Friday, July 04, 2014

Aldan

Ég bauð pabba út að borða á Öldunni á Seyðisfirði í vikunni. Hann varð sextugur í maí og ég ákvað að afmælisgjöfin yrði í formi gönguferða og sælkerafóðurs. Það reyndist vera góð ákvörðun. Við gengum víða um þennan fallega fjörð tvo daga í röð og máltíðin olli svo sannarlega ekki vonbrigðum.

Í forrétt boðuðum við grafið lamb með geitaosti. Mikið bragð of hvoru tveggja. Mjög vel heppnaður réttur sem gældi við bragðlaukana. Með þessu drakk ég fyrirtaks Rioja Reserva sem gat staðið uppi í ullinni á lambinu og geitinni. 

Í aðalrétt borðuðum við fisk dagsins, sem reyndist vera þorskur. Á disknum reyndist vera stóreflis hnkkastykki, hárrétt eldað og ekki ofkryddað eða saltað. Datt í fallegar flögur sem bráðnuðu í munni. Þorskurinn var á byggbeði sem var mjög gott, kryddað með hvítlauk og kryddjurtum. Fíngert bragð sem yfirgnæfði ekki þorskinn og smellpassaði. Með þessu var ferskt og gott salat. Í heildina frábær réttur og einhver besti þorskur sem ég hef borðað. Með þessu drakk ég dásamlegt vín, Villa Maria Sauvignon Blanc frá Nýja Sjálandi. Villa Maria er uppáhaldsvínið mitt frá hinu magíska Marlborough héraði, en þar virðast eingöngu vera framleidd góð hvítvín (hef enn ekki smakkað vont vín þaðan!). Mæli eindregið með Vicar's Choice, Cloudy Bay, Oyster Bay og Spy Valley, auk Villa Maria.

Í eftirrétt borðaði ég Creme Brulee sem var fullkomið. Nákvæmlega eins og það á að vera. Minn uppáhalds eftirréttur. Ég stenst sjaldnast freistinguna þegar það er í boði, enda engin ástæða til. Með þessu drakk ég prýðilegt kaffi og 18 ára gamalt Highland Park. Frábært!

Þjónustan var mjög fagmannleg og vingjarnleg í alla staði. Staðurinn er huggulega innréttaður og ekki spillti fyrir að við höfðum útsýni út á spegilslétt lónið. 

Það eina sem ég hnaut um var verðið, sem mér fannst í hærri kantinum, en það er væntanlega afleiðing þess að mikill meirihluti viðskiptavina eru erlendir ferðamenn. Hreindýrasteik kostaði t.d. hátt í 10.000 krónur. Ég efast um að margir Íslendingar séu tilbúnir til að borga svo mikið fyrir aðalrétt. Ég skil samt vel að veitingamenn nýti sér þessa miklu eftirspurn, en auðvitað er spurning hvenær of langt er gengið. Ég hef þó ekki sárar áhyggjur af því. Menn munu auðvitað lækka verðið um leið og þeir sjá eftirspurnina falla. Þannig virkar business. En það er miður ef menn eru í auknum mæli að verðleggja sig út af innanlandsmarkaði. Það væri skemmtilegast að hafa þetta í sæmilegu jafnvægi þannig að íslenskir matgæðingar geti leyft sér að nota alla þessa frábæru veitingastaði okkar.

Ég tek þó fram að mér blöskraði ekki verðmiðinn á máltíðinni í heild, en þess ber þó að geta að við drukkum í hófi og pöntuðum fisk dagsins, sem er yfirleitt hagstæður kostur. En ég borgaði reikninginn sumsé með brosi á vör og fannst máltíðin virkilega vera peninganna virði. Ein albesta máltið sem ég hef nokkru sinni borðað á Austurlandi. 

Að lokum vil ég mæla eindregið með Seyðisfirði sem áfangastað göngufólks. Fjörðurinn er gríðarstór og þar má finna ótal gönguleiðir. Náttúrufegurðin er einstök. Við gengum út á Brimnes, upp í Vestdal og upp í Botna og allsstaðar var fegurðin nánast yfirþyrmandi. Fjallasýnin er mögnuð og fjöldi fallegra fossa meiri en nokkursstaðar sem ég hef komið. Með öll sín gömlu hús og fossaprýdd fjöllin allt um kring er Seyðisfjörður einfaldlega fallegasti bær á Íslandi.