Wednesday, May 28, 2014

Kaupfélagsbarinn: Frábær nýr veitingastaður í Neskaupstað

Síðast þegar ég skrifaði pistil á þessu bloggi var ég að bölsótast yfir skelfilegum skorti á alvöru veitingastöðum í Fjarðabyggð. Mér finnst óskaplega skemmtilegt að borða góðan mat og rann til rifja að hvergi skyldi vera hægt að fá alvöru veitingahúsaupplifun í minni heimabyggð (tek reyndar aftur fram að ég hef ekki prófað Randulfssjóhúsið á Eskifirði, sem er opið yfir sumartímann).

En nú er öldin önnur. Nýtt veitingahús hefur opnað í Neskaupstað og það er sko alvöru veitingahús.

Ég borðaði á Kaupfélagsbarnum á Hildibrand Hótel í gærkveldi með fjölskyldunni. Tilefnið var afmæli eiginkonunnar. Máltíðin var hreint út sagt frábær. Ég byrjaði á humarsúpu. Kannski ekki mjög ævintýragjarnt val af svona spennandi matseðli, en það getur verið mjög gott að prófa klassískan rétt til að gá hvernig veitingastaðir standast samanburð. Súpan var nákvæmlega eins og ég vil hafa humarsúpu, í frábæru jafnvægi, þar sem ekkert yfirgnæfði annað. Skýrt og gott humarbragð, örlítill koníakskeimur, ekki of mikið af rjóma, fersk steinselja og nóg af góðum humri. Góð byrjun!

Í aðalrétt fékk ég lambafilet með fennel í lakkríssósu með kartöfluköku og sultuðum rauðlauk. Kjötið var passlega steikt og lungamjúkt. Sósan var dásamleg og lakkrísbragðið passlega milt. Meðlætið harmóneraði mjög vel við kjötið og sósuna.

Í eftirrétt fengum við bakka með þremur mismunandi eftirréttum: "randalín" ísköku, skyrköku og súkkulaði á þrjá vegu. Allt virkilega gott stöff, en ísinn stóð upp úr. Mæli eindregið með honum.

Ég smakkaði líka að sjálfsögðu allt sem allir aðrir við borðið pöntuðu. Jóna fékk salat með gröfnu folaldafilet, Sigga Thea lax og Júlli litli hamborgara. Allt var þetta mjög gott.

Vínin sem ég drakk með matnum voru vín hússins, bæði rautt og hvítt. Bæði frá vínhúsinu Piccini á Ítalíu, mjög frambærileg og vönduð. Hvítvínið þótti mér sérlega ljúft og man hreinlega ekki eftir því að hafa fengið betra hvítvín hússins. Mjög algengt er að lakari veitingahús falli í þá gryfju að hafa óspennandi vín hússins, en það er klárlega ekki raunin hér. Aukaprik fyrir það, þar sem að ég drekk oftast vín hússins í glasavís, enda eiginkonan ekki mikið gefin fyrir sopann. Mér láðist raunar að skoða vínseðilinn, en þegar ég leit upp í hillurnar voru ítösk vín áberandi, sem er vel. Þau eru yfirleitt mest "bang for the buck" að mínu viti.

Kaupfélagsbarinn er sérlega fallega innréttaður. Húsbúnaður er smekklegur og stílhreinn, en viðarklæðning, listmunir og gamlar myndir á veggjum skapa hlýlegt andrúmsloft sem oft vill vanta þegar menn ganga langt í minimalismanum. Ekki spillir fyrir að útsýni er beint út á fjörð. Virkilega huggulegt veitingahús.

Þjónustan var fumlaus og alúðleg og lágstemmd brasilísk bossanovatónlist hljómaði í bakgrunni. Verð var mjög sanngjarnt miðað við gæði. Getur maður beðið um meira?

Að máltíð lokinni gengum við út södd og sæl. Ég var nánast klökkur af gleði yfir því að vera kominn með svona góðan veitingastað í bæinn minn. Nú er bara að vona að Hákoni og co. takist að halda þessum klassa, en ef svo verður þá má reikna með að ég verði fastagestur. Ég hvet Norðfirðinga og nærsveitunga að sjálfsögðu til að prófa, því hér er komið veitingahús sem myndi sóma sér fyllilega í miðborg Reykjavíkur.

Ég var reyndar svo spenntur að fara aftur að ég kíkti þangað í hádeginu í dag og borðaði gómsætt Sushi. Ljóst er að Kaupfélagsbarinn verður mjög freistandi kostur í hádeginu líka.