Saturday, November 15, 2014

Viskí- Ástarsaga

Síðustu árin hefur áhugi minn á viskí farið vaxandi og er nú orðinn allt að því þráhyggjukenndur. Ég er endanlega og gersamlega kolfallinn fyrir þessum guðaveigum.

Ég hef drukkið viskí ansi lengi. Var byrjaður að smakka það löngu áður en ég hafði aldur til. Þá var það drukkið með klaka eða út í kók, en svoleiðis gera alvöru viskímenn ekki. Þegar ég var kominn undir þrítugt fór ég svo að daðra við alvöru einmöltunga og á góðar minningar um að sötra Highland Park og Laphroaig með góðum vinum. En svo tók við mikið víntímabil þar sem ég drakk aðallega rauðvín mér til ánægju og ef ég drakk eitthvað sterkara þá var það oftar en ekki koníak. 

Svo kviknaði áhuginn aftur, ekki síst vegna viskíáhuga vina minna sem höfðu frelsast á ferðalagi í Skotlandi (þetta er smitandi!). Á sama tima tók ástkær eiginkona mín upp á því að gefa mér viskíflösku í jólagjöf og það gerði endanlega út um málið. A whisky nerd was born. 

Viskí er dásamlegur vökvi. Það er gífurlega fjölbreytt að bragði og lykt og mun raunar vera flóknasti drykkur sem mannkynið hefur fundið upp. Sem dæmi má nefna að talsvert fleiri bragð- og lyktartóna má finna í viskíi heldur en í rauðvíni. Gott viskí er sinfónía lyktar og bragðs og er það ekki síst lyktin sem maður verður svona ofboðslega hrifinn af. Hér kemur lýsing á viskíinu sem ég drakk í gærkveldi: Ardbeg Corrywreckan: 

Nose: sweet peat smoke mixed with lemons, fresh kumquats but also slightly overdue oranges. Walnuts and wet wool. A few grassy notes and hints of heavily toasted bread. Roasted nuts and a few spicy notes emerge after a while (pepper and ginger). I even picked up hints of violet candy which is quite remarkable. They were gone quickly, but it proves the Corryvreckan is indeed a real whirlpool of flavours. Mouth: very strong impact, starting rather sweet but evolving towards a spicy / savoury profile. Peppery with generous coal smoke. Lemon again, liquorice, phenols, very Ardbeggy. Toast with peach jam. Some cocoa. Finish: very long, continuously switching between peat, salt, mocha and pepper. Hints of olive juice.

Ég er sjálfur langt frá því að hafa svona þrautþjálfað lyktar- og bragðskyn. Ég hef reyndar ekkert óskaplega sterka þörf fyrir að setja merkimiða á lykt og bragð, ekki frekar en ég hef þörf fyrir að spá í tónfræði á meðan ég hlusta á tónlist. Ég vil bara njóta. Maður þarf ekki að vita allt um abstrakt-expressjónisma til að finnast myndirnar hans Jackson Pollock vera fallegar.  

Viskí eru sumsé mjög ólík og fjölbreytt og það getur farið eftir skapi og stemningu hvað mann langar að drekka. Sum viskí eru fínasti fordrykkur, létt, fersk og blómleg, á meðan önnur eru það síðasta sem maður drekkur það kvöldið, flókin, massíf og ofboðslega bragðmikil. Mér finnst mörg ólík viskí vera góð, en ég er mest heillaður af þeim flóknu og bragðmiklu. Viskíin frá eyjunni Islay skipa sérstakan sess í viskískápnum mínum, en þau eru flest flókin og bragðmikil. Mörg þeirra eru gerð úr móþurkkuðu byggi, sem gefur reyktan keim. Í skápunum mínum á ég núna viskí frá Ardbeg, Caol Ila, Lagavulin, Bunnahabain, Bruichladdich. Öll nema eitt eru móviskí, en öll eru þau stórfengleg. Islay virðist vera töfraeyja, því þar virðist eingöngu vera framleitt frábært viskí. Mig vantar sárlega Laphroaig, Bowmore og Kilchoman í skápinn hjá mér, svo að ég eigi eitthvað frá öllum framleiðendum á eyjunni. Islay er mitt Shangri La og þangað mun ég klárlega fara einhvern daginn. 

Eitt af því skemmtilega við viskínördisma er sú staðreynd að manni mun ekki endast ævin í að smakka þau viskí sem framleidd eru í heiminum. Um 100 framleiðendur er að finna í Skotlandi og svo eru framleidd áhugaverð viskí í mörgum öðrum löndum (bráðum verður hægt að drekka íslenskt viskí!). Flestir framleiðendur búa til nokkrar útfærslur af viskíi.  Mikið er skrifað og skrafað um það, endalaust hægt að lesa sér til, spá og spekúlera. Þetta er því fyrirtaks nördaáhugamál. 

Ef einhver skyldi hafa áhyggjur af því að ég stefni hraðbyri inn í full blown alkóhólisma, þá tek ég fram að ég drekk viskí í ákaflega litlu magni. Ég drekk ca. einn einfaldan á dag. Ég skipti þessum einfalda oftast í tvennt og drekk þá hálffaldan af tveimur viskíum úr safninu mínu. Ég er núna með átta flöskur opnar og það fer eftir skapi hvað af þessu ég drekk. Stóri kosturinn við viskí er það hvað maður fær ofboðslega mikla ánægju úr lítilli fingurbjörg af vökva. Ég get setið með hálffaldan viskí í klukkutíma, þefað og smjattað. Dásamlegt! Þetta þýðir líka að viskí er í raun frekar ódýr lúxus. Einn einfaldur er 25 millilítrar. Það eru því 40 einfaldir í lítersflösku. Ef flaskan kostar 10.000 kr, þá kostar 250 kr. að drekka einn einfaldan á dag.

Eitt af því sem gleður mig samt mest við þennan nýblómstraða viskíáhuga er sú staðreynd að maður skuli geta eignast ný áhugamál þótt maður sé að verða miðaldra. Ég er þess fullviss að þetta áhugamál mun fylgja mér ævina á enda, eins og tónlist, bókmenntir, matur og fjölmargt annað sem ég hef ástríðu fyrir. Hver veit hvað á eftir að bætast á listann?
No comments: