Saturday, June 28, 2014

Randulfs-sjóhúsið: Matur og tónlist

Ég varð þeirrar ánægju aðnjótandi að borða á Randulfs-sjóhúsinu í vikunni. Nafnið er pínu óþjált, en matur og þjónusta voru hins vegar í fínum klassa! Gaman að sjá hvað veitingamenning er á hraðri uppleið í Fjarðabyggð.

Ég kom ekki bara í Sjóhúsið til að snæða, því þetta kvöld voru þar tónleikar sem ég vildi ekki missa af. Vinir mínir í hljómveitinni "Dútl" voru að spila með Garðari Eðvaldssyni og Hugo Hilde. Meira um það síðar.

Við vorum fimm saman og áttum bókað borð. Móttökur voru afar hlýlegar. Mateðillinn er stuttur og einfaldur, en talsverðan valkvíða setti að mér sökum þess hve girnilega allt hljómaði. Ég endaði á því að panta grafna gæs og reykt hreindýr í forrétt, þrátt fyrir að hafa smá áhyggjur af því að sjávarfangið yrði dauflegt í samanburði við svo bragðmikinn forrétt. Ég pantaði mér sjávarréttasúpu í aðalrétt, en Hildigunnur vinkona okkar sem þjónaði okkur til borðs mælti sérstaklega með henni. Ég var skelfilega svangur, þannig að biðin eftir matnum var hálfgerð kvöl og pína. Það sló þó á sárasta hungrið að við fengum mjög gott brauð á borðið sem var skemmtilega borið fram í bréfpokum og með þeyttu smjöri á steini. Prýðileg byrjun.

Forrétturinn stóðst væntingar og var mjög svipaður og ég gerði mér í hugarlund. Bæði hreindýr og gæs brögðuðust stórvel og berjasósan smellpassaði á móti sterku villibráðar og reykbragði. Með þessu drakk ég Morande Cabernet, sem mér hefur alltaf þótt gott vín. Nógu bragðmikið til að hafa roð við þessum bragðmikla rétti.

Aðalrétturinn var skemmtilega borinn fram. Fyrst kom diskur fullur af sjávarfangi á borðið. Svo var súpunni hellt úr könnu yfir allt saman. Sjávarfangið var mjög ferskt og gott, bæði fiskur og skel, súpan mild en góð á bragðið og ekki farið offari í rjóma- hvað þá einhverju hveitigumsi eða öðrum þykkingarefnum. Bragðið af sjávarfanginu fékk virkilega að njóta sín og engin óþörft krydd skyggðu á.. Með þessu drakk ég ágætlega frambærilegt ítalskt Pinot Grigio, en láðist að festa í minni frá hvaða húsi það kom.

Í eftirrétt pöntuðum við hjónin saman eftirrétt út skyri sem ég náði ekki að fá nema tvo bita af áður en mín heittelskaða var búinn að gleypa hann í sig. Mig minnir þó að í þessu hafi verið marengs og einhverskonar frosstþurrkaður rabbabari sem var alveg fáránlega góður. Með þessu drakk ég kaffi og 12 ára gamalt Balvenie vískí, sem gladdi mig mjög. Gaman að sjá að flest veitingahús bjóða orðið upp á a.m.k. einn góðan einmöltung og sjóhúsið átti reyndar þrjá slíka í sínum litla bar.

Þjónustan var ákaflega almennileg og hlýleg, þrátt fyrir ansi krefjandi aðstæður. Staðurinn var algerlega smekkfullur og ekki auðvelt að smokra sér á milli borða. Prik fyrir það! Eins var biðin eftir matnum merkilega stutt þrátt fyrir mannfjöldan og þá staðreynd að eldhúsið er pínulítið og einn matreiðslumaður þar að störfum. Það hefði verið auðvelt að klúðra svona kvöldi, en sú var svo sannarlega ekki raunin. Berglind og Sævar voru sjálf að vinna til að tryggja að allt gengi upp. Mikið dugnaðarfólk sem á hrós skilið fyrir þá uppbyggingu sem þau hafa staðið fyrir í ferðaþjónustu í Fjarðabyggð.

Tónleikarnir voru svo auðvitað punkturinn yfir i-ið. Staðurinn er mjög skemmtilega innréttaður og hlýlegur, fullur af minjum frá liðinni tíð, þannig að andrúmsloftið spillti svo sannarlega ekki fyrir. Eins var verðrið yndislegt; spegilsléttur sjór og hlýtt. Opið var út svo að ekki liði nú yfir neinn úr súrefnisskorti og það gaf skemmtilegan blæ að sjá út á bryggju og sléttan sjóinn. Á miðjum tónleikum tók par nokkurt tangóspor á bryggjunni, sem gladdi mig mjög.

Vinir mínir í Dútlinu (Jón Hilmar Kárason, Orri Smárason og Þorlákur Ægir Ágústsson) stóðu sig eins og hetjur og göldruðu fram norsk þjóðlög, klezmer, djassstandarda, tangó, bíbopp og bossanova eins og sannir fagmenn. Þetta var sérlega impónerandi í ljósi þess að þeir hittu Hugo Hilde fyrst daginn áður. Maður fyllist stolti yfir því að við skulum eiga músíkanta hér í heimabyggð í þessum klassa. Þeir fóru þarna talsvert út fyrir þægindarammann (ekki síst þungarokkstrommarinn Orri Smárason) og rúlluðu því upp! Mér fannst sérlega gaman að heyra Jón Hilmar spila á Gibson Les Paul sem smellpassaði fyrir tónlistina á prógramminu. Jón er klárlega í fremstu röð gítarleikara landsins í dag.

Hugo Hilde er greinilega mikill hæfileikadrengur. Hann er aðeins tvítugur að aldri, en var ákaflega öruggur performer. Fiðlan hljómaði dásamlega, en hún mun vera smíðuð í Vínarborg árið sautjánhundruðogsúrkál. Hugo er melódískur, mússíkalskur og smekklegur spilari og datt aldrei í óþarfa "shredd", eins og ungir virtúósar eiga of til, en hann tók þó spretti sem sýndu glöggt mikla tæknilega getu. Hugo kemur frá Vesteralen í Noregi og er koma hans liður í samstarfi við Menningarráð Austurlands.

Garðar Eðvaldsson kom mér samt eiginlega mest á óvart, en ég hef ekki heyrt hann spila lengi. Hann er orðinn ákaflega góður tónlistarmaður, ekki síst miðað við ungan aldur. Hann er afslappaður á sviði, tónninn gullfallegur, fraseringar stórskemmtilegar og svo hefur hann greinilega mjög næmt taktskyn og var oft skemmtilega aftarlega á bítinu. Ég vona innilega að Garðar geri saxófónleik að ævistarfi, því hæfileikarnir eru greinilega miklir.

Frábært kvöld í Sjóhúsinu. Þangað fer ég örugglega aftur. Mikið er nú gaman að geta valið úr góðum veitingahúsum í heimabyggð! Næst liggur leið á L'Abri á Fáskrúðsfirði, en þar er ég mjög spenntur að koma.

No comments: