Skip to main content

Menntakerfið byggir á úreltum og skaðlegum forsendum

Ákveðnar forsendur liggja til grundvallar í menntakerfinu okkar. Kerfið er í grófum dráttum svona:

Nemendum er skipt í hópa eftir aldri. Allir eru skulu dvelja á skólastofnun frá 6-16 ára. Þar skulu þeir læra samkvæmt gildandi aðalnámsskrá. Aðalnámsskráin er sett saman af sérfræðingum sem er gert að greina og ákveða hvað allir þurfa að læra svo að þeir séu tilbúnir í framhaldsnám og þátttöku í samfélaginu. Kennarar skulu svo gera sitt besta til að tryggja að allir nemendur tileinki sér sem mest af þeirri hæfni og þekkingu sem aðalnámsskráin segir til um. Það eiga sumsé allir að læra það sama. Frammistaða nemenda er vegin og metin frá upphafi með prófum og verkefnum sem eiga að segja til um hvernig þeim gengur.

Það er hægara sagt en gert að ná þeim markmiðum sem kerfið setur. Börnum er ekki eðlislægt að fylgja skipunum og sitja kyrr. Það þurfa þau samt að gera í skólanum, talsverðan hluta dags. Þau ráða engu um það hvað þau læra, hvenær, hvar, með hverjum eða hvernig (í flestum tilvikum). Þau eru með öðrum orðum fullkomlega valdalaus.

Þetta fullkomna valdleysi er hugsanlega skaðlegt og hættulegt. Það sýna rannsóknir í atvinnulífssálfræði vel. Vinnustaðir sem einkennast af valdleysi af þessu tagi eru afar líklegir til valda andlegu eða líkamlegu tjóni og búa oftast við mjög háa starfsmannaveltu. Börnin hafa hins vegar enga undankomuleið, enda eru þau dæmd til skólavistar skv. lögum. Slíkt valdleysi er mannskepnunni algert eitur, enda forðumst við flest aðstæður sem einkennast af slíku. Tal um að börn eigi að „læra um lýðræði...í lýðræði“, eins og það er orðað í nýrri aðalnámsskrá, hlýtur að vera einhverskonar brandari, enda í beinni mótsögn við grunnforsendur menntakerfisins.

Fyrir utan þetta skaðlega valdleysi, óttast ég að núverandi kerfi bæli meðfædda forvitni og lærdómsþörf barna. Börn læra frá fæðingu með því að kanna heiminn á eigin forsendum með því að leika sér. Í leiknum taka þau sjálf ákvarðanir og elta eigin áhuga. Þau geta baukað tímunum saman, niðursokkin og full af áhuga. Þau upplifa svokallað „flæði“, sem er afar eftirsóknarvert ástand sem hjálpar okkur að læra og hefur mikil áhrif á hamingju okkar. Þetta ástand held ég að sé útilokað að skapa með valdi og því afar ólíklegt að kjöraðstæður til náms geti skapast í kennslustofu í núverandi kerfi.

Menntakerfið einkennsti því af valdleysi og skorti á flæði. En það einkennist líka af skorti á tilgangi. Ef nemandi spyr: „af hverju þarf ég að læra þetta?“, þá er svarið einfaldlega „Af því að það stendur í námsskránni. Þú átt að læra það sem stendur í námsskránni“. Þetta er algert eitur í beinum mannskepnunnar. Við þolum mjög illa að gera tilgangslausa hluti. Ef það á að þvinga mig til að læra eitthvað sem mér finnst hundleiðinlegt, þá vill ég fá að vita nákvæmlega AF HVERJU. Staðreyndin er sú að fátt er um svör. Flestar námsgreinar í skóla ÞARF ekki að læra til að ná árangri í lífinu. Flest fullorðið fólk myndi kolfalla á öllum prófum í efstu bekkjum grunnskóla. Hvað segir það okkur?

Skortur á valdi, flæði og tilgangi kemur óhjákvæmilega niður á frammistöðu, sama hvort um er að ræða vinnustað eða skóla. Þetta er einfaldlega nálgun sem virkar mjög illa, bæði fyrir þá sem ná að aðlagast menntakerfinu og þá sem passa illa inn í það:

  • Þeir sem passa vel inn í kerfið og hafa gott „bókvit“ eru auðvitað heppnir. Þeim er skólavistin minni kvöl. Þeim leiðist næstum örugglega, en þeir læra fljótlega á kerfið. Þeir vita hvað þarf að segja og gera til að fá góðar einkunnir og umsagnir. Og meðan þeir uppfylla kröfurnar hefur enginn áhyggjur af þeim. En kviknar hjá þeim alvöru áhugi á námsefninu? Lesa þeir eitthvað umfram það sem þeim er sett fyrir? Það held ég ekki. Ég held að góðir nemendur komi oft út úr náminu fullkomlega ráðvilltir, með litla hugmynd um á hverju þeir hafa raunverulegan áhuga. Mjög algengt er að krakkar þurfi að fara í svokölluð áhugasviðspróf til að komast að því hvaða nám þau ættu að velja. Þessi próf eru oft tekin bæði í lok grunnskóla OG menntaskóla. Eftir 13-14 ár í skóla vita börn ekki á hverju þau hafa áhuga!!! Og það sem meira er: Fljótlega að prófum loknum, er þekkingin sem prófin áttu að mæla meira og minna gufuð upp. Púff!  (Hugsaðu um námsgreinarnar sem þú lærðir í grunn- og menntaskóla. Hvað af þessu mannstu?).
  • Þau sem passa illa inn í kerfið eru talsvert verr sett. Þetta eru krakkarnir sem gengur illa að uppfylla kröfur kerfisins. Þau fá á tilfinninguna strax á fyrstu skólaárum að þau séu ekki nógu góð og fylgir sú tilfinning þeim alla skólagönguna. Og þessum börnum er ekkert til varnar. Barn sem hefur lítinn áhuga og getu í stærðfræði getur ekki sagt „Uuu...nei, takk. Ég held að ég fari bara að teikna“. Neibb. Þetta barn SKAL læra stærðfræði. Því er pönkast á því í 10 ár til að troða stærðfræði inn í hausinn á því. Það vita allir að þetta er algerlega tilgangslaus baraátta, en samt skal taka slaginn...og segja barninu nánast daglega að það þurfi nú að bæta sig í stærðfræðinni. Barnið fær skýr skilaboð: Þú ert LÚSER! LÚSER! LÚSER! Og til hvers í andskotanum? Hver er tilgangurinn? Hverskonar mannvonska er þetta? Þetta er beinlínis ljótt, auk þess að vera skelfileg sóun á hæfileikum, tíma og peningum. Ég óttast að fá börn sem passa illa inn í kerfið komist alveg ósködduð út úr því.

Það þarf að breyta menntakerfinu til að takast á við þessa galla sem ég lýsti hér að ofan (og aðra galla...þetta er langt frá því að vera tæmandi umfjöllun). Það þarf að fara aftur að teikniborðinu og endurhanna það frá grunni út frá nýjum forsendum. Börn þurfa stóraukið vald yfir því hvað þau læra, hvenær, með hverjum og hvernig. Það þarf að leggja þeirri snargölnu hugmynd að einhverjir meintir sérfræðingar á vegum menntamálaráðuneytisins ákveði hvað allur almenningur þurfi að læra.

Við lærum best þegar við gerum það á eigin forsendum, eltum eigin áhuga og sökkvum okkur ofan í viðfangsefnið. Við lærum best með því að leika okkur. Ég held því að grunnforsendurnar þurfi að vera FRELSI og LEIKUR. 

------------------------------------------------------

Ég vil taka skýrt fram að þessi grein er ádeila á menntakerfið, ekki á kennara. Í skólakerfinu er fullt af frábærum kennurum sem vinna baki brotnu fyrir léleg laun við að lágmarka skaðann sem kerfið veldur. Ég hef hins vegar rætt þessi mál við fjölmarga kennara og þeir eru oftast algerlega sammála því að kerfið þarfnist endurskoðunar við, enda blasa gallar þess við þeim á hverjum degi.


Ég hugsa með miklum hlýhug til margra sem kenndu mér á sínum tíma, sérstaklega þær greinar sem ég hafði áhuga á og hæfileika í.

Heimildir:

Daniel Pink: Drive: The surprising truth about what motivates us
Peter Gray: Free to learn: Why unleashing the instinct to play will make our children happier, more self-reliant and better students for life
Peter Warr: The joy of work?: Work, happiness and you

Comments

Anonymous said…
Vel orðuð grein hjá þér og ekki gleyma þeim sem fá greiningar sem eru leið skólakerfisins til að stimpla þá sem ekki falla í normið sem fávita.
Flott grein og mikilvægt innlegg í þessa umræðu sem þarf vissulega að fara fram en það eru hindranir sem þarf að yfirstíga til að hægt sé að fá fram breytingar. Það þarf bæði aukna umræðu og ekki síst vilja til breytinga. Umræða er til alls fyrst. Takk fyrir góða grein.

Popular posts from this blog

Rafmagnsbílar- ofurvélar

Var á leið í vinnu um daginn þegar ég heyrði viðtal við rafmagnsverkfræðing sem sagði illskiljanlegt af hverju ekki væri lögð meiri áhersla á framleiðslu og notkun rafmagnsbíla. Miklar framfarir hefðu orðið í framleiðlsu rafmótora og rafhlaðna og að í dag væru rafmagnsbílar fremri sprengimótorum að flestu, ef ekki öllu leyti.

Verandi forvitinn maður fór ég að rannsaka málið og datt niður á þessa síðu:

http://www.teslamotors.com/learn_more/faqs.php

Þetta er FAQ síða hjá fyrir tæki sem heitir Tesla Motors. Þeir framleiða rafmagnssportbíl (neibb....ekki oximoron!). Græjan er 4 sekúndur í hundraðið, kemst 400 km á hleðslunni og virðist vera ofursvöl græja. Og...hann kostar innan við 100.000 dollara. Strategían hjá þeim virðist vera að gera bílinn algengann hjá ríka fólkinu- fá umhverfismeðvitaða uppa til að skipta Porche-num út fyrir Teslu (Svona rafmagnsbíll myndi örugglega "get one laid" í henni Kaliforníu ,svo dæmi sé tekið). Afar snjallt.

Það sem ég er að velta fyrir mér er þet…

Lausn húsnæðisvandans: Lítil hús!

Mörg byggðarlög í landsbyggðunum eru í spennitreyju. Af ýmsum ástæðum er byggingarkostnaður þar hár (fjarlægð frá heildsölum í Reykjavík, skortur á iðnaðarmönnum o.fl.) og lágt fasteignaverð veldur því að útilokað er að selja eldri fasteign og kaupa sér nýja án þess að tapa á því stórfé. Sú eðlilega hringrás sem skapast þegar eldra fólk minnkar við sig til að fara í minna og hentugra húsnæði og rýmir þannig til fyrir barnafjölskyldum og yngra fólki er því rofin. Fólk fer beint út stóra húsinu sínu og á elliheimilið. Staðan er svo þannig í þeim landsbyggðum sem eru að vaxa (víðast vegna uppsveiflu í ferðaþjónustu) að stórvesen er að hýsa starfsfólk. Ungt fólk sem vill prófa að búa á þessum stöðum þarf annaðhvort að taka sénsinn á að kaupa sér einbýlishús sem það losnar svo tæpast við aftur, eða að leigja á háu verði, ef eitthvað leiguhúsnæði er þá í boði. 
Ég er með lausn á þessu. Hún er þessi:
Byggjum lítil og ódýr hús
Af hverju gerum við ráð fyrir að allir vilji búa í stóru húsi? Er…