Sunday, December 13, 2015

Samfélagsmiðlar og hugarró

Ég á í ástar-/haturssambandi við samfélagsmiðla. Svolítið eins og krakkhórur eiga í ástar-/haturssambandi við krakk. Ég er sífellt meira hugsi yfir notkun þessara miðla og hvað sú notkun er hugsanlega að gera manni.

Mér finnst ég orðinn skuggalega háður þessum miðlum, sérstaklega Facebook. Og það er engin furða.

Ég á um fimmhundruð vini á Facebook og hef mjög gaman af því að fylgjast með þeim. Facebook gerir manni kleyft að vera í einhverskonar sambandi við fullt af fólki sem maður væri ellegar í mjög litlu sambandi við. Margir vinir mínir eru duglegir að pósta einhverju skemmtilegu, fyndnu og fróðlegu, auk þess að deila molum úr eigin lífi. Svo er ég búinn að breyta fréttaveitunni í sérhannaða fréttasíðu um eigin áhugamál og fæ því endalausar fréttir um tónlist, bókmenntir, viskí, útiveru, hreyfingu, samfélagsmál og ýmislegt annað sem ég hef áhuga á. Ég skelli oft inn myndum, hlekkjum eða athugasemdum og fæ oft fínt feedback frá þeim vinum mínum sem sjá uppfærslurnar mínar.

Allt þetta veldur því að Facebook er mjög ávanabindandi. Endalaus uppspretta fróðleiks og afþreyingar, en líka maskína sem gefur endalaust jákvætt feedback og tækifæri til að eiga í samræðum við fólk um áhugamál og málefni líðandi stundar. Feedbackið klappar og ógnar egóinu á víxl.  Það er auðvelt að sogast inn og gleyma sér, jafnvel tímunum saman.

Vinur minn skrifaði svolítið um daginn sem mér fannst sláandi. Hann sagði eitthvað á þá leið að hann eyddi nú orðið miklu meiri tíma í að lesa það sem er skrifað um bækur og tónlist heldur en að lesa bækur eða hlusta á tónlist. Ég tengdi mjög sterkt við þessa observasjón, en leið ekkert sérlega vel með það. Er þetta ekki svolítið eins og að liggja endalaust yfir matreiðslubókum, en elda aldrei neitt? Erum við síflellt meira að lesa um lífið í stað þess að lifa því? Ég óttast að svo sé.

Annað sem ég er hugsi yfir eru þau óhjákvæmilegu tilfinningaviðbrögð sem maður upplifir þegar maður les um kvíðvænlega og ljóta hluti. Talsverður hluti þess er maður sér í fréttaveitunni á Facebook eru neikvæðir hlutir. Fólk sér fréttir um eitthvað sem kemur því í uppnám og póstar þeim beint á vegginn sinn með tilheyrandi upphrópunum. Ég geri þetta reglulega sjálfur. Oft er um að ræða hluti sem vekja óþægilegar tilfinningar þegar maður les um þá; kviða og depurð. Ég held líka að áhrifin séu meiri þegar fréttirnar koma frá fólki sem maður þekkir og þykir vænt um.

Í ofanálag er Facebook útsmogin auglýsingamaskína. Mér dettur ekki í hug að halda því fram að ég sé svo rosalega klár og meðvitaður að ég sé ónæmur fyrir þessum auglýsingum. Fyrirtæki eyða ekki milljörðum dollara í auglýsingar og markaðssetningu upp á djók. Þau gera það vegna þess að það virkar.

Ég hallast því sífellt meira að því að Facebook sé varasöm fyrir mig og að ég ætti að minnka notkunina. Það er bara ekkert auðvelt að ætla sér að verða bara kasjúal krakkneytandi eftir að maður er löngu orðinn húkkd.

Bottom læn: Ég held að það sé vænlegra að GERA og UPPLIFA það sem maður hefur áhuga á en að lesa um það. Að sama skapi held ég að það sé best að velta sér ekki um of upp úr hlutum sem gera mann kvíðinn og sorgmæddan. Þetta ber allt að sama brunni: Minni netnotkun er klárlega málið...og ofnotkun er sennilega mjög varasöm. Ég held að samfélagsmiðlar hafi ekki góð áhrif á hugarró mína og hamingju. Ég hugsa því að eitt af áramótaheitunum verði að taka í eigið hnakkadramb og ná betri tökum á frétta- og samfélagsmiðlafíkninni. Ég er því að spá í að stofna Facebook grúppu fólks sem....eða....sko.....nei, nei.


Tuesday, February 24, 2015

Menntakerfið byggir á úreltum og skaðlegum forsendum

Ákveðnar forsendur liggja til grundvallar í menntakerfinu okkar. Kerfið er í grófum dráttum svona:

Nemendum er skipt í hópa eftir aldri. Allir eru skulu dvelja á skólastofnun frá 6-16 ára. Þar skulu þeir læra samkvæmt gildandi aðalnámsskrá. Aðalnámsskráin er sett saman af sérfræðingum sem er gert að greina og ákveða hvað allir þurfa að læra svo að þeir séu tilbúnir í framhaldsnám og þátttöku í samfélaginu. Kennarar skulu svo gera sitt besta til að tryggja að allir nemendur tileinki sér sem mest af þeirri hæfni og þekkingu sem aðalnámsskráin segir til um. Það eiga sumsé allir að læra það sama. Frammistaða nemenda er vegin og metin frá upphafi með prófum og verkefnum sem eiga að segja til um hvernig þeim gengur.

Það er hægara sagt en gert að ná þeim markmiðum sem kerfið setur. Börnum er ekki eðlislægt að fylgja skipunum og sitja kyrr. Það þurfa þau samt að gera í skólanum, talsverðan hluta dags. Þau ráða engu um það hvað þau læra, hvenær, hvar, með hverjum eða hvernig (í flestum tilvikum). Þau eru með öðrum orðum fullkomlega valdalaus.

Þetta fullkomna valdleysi er hugsanlega skaðlegt og hættulegt. Það sýna rannsóknir í atvinnulífssálfræði vel. Vinnustaðir sem einkennast af valdleysi af þessu tagi eru afar líklegir til valda andlegu eða líkamlegu tjóni og búa oftast við mjög háa starfsmannaveltu. Börnin hafa hins vegar enga undankomuleið, enda eru þau dæmd til skólavistar skv. lögum. Slíkt valdleysi er mannskepnunni algert eitur, enda forðumst við flest aðstæður sem einkennast af slíku. Tal um að börn eigi að „læra um lýðræði...í lýðræði“, eins og það er orðað í nýrri aðalnámsskrá, hlýtur að vera einhverskonar brandari, enda í beinni mótsögn við grunnforsendur menntakerfisins.

Fyrir utan þetta skaðlega valdleysi, óttast ég að núverandi kerfi bæli meðfædda forvitni og lærdómsþörf barna. Börn læra frá fæðingu með því að kanna heiminn á eigin forsendum með því að leika sér. Í leiknum taka þau sjálf ákvarðanir og elta eigin áhuga. Þau geta baukað tímunum saman, niðursokkin og full af áhuga. Þau upplifa svokallað „flæði“, sem er afar eftirsóknarvert ástand sem hjálpar okkur að læra og hefur mikil áhrif á hamingju okkar. Þetta ástand held ég að sé útilokað að skapa með valdi og því afar ólíklegt að kjöraðstæður til náms geti skapast í kennslustofu í núverandi kerfi.

Menntakerfið einkennsti því af valdleysi og skorti á flæði. En það einkennist líka af skorti á tilgangi. Ef nemandi spyr: „af hverju þarf ég að læra þetta?“, þá er svarið einfaldlega „Af því að það stendur í námsskránni. Þú átt að læra það sem stendur í námsskránni“. Þetta er algert eitur í beinum mannskepnunnar. Við þolum mjög illa að gera tilgangslausa hluti. Ef það á að þvinga mig til að læra eitthvað sem mér finnst hundleiðinlegt, þá vill ég fá að vita nákvæmlega AF HVERJU. Staðreyndin er sú að fátt er um svör. Flestar námsgreinar í skóla ÞARF ekki að læra til að ná árangri í lífinu. Flest fullorðið fólk myndi kolfalla á öllum prófum í efstu bekkjum grunnskóla. Hvað segir það okkur?

Skortur á valdi, flæði og tilgangi kemur óhjákvæmilega niður á frammistöðu, sama hvort um er að ræða vinnustað eða skóla. Þetta er einfaldlega nálgun sem virkar mjög illa, bæði fyrir þá sem ná að aðlagast menntakerfinu og þá sem passa illa inn í það:

  • Þeir sem passa vel inn í kerfið og hafa gott „bókvit“ eru auðvitað heppnir. Þeim er skólavistin minni kvöl. Þeim leiðist næstum örugglega, en þeir læra fljótlega á kerfið. Þeir vita hvað þarf að segja og gera til að fá góðar einkunnir og umsagnir. Og meðan þeir uppfylla kröfurnar hefur enginn áhyggjur af þeim. En kviknar hjá þeim alvöru áhugi á námsefninu? Lesa þeir eitthvað umfram það sem þeim er sett fyrir? Það held ég ekki. Ég held að góðir nemendur komi oft út úr náminu fullkomlega ráðvilltir, með litla hugmynd um á hverju þeir hafa raunverulegan áhuga. Mjög algengt er að krakkar þurfi að fara í svokölluð áhugasviðspróf til að komast að því hvaða nám þau ættu að velja. Þessi próf eru oft tekin bæði í lok grunnskóla OG menntaskóla. Eftir 13-14 ár í skóla vita börn ekki á hverju þau hafa áhuga!!! Og það sem meira er: Fljótlega að prófum loknum, er þekkingin sem prófin áttu að mæla meira og minna gufuð upp. Púff!  (Hugsaðu um námsgreinarnar sem þú lærðir í grunn- og menntaskóla. Hvað af þessu mannstu?).
  • Þau sem passa illa inn í kerfið eru talsvert verr sett. Þetta eru krakkarnir sem gengur illa að uppfylla kröfur kerfisins. Þau fá á tilfinninguna strax á fyrstu skólaárum að þau séu ekki nógu góð og fylgir sú tilfinning þeim alla skólagönguna. Og þessum börnum er ekkert til varnar. Barn sem hefur lítinn áhuga og getu í stærðfræði getur ekki sagt „Uuu...nei, takk. Ég held að ég fari bara að teikna“. Neibb. Þetta barn SKAL læra stærðfræði. Því er pönkast á því í 10 ár til að troða stærðfræði inn í hausinn á því. Það vita allir að þetta er algerlega tilgangslaus baraátta, en samt skal taka slaginn...og segja barninu nánast daglega að það þurfi nú að bæta sig í stærðfræðinni. Barnið fær skýr skilaboð: Þú ert LÚSER! LÚSER! LÚSER! Og til hvers í andskotanum? Hver er tilgangurinn? Hverskonar mannvonska er þetta? Þetta er beinlínis ljótt, auk þess að vera skelfileg sóun á hæfileikum, tíma og peningum. Ég óttast að fá börn sem passa illa inn í kerfið komist alveg ósködduð út úr því.

Það þarf að breyta menntakerfinu til að takast á við þessa galla sem ég lýsti hér að ofan (og aðra galla...þetta er langt frá því að vera tæmandi umfjöllun). Það þarf að fara aftur að teikniborðinu og endurhanna það frá grunni út frá nýjum forsendum. Börn þurfa stóraukið vald yfir því hvað þau læra, hvenær, með hverjum og hvernig. Það þarf að leggja þeirri snargölnu hugmynd að einhverjir meintir sérfræðingar á vegum menntamálaráðuneytisins ákveði hvað allur almenningur þurfi að læra.

Við lærum best þegar við gerum það á eigin forsendum, eltum eigin áhuga og sökkvum okkur ofan í viðfangsefnið. Við lærum best með því að leika okkur. Ég held því að grunnforsendurnar þurfi að vera FRELSI og LEIKUR. 

------------------------------------------------------

Ég vil taka skýrt fram að þessi grein er ádeila á menntakerfið, ekki á kennara. Í skólakerfinu er fullt af frábærum kennurum sem vinna baki brotnu fyrir léleg laun við að lágmarka skaðann sem kerfið veldur. Ég hef hins vegar rætt þessi mál við fjölmarga kennara og þeir eru oftast algerlega sammála því að kerfið þarfnist endurskoðunar við, enda blasa gallar þess við þeim á hverjum degi.


Ég hugsa með miklum hlýhug til margra sem kenndu mér á sínum tíma, sérstaklega þær greinar sem ég hafði áhuga á og hæfileika í.

Heimildir:

Daniel Pink: Drive: The surprising truth about what motivates us
Peter Gray: Free to learn: Why unleashing the instinct to play will make our children happier, more self-reliant and better students for life
Peter Warr: The joy of work?: Work, happiness and you

Wednesday, February 11, 2015

Altrúismi

Í síðasta pistli velti ég vöngum yfir eðli mannsins og hvort það passaði við þær samfélagsgerðir sem við höfum búið við í gegnum aldirnar. Ég ætla að halda áfram á svipuðum nótum.

Mér finnst ljóst af öllu því sem ég hef lesið að maðurinn er félagsvera. Við lærðum að lifa af í náttúrunni með því að vinna saman og leysa vandamál í sameiningu. Maður er manns gaman. Okkur er eðlislægt að hjálpast að. Það gleður okkur að hjálpa öðrum. Þetta myndband sýnir þetta vel:

Kids are naturally altruistic

Rannsóknir á sviði jákvæðrar sálfræði benda einnig til þess að það að hjálpa öðrum auki hamingju okkar:

Why helping others matters

Samkvæmt ofangreindu væri æskilegt að samfélagið okkar leggði áherslu á samhjálp og samvinnu. Samfélagið snýst hins vegar að talsverðu leyti um efnishyggju, samkeppni og einstaklingshyggju. Mér finnst áhugavert að velta  því fyrir mér hvort þær áherslur stríði ekki meira og minna gegn eðlislægri þörf okkar fyrir samvinnu, samveru og samhjálp. Hugsanlega er þetta ein af skýringunum á ýmsum andlegum vandamálum og óhamingju sem fylgja hinu vestræna samfélagi. Aukin efnisleg gæði virðast ekki endilega skila aukinni hamingju. Þetta gæti verið ein af ástæðunum.

Sunday, February 08, 2015

Hvert er eðli mannsins?

Þetta er spurning sem hefur verið skeggrædd lengi og hafa menn haft ýmsar skoðanir í gegnum tíðina. Ég ætla í stuttu máli að útlista pælingu sem ég hallast æ meira að:

Maðurinn virðist hafa þróast sem hópdýr. Við lærðum að lifa af í náttúrunni í tiltölulega smáum hópum sem ferðuðust um, veiddu sér til matar og söfnuðu ætum plöntum. Við lifðum í náttúrunni eins og hver önnur dýrategund og náðum góðum árangri í samskeppninni um að lifa af. Um þennan tíma eigum við auðvitað engar ritaðar heimildir, ekki frekar en um fyrstu landbúnaðarsamfélögin. Það er því ekki margt hægt að segja með fullri vissu um þessi prótótýpísku samfélög mannsins. Það er þó alveg fráleitt að halda að þessi 99% af þróunartíma okkar hafi ekki haft gífurleg áhrif á gensamsetningu okkar. Við höfum, genetískt séð, breyst afskaplega lítið síðan við vorum veiðimenn og safnarar. Það má því færa fyrir því nokkuð sterk rök að við séum víruð með mjög svipuðum hætti og forfeður okkar.

En hvernig voru forfeðurnir víraðir? Við getum eins og áður sagði lítið fullyrt um það. Þó er það svo að fram eftir 20. öld mátti enn finna samfélög veiðimanna og safnara á nokkrum stöðum í heiminum. Mannfræðingar og fleiri fræðimenn stúderuðu slík samfélög vel til að kynna sér hvernig þau fúnkeruðu. Þær rannsóknir leiddu í ljós að ýmis sameiginleg einkenni mátti finna í þessum samfélögum og koma sum þeirra á óvart.

Samfélög veiðimanna og safnara virðast t.d. einkennast af beinu lýðræði, jafnrétti og jöfnuði. Hópurinn tekur ákvarðanir í sameiningu og með því að ræða málin. Það er ekki höfðingi eða öldungur sem gefur skipanir, þótt skoðanir þeirra reyndari hafi auðvitað vigt. Fólk deilir gæðum hvert með öðru og hugsar um hag heildarinnar. Fólk vinnur saman að því að skipuleggja veiðar og söfnun og allt sem snýr að daglegum „störfum“. Streitustigið er afar lágt, mikið er hlegið, leikið og grínast. Mjóg ósmart þykir að berja sér á brjóst og upphefja sjálfan sig. Guðir eru margir og teknir passlega alvarlega. Börn alast upp við mikið frjálsræði og þau læra allt sem þau þurfa að vita og kunna með því að fylgjast með hinum eldri, apa eftir og leika sér. Að viða að sér einhverju óþarfa drasli meikar engan sense, enda hefur hópurinn ekki fasta búsetu. Fólkið hefur nána tengingu við náttúruna, enda býr það í henni og lifir af landsins gæðum.

Það má leiða að því líkum að þessi samfélög veiðimanna og safnara sem voru stúderuð og skrifað um séu áþekk þeim sem við þróuðumst í, þótt auðvitað sé það ekki fullvíst. Mér finnst það samt meika sense. Og ef þetta er hin prótótýpíska samfélagsgerð, þá eru miklar líkur á því að heilinn okkar sé að einhverju leyti víraður fyrir félagslegt umhverfi á borð við það sem er lýst hér að ofan. Gæti það ekki skýrt af hverju ójafnrétti, ójöfnuður, auðsöfnun, kúgun, stigveldi og forræðishyggja leggjast svona ferlega illa í okkur? Eru þetta ekki bara hlutir sem passa illa við okkar innsta eðli?

Þetta má auðvitað hártoga á alla vegu, en ég hallast sífellt meira að því að eitthvað sé til í þessari pælingu. Mér finnst sífellt líklegra að samvinna, jöfnuður, beint lýðræði og frelsi sé málið, en ekki samkeppni, auðsöfnun, kúgun og forræðishyggja. Eða er það módel ekki fullreynt?

Þetta er kannski einfeldningsleg og barnaleg sýn á manninn en ég hallast sífellt meira að því að hún sé rétt. Ég held að ofbeldið og viðbjóðurinn sem mannkynssagan er full af sé afleiðing samfélagsgerðar sem passar ekki við mannlegt eðli, en ekki vegna illsku mannsins. 

Ég held að það myndi skila okkur gífurlegum ávinningi að aðlaga stofnanir okkar og samfélög betur að mannlegu eðli. Það bendir nefnilega margt til þess að við höfum búið til samfélög þar sem margt er algerlega á skjön við eðli okkar.

Saturday, February 07, 2015

Borgar sig að fara illa með fólk?

Ef þú rekur fyrirtæki eða stýrir hópi fólks, þá er þetta spurning sem þú ættir að velta fyrir þér. Það er nefnilega því miður enn allt of algengt að fyrirtæki og stjórnendur fari ekki nógu vel með fólk. Þegar ég tala um illa meðferð á ég fyrst og fremst við um framkomu sem veldur fólki sálarangist og vanlíðan af einhverju tagi. Dæmi um slæma meðferð er t.d. strangt eftirlit, þar sem fólki er skipað til og frá eins og hundum, það er sjaldan eða aldrei haft með í ráðum varðandi hluti er snerta vinnu þess eða vinnuumhverfi og það er öskrað og skammast þegar fólk gerir mistök. Slíkar vinnuaðstæður eru nánast garanteraðar til að valda fólki mikilli streitu og vanlíðan og eru vart siðferðislega verjandi. En það er ekki allt.

Við slíkar aðstæður er nefnilega verið að nýta mannauð afspyrnu illa. Bestu fyrirtæki í heimi, í öllum geirum, eru þau sem brillera í því að virkja sitt fólk. Þau virkja fólkið sitt í því að hanna vinnuna, leysa vandamál og fá nýjar hugmyndir um það hvernig hægt er að ná árangri í rekstrinum. Fólk fær það á tilfinninguna að það sé í sama liði og stjórnendur, að það skipti máli og sé að nýta hæfileika sína í eitthvað sem skiptir máli. Við slíkar aðstæður verður vinnan ekki einhver áþján, heldur jákvæður hluti af lífinu, eitthvað sem maður getur verið stoltur af.


Það margborgar sig að umgangast fólk af skynsemi og alúð. Svarið við spurningunni í fyrirsögninni er því: Nei. Það er bæði siðferðislega rangt og slæmur bissness að fara illa með fólk. Heimurinn yrði betri staður ef allir atvinnurekendur hefðu á þessu skilning: Fyrirtæki næðu auknum árangri í rekstri og fólki liði betur í vinnu. 

Saturday, January 31, 2015

Þorrablót

Ég ekki hvort ég hef bloggað áður um þorrablót. Og ég nenni ekki að tékka á því. Bið forláts ef ég er að endurtaka mig.

Í kvöld fer ég á hið stórskemmtilega Kommablót í Neskaupstað. Þrátt fyrir nafnið er þessi samkoma ekki pólitísk, heldur er í raun um að ræða bæjarblót Norðfirðinga þótt það hafi áður verið á vegum Alþýðubandalagsins. Pólitíska tengingin var því vissulega fyrir hendi hér áður fyrr, en þá var líka haldið Mjófirðingablót, Hestamannablót, Sveitablót og Sjálfstæðisblót og er ég örugglega að gleyma einhverju Sveitablótið er það eina af þessum blótum sem enn lifir.

Í dag koma allra flokka kvikindi að Kommablótinu, öll dýrin í skóginum eru vinir og pólitík er mönnum ekki ofarlega í huga, þótt óhjákvæmilega beri hana á góma í annál ársins. Til að tryggja jafnvægi í annálnum eru meðal flytjenda fulltrúar úr ýmsum flokkum. Kommablótið hefur þá sérstöðu að það er meira og minna sama fólkið sem sér um annálsflutning ár hvert, þótt annað slagið detti inn nýir aðilar í hópinn og aðrir detti út sökum aldurs eða búferlaflutninga. Lágmarksafplánun í annálshópnum virðist þó vera a.m.k. 10 ár. Ókosturinn við að hafa ávallt sama hópinn er auðvitað sá að maður veit nokkurnvegin að hverju maður gengur, þótt auðvitað viti maður aldrei hver efnistökin verða.

Kosturinn er svo ákveðin samfella og tilvísanir í fyrri annála. Sumir brandarar nálgast það sem er á ensku kallað "running gag" eða jafnvel "catch phrase" húmor. Brandari eða karakter sem er kannski ekkert brjálæðislega fyndinn einu sinni verður fyndnari og fyndnari eftir því sem árin líða og sumir karakterar eru þannig að maður bíður spenntur eftir því að þeir birtist. Einhver myndi hugsanlega flokka þessa endurteknu brandara sem einelti, en ég held að flestir "fastagestir" í annál hafi fyrir þessu mikinn húmor, auk þess sem annáll á Kommablóti er aldrei rætinn eða ljótur. Smári og co. kunna þá list að gera góðlátlegt grín að fólki og atburðum og er það vel. Eitt af þvi sem gleður mig ávallt við annálsflutning er þegar Smári kemur fram í dragi. Veit ekki af hverju, en mér finnst það bara óstjórnlega skemmtilegt. Kannski af því að maður á von á því?

Hefðin er mjög sterk í kringum blótið og það er auðvitað hluti af því sem gerir það svona ánægjulegt. Maður veit að hverju maður gengur og veit að þetta er alltaf gaman. Ég hef farið á blót síðan ég var á 16. ári, þannig að ég mun hafa fyrst mætt árið 1990. Blótið í ár er það 49. í röðinni og fer ég því nærri því að hafa mætt á helming þeirra, sem minnir mig duglega á hvað ég er orðinn fokk gamall. Ég held að ég hafi kannski misst úr svona þrjú til fjögur blót á öllum þessum árum: Árin tvö sem ég var erlendis í námi og svo kannski eitt eða tvö ár þegar ég bjó í Reykjavík.

Fjöldasamkomur af þessu tagi gegna miklvægu hlutverki í því að tryggja viðgang gilda samfélagsins, enda skemmta sér saman ungir og aldnir, frá 16 ára upp í 98 ára (geri ráð fyrir að Stebbi Þorleifs mæti í kvöld). Að mínu mati er þetta ein mikilvægasta fjöldasamkoma ársins á Norðfirði. Það er í raun kannski bara brekkuskemmtunin á Neistaflugi sem er stærra fjöldasamkomumóment, en þó á annan hátt. Ég hugsa að ef tekin væri blóðprufa af blótsgestum og fólki í brekkunni á Neistaflugi, þá myndi mælast hærra magn oxýtósíns í blóði blótsgesta (reyndar meira magn etanóls einnig, sem gæti verið skýring). Slíkar samkomur þjappa fólki saman og minna okkur á að maður ER manns gaman. Ágæt áminning um að rafræn samskipti koma ekki í staðinn fyrir raunveruleg samskipti.

Mér finnst raunar áhyggjuefni hvað samskipti í kjötheimum virðast sífellt vera að dofna og minnka. Félagsstarf og samkomur eru besta móteitrið: Þorrablót, Neistaflug, Eistnaflug, tónleikar, íþróttakappleikir og starf í íþróttafélögum, björgunarsveit og Brján. Okkur hættir til að vanmeta hvað þetta er allt dýrmætt og mikilvægt. Enda hef ég einsett mér sjálfur að vera duglegri við að sækja félagsstarf og samkomur. Hef m.a. í því skyni tekið að mér stjórnarsetu í Brján, þeim merkilega klúbbi. Ný stjórn hyggst reyna að blása nýju lífi í klúbbinn og tryggja að þessi miklvæga stoð í félagslífi Norðfirðinga fúni ekki.

Ég gegni svo reyndar einnig smá hlutverki á Kommablótinu og hef gert síðustu ár. Ég ber þann virðulega titil "Blótsstjóri", sem er nú ekki alveg eins merkilegt og það hljómar. Mitt hlutverk er að halda öllu á dagskrá og stýra fjöldasöngnum. Hvort tveggja er afar auðvelt mál. Dagskráin er hefðbundin og breytist ekkert ár frá ári og það sama má segja um lögin sem eru sungin. Önnur sérstaða Kommablóts er hinn mikli fjöldasöngur sem þar fer fram. Ég hugsa að það séu sungin á bilinu 20-30 lög þegar allt er talið. Nú finnst sumum fjöldasöngur vera afar hallærislegt fyrirbæri, en ég held að flestir sem komast yfir kjánahrollinn og taka þátt finni hvað þetta er öflugt fyrirbæri. Það gerist nefnilega einhver smá galdur þegar tæplega 400 manns syngja hástöfum. Norðfirðingar eru upp til hópa afar lag- og tónvissir og þakið ætlar hreinlega að rifna af húsinu þegar mest gengur á. Það er afar skemmtilegt að upplifa þetta ofan af sviðinu og sjá yfir svona stóran og prúðbúinn hóp brosa, vagga sér og syngja eins og enginn sé morgundagurinn. Fallegt! Þetta á sér allt auðvitað sállífræðilegar skýringar: http://ideas.time.com/2013/08/16/singing-changes-your-brain/

Ég hlakka því óskaplega til að gleðjast með góðum vinum í kvöld, borða góðan (ok...ágætan) mat, drekka öl og upplifa alla gleðina sem fylgir Kommablóti.