Saturday, February 07, 2015

Borgar sig að fara illa með fólk?

Ef þú rekur fyrirtæki eða stýrir hópi fólks, þá er þetta spurning sem þú ættir að velta fyrir þér. Það er nefnilega því miður enn allt of algengt að fyrirtæki og stjórnendur fari ekki nógu vel með fólk. Þegar ég tala um illa meðferð á ég fyrst og fremst við um framkomu sem veldur fólki sálarangist og vanlíðan af einhverju tagi. Dæmi um slæma meðferð er t.d. strangt eftirlit, þar sem fólki er skipað til og frá eins og hundum, það er sjaldan eða aldrei haft með í ráðum varðandi hluti er snerta vinnu þess eða vinnuumhverfi og það er öskrað og skammast þegar fólk gerir mistök. Slíkar vinnuaðstæður eru nánast garanteraðar til að valda fólki mikilli streitu og vanlíðan og eru vart siðferðislega verjandi. En það er ekki allt.

Við slíkar aðstæður er nefnilega verið að nýta mannauð afspyrnu illa. Bestu fyrirtæki í heimi, í öllum geirum, eru þau sem brillera í því að virkja sitt fólk. Þau virkja fólkið sitt í því að hanna vinnuna, leysa vandamál og fá nýjar hugmyndir um það hvernig hægt er að ná árangri í rekstrinum. Fólk fær það á tilfinninguna að það sé í sama liði og stjórnendur, að það skipti máli og sé að nýta hæfileika sína í eitthvað sem skiptir máli. Við slíkar aðstæður verður vinnan ekki einhver áþján, heldur jákvæður hluti af lífinu, eitthvað sem maður getur verið stoltur af.


Það margborgar sig að umgangast fólk af skynsemi og alúð. Svarið við spurningunni í fyrirsögninni er því: Nei. Það er bæði siðferðislega rangt og slæmur bissness að fara illa með fólk. Heimurinn yrði betri staður ef allir atvinnurekendur hefðu á þessu skilning: Fyrirtæki næðu auknum árangri í rekstri og fólki liði betur í vinnu. 

No comments: