fær ofboðslega mikla ánægju úr lítilli fingurbjörg af vökva. Ég get setið með hálffaldan viskí í klukkutíma, þefað og smjattað. Dásamlegt! Þetta þýðir líka að viskí er í raun frekar ódýr lúxus. Einn einfaldur er 25 millilítrar. Það eru því 40 einfaldir í lítersflösku. Ef flaskan kostar 10.000 kr, þá kostar 250 kr. að drekka einn einfaldan á dag.

Eitt af því sem gleður mig samt mest við þennan nýblómstraða viskíáhuga er sú staðreynd að maður skuli geta eignast ný áhugamál þótt maður sé að verða miðaldra. Ég er þess fullviss að þetta áhugamál mun fylgja mér ævina á enda, eins og tónlist, bókmenntir, matur og fjölmargt annað sem ég hef ástríðu fyrir. Hver veit hvað á eftir að bætast á listann?
Friday, July 04, 2014

Aldan

Ég bauð pabba út að borða á Öldunni á Seyðisfirði í vikunni. Hann varð sextugur í maí og ég ákvað að afmælisgjöfin yrði í formi gönguferða og sælkerafóðurs. Það reyndist vera góð ákvörðun. Við gengum víða um þennan fallega fjörð tvo daga í röð og máltíðin olli svo sannarlega ekki vonbrigðum.

Í forrétt boðuðum við grafið lamb með geitaosti. Mikið bragð of hvoru tveggja. Mjög vel heppnaður réttur sem gældi við bragðlaukana. Með þessu drakk ég fyrirtaks Rioja Reserva sem gat staðið uppi í ullinni á lambinu og geitinni. 

Í aðalrétt borðuðum við fisk dagsins, sem reyndist vera þorskur. Á disknum reyndist vera stóreflis hnkkastykki, hárrétt eldað og ekki ofkryddað eða saltað. Datt í fallegar flögur sem bráðnuðu í munni. Þorskurinn var á byggbeði sem var mjög gott, kryddað með hvítlauk og kryddjurtum. Fíngert bragð sem yfirgnæfði ekki þorskinn og smellpassaði. Með þessu var ferskt og gott salat. Í heildina frábær réttur og einhver besti þorskur sem ég hef borðað. Með þessu drakk ég dásamlegt vín, Villa Maria Sauvignon Blanc frá Nýja Sjálandi. Villa Maria er uppáhaldsvínið mitt frá hinu magíska Marlborough héraði, en þar virðast eingöngu vera framleidd góð hvítvín (hef enn ekki smakkað vont vín þaðan!). Mæli eindregið með Vicar's Choice, Cloudy Bay, Oyster Bay og Spy Valley, auk Villa Maria.

Í eftirrétt borðaði ég Creme Brulee sem var fullkomið. Nákvæmlega eins og það á að vera. Minn uppáhalds eftirréttur. Ég stenst sjaldnast freistinguna þegar það er í boði, enda engin ástæða til. Með þessu drakk ég prýðilegt kaffi og 18 ára gamalt Highland Park. Frábært!

Þjónustan var mjög fagmannleg og vingjarnleg í alla staði. Staðurinn er huggulega innréttaður og ekki spillti fyrir að við höfðum útsýni út á spegilslétt lónið. 

Það eina sem ég hnaut um var verðið, sem mér fannst í hærri kantinum, en það er væntanlega afleiðing þess að mikill meirihluti viðskiptavina eru erlendir ferðamenn. Hreindýrasteik kostaði t.d. hátt í 10.000 krónur. Ég efast um að margir Íslendingar séu tilbúnir til að borga svo mikið fyrir aðalrétt. Ég skil samt vel að veitingamenn nýti sér þessa miklu eftirspurn, en auðvitað er spurning hvenær of langt er gengið. Ég hef þó ekki sárar áhyggjur af því. Menn munu auðvitað lækka verðið um leið og þeir sjá eftirspurnina falla. Þannig virkar business. En það er miður ef menn eru í auknum mæli að verðleggja sig út af innanlandsmarkaði. Það væri skemmtilegast að hafa þetta í sæmilegu jafnvægi þannig að íslenskir matgæðingar geti leyft sér að nota alla þessa frábæru veitingastaði okkar.

Ég tek þó fram að mér blöskraði ekki verðmiðinn á máltíðinni í heild, en þess ber þó að geta að við drukkum í hófi og pöntuðum fisk dagsins, sem er yfirleitt hagstæður kostur. En ég borgaði reikninginn sumsé með brosi á vör og fannst máltíðin virkilega vera peninganna virði. Ein albesta máltið sem ég hef nokkru sinni borðað á Austurlandi. 

Að lokum vil ég mæla eindregið með Seyðisfirði sem áfangastað göngufólks. Fjörðurinn er gríðarstór og þar má finna ótal gönguleiðir. Náttúrufegurðin er einstök. Við gengum út á Brimnes, upp í Vestdal og upp í Botna og allsstaðar var fegurðin nánast yfirþyrmandi. Fjallasýnin er mögnuð og fjöldi fallegra fossa meiri en nokkursstaðar sem ég hef komið. Með öll sín gömlu hús og fossaprýdd fjöllin allt um kring er Seyðisfjörður einfaldlega fallegasti bær á Íslandi. 

Saturday, June 28, 2014

Randulfs-sjóhúsið: Matur og tónlist

Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að borða á Randulfs-sjóhúsinu í vikunni. Nafnið er pínu óþjált, en matur og þjónusta voru hins vegar í fínum klassa! Gaman að sjá hvað veitingamenning er á hraðri uppleið í Fjarðabyggð.

Ég kom ekki bara í Sjóhúsið til að snæða, því þetta kvöld voru þar tónleikar sem ég vildi ekki missa af. Vinir mínir í hljómveitinni "Dútl" voru að spila með Garðari Eðvaldssyni og Hugo Hilde. Meira um það síðar.

Við vorum fimm saman og áttum bókað borð. Móttökur voru afar hlýlegar. Mateðillinn er stuttur og einfaldur, en talsverðan valkvíða setti að mér sökum þess hve girnilega allt hljómaði. Ég endaði á því að panta grafna gæs og reykt hreindýr í forrétt, þrátt fyrir að hafa smá áhyggjur af því að sjávarfangið yrði dauflegt í samanburði við svo bragðmikinn forrétt. Ég pantaði mér sjávarréttasúpu í aðalrétt, en Hildigunnur vinkona okkar sem þjónaði okkur til borðs mælti sérstaklega með henni. Ég var skelfilega svangur, þannig að biðin eftir matnum var hálfgerð kvöl og pína. Það sló þó á sárasta hungrið að við fengum mjög gott brauð á borðið sem var skemmtilega borið fram í bréfpokum og með þeyttu smjöri á steini. Prýðileg byrjun.

Forrétturinn stóðst væntingar og var mjög svipaður og ég gerði mér í hugarlund. Bæði hreindýr og gæs brögðuðust stórvel og berjasósan smellpassaði á móti sterku villibráðar og reykbragði. Með þessu drakk ég Morande Cabernet, sem mér hefur alltaf þótt gott vín. Nógu bragðmikið til að hafa roð við þessum bragðmikla rétti.

Aðalrétturinn var skemmtilega borinn fram. Fyrst kom diskur fullur af sjávarfangi á borðið. Svo var súpunni hellt úr könnu yfir allt saman. Sjávarfangið var mjög ferskt og gott, bæði fiskur og skel, súpan mild en góð á bragðið og ekki farið offari í rjóma- hvað þá einhverju hveitigumsi eða öðrum þykkingarefnum. Bragðið af sjávarfanginu fékk virkilega að njóta sín og engin óþörft krydd skyggðu á.. Með þessu drakk ég ágætlega frambærilegt ítalskt Pinot Grigio, en láðist að festa í minni frá hvaða húsi það kom.

Í eftirrétt pöntuðum við hjónin saman eftirrétt út skyri sem ég náði ekki að fá nema tvo bita af áður en mín heittelskaða var búinn að gleypa hann í sig. Mig minnir þó að í þessu hafi verið marengs og einhverskonar frosstþurrkaður rabbabari sem var alveg fáránlega góður. Með þessu drakk ég kaffi og 12 ára gamalt Balvenie vískí, sem gladdi mig mjög. Gaman að sjá að flest veitingahús bjóða orðið upp á a.m.k. einn góðan einmöltung og sjóhúsið átti reyndar þrjá slíka í sínum litla bar.

Þjónustan var ákaflega almennileg og hlýleg, þrátt fyrir ansi krefjandi aðstæður. Staðurinn var algerlega smekkfullur og ekki auðvelt að smokra sér á milli borða. Prik fyrir það! Eins var biðin eftir matnum merkilega stutt þrátt fyrir mannfjöldan og þá staðreynd að eldhúsið er pínulítið og einn matreiðslumaður þar að störfum. Það hefði verið auðvelt að klúðra svona kvöldi, en sú var svo sannarlega ekki raunin. Berglind og Sævar voru sjálf að vinna til að tryggja að allt gengi upp. Mikið dugnaðarfólk sem á hrós skilið fyrir þá uppbyggingu sem þau hafa staðið fyrir í ferðaþjónustu í Fjarðabyggð.

Tónleikarnir voru svo auðvitað punkturinn yfir i-ið. Staðurinn er mjög skemmtilega innréttaður og hlýlegur, fullur af minjum frá liðinni tíð, þannig að andrúmsloftið spillti svo sannarlega ekki fyrir. Eins var verðrið yndislegt; spegilsléttur sjór og hlýtt. Opið var út svo að ekki liði nú yfir neinn úr súrefnisskorti og það gaf skemmtilegan blæ að sjá út á bryggju og sléttan sjóinn. Á miðjum tónleikum tók par nokkurt tangóspor á bryggjunni, sem gladdi mig mjög.

Vinir mínir í Dútlinu (Jón Hilmar Kárason, Orri Smárason og Þorlákur Ægir Ágústsson) stóðu sig eins og hetjur og göldruðu fram norsk þjóðlög, klezmer, djassstandarda, tangó, bíbopp og bossanova eins og sannir fagmenn. Þetta var sérlega impónerandi í ljósi þess að þeir hittu Hugo Hilde fyrst daginn áður. Maður fyllist stolti yfir því að við skulum eiga músíkanta hér í heimabyggð í þessum klassa. Þeir fóru þarna talsvert út fyrir þægindarammann (ekki síst þungarokkstrommarinn Orri Smárason) og rúlluðu því upp! Mér fannst sérlega gaman að heyra Jón Hilmar spila á Gibson Les Paul sem smellpassaði fyrir tónlistina á prógramminu. Jón er klárlega í fremstu röð gítarleikara landsins í dag.

Hugo Hilde er greinilega mikill hæfileikadrengur. Hann er aðeins tvítugur að aldri, en var ákaflega öruggur performer. Fiðlan hljómaði dásamlega, en hún mun vera smíðuð í Vínarborg árið sautjánhundruðogsúrkál. Hugo er melódískur, mússíkalskur og smekklegur spilari og datt aldrei í óþarfa "shredd", eins og ungir virtúósar eiga of til, en hann tók þó spretti sem sýndu glöggt mikla tæknilega getu. Hugo kemur frá Vesteralen í Noregi og er koma hans liður í samstarfi við Menningarráð Austurlands.

Garðar Eðvaldsson kom mér samt eiginlega mest á óvart, en ég hef ekki heyrt hann spila lengi. Hann er orðinn ákaflega góður tónlistarmaður, ekki síst miðað við ungan aldur. Hann er afslappaður á sviði, tónninn gullfallegur, fraseringar stórskemmtilegar og svo hefur hann greinilega mjög næmt taktskyn og var oft skemmtilega aftarlega á bítinu. Ég vona innilega að Garðar geri saxófónleik að ævistarfi, því hæfileikarnir eru greinilega miklir.

Frábært kvöld í Sjóhúsinu. Þangað fer ég örugglega aftur. Mikið er nú gaman að geta valið úr góðum veitingahúsum í heimabyggð! Næst liggur leið á L'Abri á Fáskrúðsfirði, en þar er ég mjög spenntur að koma.

Wednesday, May 28, 2014

Kaupfélagsbarinn: Frábær nýr veitingastaður í Neskaupstað

Síðast þegar ég skrifaði pistil á þessu bloggi var ég að bölsótast yfir skelfilegum skorti á alvöru veitingastöðum í Fjarðabyggð. Mér finnst óskaplega skemmtilegt að borða góðan mat og rann til rifja að hvergi skyldi vera hægt að fá alvöru veitingahúsaupplifun í minni heimabyggð (tek reyndar aftur fram að ég hef ekki prófað Randulfssjóhúsið á Eskifirði, sem er opið yfir sumartímann).

En nú er öldin önnur. Nýtt veitingahús hefur opnað í Neskaupstað og það er sko alvöru veitingahús.

Ég borðaði á Kaupfélagsbarnum á Hildibrand Hótel í gærkveldi með fjölskyldunni. Tilefnið var afmæli eiginkonunnar. Máltíðin var hreint út sagt frábær. Ég byrjaði á humarsúpu. Kannski ekki mjög ævintýragjarnt val af svona spennandi matseðli, en það getur verið mjög gott að prófa klassískan rétt til að gá hvernig veitingastaðir standast samanburð. Súpan var nákvæmlega eins og ég vil hafa humarsúpu, í frábæru jafnvægi, þar sem ekkert yfirgnæfði annað. Skýrt og gott humarbragð, örlítill koníakskeimur, ekki of mikið af rjóma, fersk steinselja og nóg af góðum humri. Góð byrjun!

Í aðalrétt fékk ég lambafilet með fennel í lakkríssósu með kartöfluköku og sultuðum rauðlauk. Kjötið var passlega steikt og lungamjúkt. Sósan var dásamleg og lakkrísbragðið passlega milt. Meðlætið harmóneraði mjög vel við kjötið og sósuna.

Í eftirrétt fengum við bakka með þremur mismunandi eftirréttum: "randalín" ísköku, skyrköku og súkkulaði á þrjá vegu. Allt virkilega gott stöff, en ísinn stóð upp úr. Mæli eindregið með honum.

Ég smakkaði líka að sjálfsögðu allt sem allir aðrir við borðið pöntuðu. Jóna fékk salat með gröfnu folaldafilet, Sigga Thea lax og Júlli litli hamborgara. Allt var þetta mjög gott.

Vínin sem ég drakk með matnum voru vín hússins, bæði rautt og hvítt. Bæði frá vínhúsinu Piccini á Ítalíu, mjög frambærileg og vönduð. Hvítvínið þótti mér sérlega ljúft og man hreinlega ekki eftir því að hafa fengið betra hvítvín hússins. Mjög algengt er að lakari veitingahús falli í þá gryfju að hafa óspennandi vín hússins, en það er klárlega ekki raunin hér. Aukaprik fyrir það, þar sem að ég drekk oftast vín hússins í glasavís, enda eiginkonan ekki mikið gefin fyrir sopann. Mér láðist raunar að skoða vínseðilinn, en þegar ég leit upp í hillurnar voru ítösk vín áberandi, sem er vel. Þau eru yfirleitt mest "bang for the buck" að mínu viti.

Kaupfélagsbarinn er sérlega fallega innréttaður. Húsbúnaður er smekklegur og stílhreinn, en viðarklæðning, listmunir og gamlar myndir á veggjum skapa hlýlegt andrúmsloft sem oft vill vanta þegar menn ganga langt í minimalismanum. Ekki spillir fyrir að útsýni er beint út á fjörð. Virkilega huggulegt veitingahús.

Þjónustan var fumlaus og alúðleg og lágstemmd brasilísk bossanovatónlist hljómaði í bakgrunni. Verð var mjög sanngjarnt miðað við gæði. Getur maður beðið um meira?

Að máltíð lokinni gengum við út södd og sæl. Ég var nánast klökkur af gleði yfir því að vera kominn með svona góðan veitingastað í bæinn minn. Nú er bara að vona að Hákoni og co. takist að halda þessum klassa, en ef svo verður þá má reikna með að ég verði fastagestur. Ég hvet Norðfirðinga og nærsveitunga að sjálfsögðu til að prófa, því hér er komið veitingahús sem myndi sóma sér fyllilega í miðborg Reykjavíkur.

Ég var reyndar svo spenntur að fara aftur að ég kíkti þangað í hádeginu í dag og borðaði gómsætt Sushi. Ljóst er að Kaupfélagsbarinn verður mjög freistandi kostur í hádeginu líka.

 

Monday, February 03, 2014

Matur er mannsins megin..

..segir máltækið. Því er ég hjartanlega sammála. Mér finnst fátt dásamlegra en að sitja á góðum veitingastað og gæða mér á ljúfum mat og víni, helst í góðum félagsskap. Því þykir mér mjög miður að næsti veitingastaður sem uppfyllir þær kröfur sem matgæðingar gera til veitingahúsa skuli vera á Egilsstöðum. Ég þarf sumsé að keyra í klukkutíma til að kaupa þessa upplifun.

Nú er ég ekki að halda því fram að það sé engin leið að kaupa ætan mat annarsstaðar en á Egilsstöðum. Ég hef oft fengið ágætan mat á veitingastöðum á Norðfirði, Eskifirði, Reyðarfirði og Fáskrúðsfirði. Ég hef bara mjög sjaldan fengið þá upplifun að ég sé á alvöru veitingahúsi hér niðri á fjörðum og ég held að allir áhugamenn um mat og matarmenningu deili þessari skoðun með mér. Afleiðingin er auðvitað sú að maður nennir ekki "út að borða" í Fjarðabyggð. Og það finnst mér barasta alveg ferlegt.

Ég ætla því, alveg ókeypis, að gera veitingamönnum hér á svæðinu þann greiða að útskýra hvað þarf til uppfylla mínar væntingar til veitingahúsa. Og eins og áður var gefið í skyn, þá tel ég að matgæðingar séu almennt sammála um þessar kröfur:


 • Þegar ég geng inn á veitingastað, þá vill ég koma inn í notalegt og snyrtilegt umhverfi
 • Ef einhver tónlist er á fóninum, þá er það lágstemmd tónlist sem truflar ekki samtöl eða dregur athyglina of mikið frá mat og samskiptum (og í guðs nafni ekki hafa stillt á FM957 eða Bylgjuna, því þá missi ég bæði matarlyst og lífsvilja).
 • Þegar ég geng inn á veitingastað, þá býst ég við því að hitta einhvern sem lætur mér finnast ég vera velkominn og vísar mér til sætis.
 • Um leið og ég er sestur lætur þessi sami aðili mér í té matseðil, segir frá rétti dagsins og býður upp á drykki.
 • Viðkomandi sækir svo drykkina og spyr hvort ég sé tilbúinn að panta eða hvort ég þurfi nokkrar mínútur í viðbót. Vilji svo ólíklega til að ég þurfi nokkrar mínútur aukalega, þá hefur þjónustuaðili auga með því hvenær ég er tilbúinn til að panta.
 • Hvað matseðilinn varðar, þá ættu eingöngu að vera á honum réttir sem matreiðslumaðurinn ræður við að elda, úr góðum hráefnum sem eru til taks þegar á þarf að halda. Annars ætti rétturinn ekki að vera á matseðlinum. Því er oftast vænlegt að hafa matseðil sem inniheldur fáa en pottþétta rétti. Mér finnst svo persónulega mjög æskilegt að veitingastaðurinn leggi sem mest upp úr ferskum lókal hráefnum.
 • Þegar ég panta á þjónninn að geta svarað spurningum um matinn. Hann á að vita í grófum dráttum hvað er í hverjum rétti og ef ekki þá á hann að bjóðast til þess af fyrra bragði að spyrja kokkinn. Ef ég panta steik, þá á að spyrja hvernig ég vilji fá hana eldaða.
 • Ég á ekki að þurfa að minnast á að ég vilji panta drykk með matnum. Það er eðileg spurning þegar búið er að taka niður matarpöntun. Þjóninn á að geta ráðlagt mér um það hvaða vín gæti passað með hverjum rétti og hann á að geta lýst hverju víni í grófum dráttum (þurrt, ávaxtaríkt, sætt....) og hann á að þekkja og kunna að bera fram nöfn á helstu vínþrúgum og vita hvaðan vínin koma.
 • Eftir að pöntun hefur verið tekin á ekki að líða heil eilífð áður en fyrsti réttur kemur á borðið. Ég á helst að fá matinn minn á undan fólki sem pantar á eftir mér. Þetta á sérstaklega við ef biðin eftir matnum er í lengri kantinum. 
 • Ef eitthvað er sérstakt við matinn sem er borinn fram (sem ekki var minnst á við pöntun), er sterkur leikur að segja frá því, hvort sem um er að ræða ferskleika, uppruna, meðhöndlun eða eldun.
 • Maturinn á að vera í samræmi við lýsingu á matseðli og óskir mínar um eldun. Kjöt á að vera steikt eins og ég bað um það og fiskur á ekki að vera ofeldaður eða þurr.
 • Þegar ég er byrjaður að borða finnst mér ágætt að vera spurður hvernig mér líki maturinn. Ef ég hef eitthvað út á matinn að setja, þá býst ég við liprum viðbrögðum (t.d. ef steikin er fullhrá...)
 • Þegar ég er búinn að borða vill ég að mér sé boðið að kíkja á eftirréttaseðilinn, jafnvel þótt ég hafi ekki pantað eftirrétt. Ég vil jafnframt að mér sé boðið kaffi eða drykkur. Ef ég spyr hvernig viskí eða koníak sé til, þá á þjóninn að geta svarað því eða náð í lista til að leyfa mér að skoða. Ef ég panta mér drykk þá vill ég fá hann borinn fram í viðeigandi glasi á viðeigandi hátt. 
 • Þegar ég yfirgef staðinn þá vill ég fá kveðju sem bendir til þess að veitingamaðurinn hafi verið ánægður með að fá mig í heimsókn og vilji glaður sjá mig aftur.

Eflaust mætti telja upp fleira, en þetta er það helsta. Þetta virðist vera langur og ógnvekjandi listi, en þetta eru bara þær kröfur sem flestir sæmilega sjóaðir matgæðingar gera þegar þeir fara út að borða. Ef veitingahúsi tekst ekki að uppfylla eitthvað af þessum kröfum, þá tek ég undantekningalítið eftir því. Slík mistök eru auðvitað misalvarleg, en ef þau eru mörg, þá hefur það veruleg áhrif á upplifunina. Það er helst að maður fyrirgefi mistök ef viðmót er notalegt og þá tekur maður viljann fyrir verkið. Staðreyndin er sú að það vill enginn eyða 20.000 kalli í máltíð nema að þessar kröfur séu flestar sæmilega uppfylltar. Á síðustu árum hef ég borðað á sirka þremur stöðum hér eystra sem uppfylltu allar þessar kröfur sæmilega: Gistihúsinu Egilsstöðum, Hótel Héraði og Öldunni á Seyðisfirði.

Mér dettur ekki í hug að halda því fram að það sé einfalt mál að reka gott veitingahús hér "in the middle of nowhere", en margt af því sem finna má á þessum lista er alls ekki flókið. Ég átta mig ekki alveg á því af hverju veitingahús á Héraði geta uppfyllt þessar kröfur, en ekki veitingahús í Fjarðabyggð (hér vill ég reyndar slá þann varnagla að það er orðið nokkuð langt síðan ég hef reynt að fara út að borða á sumum veitingahúsum í Fjarðabyggð og að ég prófaði ekki t.d. Randulfssjóhúsið í sumar..).

En...eníveis...þetta er það sem til þarf að mínu mati. Ég fer ekki að eyða alvöru peningum í að fara út að borða nema að sem flestum þessara krafna sé mætt.

P.S: Smá viðbót um vín: Velja þarf vandlega á vínlista. Vín þurfa að vera í samræmi við þann mat sem er í boði. Ef áherslan er á steikur, þá þurfa að vera til einhver kick-ass rauðvín sem ganga með alvöru steik. Allir alvöru veitingastaðir eru með sæmilegt vín sem "vín hússins". Og plís ekki hafa "Gato Negro" eða "Drostdy Hof" sem vín hússins. Það er ekkert mál að finna ljúf, vönduð og fjölhæf vín frá t.d. Ítalíu og Frakklandi á samkeppnishæfu verði sem eru mun áhugaverðari en þessi dæmigerðu húsvín.