Sunday, December 13, 2015

Samfélagsmiðlar og hugarró

Ég á í ástar-/haturssambandi við samfélagsmiðla. Svolítið eins og krakkhórur eiga í ástar-/haturssambandi við krakk. Ég er sífellt meira hugsi yfir notkun þessara miðla og hvað sú notkun er hugsanlega að gera manni.

Mér finnst ég orðinn skuggalega háður þessum miðlum, sérstaklega Facebook. Og það er engin furða.

Ég á um fimmhundruð vini á Facebook og hef mjög gaman af því að fylgjast með þeim. Facebook gerir manni kleyft að vera í einhverskonar sambandi við fullt af fólki sem maður væri ellegar í mjög litlu sambandi við. Margir vinir mínir eru duglegir að pósta einhverju skemmtilegu, fyndnu og fróðlegu, auk þess að deila molum úr eigin lífi. Svo er ég búinn að breyta fréttaveitunni í sérhannaða fréttasíðu um eigin áhugamál og fæ því endalausar fréttir um tónlist, bókmenntir, viskí, útiveru, hreyfingu, samfélagsmál og ýmislegt annað sem ég hef áhuga á. Ég skelli oft inn myndum, hlekkjum eða athugasemdum og fæ oft fínt feedback frá þeim vinum mínum sem sjá uppfærslurnar mínar.

Allt þetta veldur því að Facebook er mjög ávanabindandi. Endalaus uppspretta fróðleiks og afþreyingar, en líka maskína sem gefur endalaust jákvætt feedback og tækifæri til að eiga í samræðum við fólk um áhugamál og málefni líðandi stundar. Feedbackið klappar og ógnar egóinu á víxl.  Það er auðvelt að sogast inn og gleyma sér, jafnvel tímunum saman.

Vinur minn skrifaði svolítið um daginn sem mér fannst sláandi. Hann sagði eitthvað á þá leið að hann eyddi nú orðið miklu meiri tíma í að lesa það sem er skrifað um bækur og tónlist heldur en að lesa bækur eða hlusta á tónlist. Ég tengdi mjög sterkt við þessa observasjón, en leið ekkert sérlega vel með það. Er þetta ekki svolítið eins og að liggja endalaust yfir matreiðslubókum, en elda aldrei neitt? Erum við síflellt meira að lesa um lífið í stað þess að lifa því? Ég óttast að svo sé.

Annað sem ég er hugsi yfir eru þau óhjákvæmilegu tilfinningaviðbrögð sem maður upplifir þegar maður les um kvíðvænlega og ljóta hluti. Talsverður hluti þess er maður sér í fréttaveitunni á Facebook eru neikvæðir hlutir. Fólk sér fréttir um eitthvað sem kemur því í uppnám og póstar þeim beint á vegginn sinn með tilheyrandi upphrópunum. Ég geri þetta reglulega sjálfur. Oft er um að ræða hluti sem vekja óþægilegar tilfinningar þegar maður les um þá; kviða og depurð. Ég held líka að áhrifin séu meiri þegar fréttirnar koma frá fólki sem maður þekkir og þykir vænt um.

Í ofanálag er Facebook útsmogin auglýsingamaskína. Mér dettur ekki í hug að halda því fram að ég sé svo rosalega klár og meðvitaður að ég sé ónæmur fyrir þessum auglýsingum. Fyrirtæki eyða ekki milljörðum dollara í auglýsingar og markaðssetningu upp á djók. Þau gera það vegna þess að það virkar.

Ég hallast því sífellt meira að því að Facebook sé varasöm fyrir mig og að ég ætti að minnka notkunina. Það er bara ekkert auðvelt að ætla sér að verða bara kasjúal krakkneytandi eftir að maður er löngu orðinn húkkd.

Bottom læn: Ég held að það sé vænlegra að GERA og UPPLIFA það sem maður hefur áhuga á en að lesa um það. Að sama skapi held ég að það sé best að velta sér ekki um of upp úr hlutum sem gera mann kvíðinn og sorgmæddan. Þetta ber allt að sama brunni: Minni netnotkun er klárlega málið...og ofnotkun er sennilega mjög varasöm. Ég held að samfélagsmiðlar hafi ekki góð áhrif á hugarró mína og hamingju. Ég hugsa því að eitt af áramótaheitunum verði að taka í eigið hnakkadramb og ná betri tökum á frétta- og samfélagsmiðlafíkninni. Ég er því að spá í að stofna Facebook grúppu fólks sem....eða....sko.....nei, nei.


No comments: