Monday, April 11, 2016

Lausn húsnæðisvandans: Lítil hús!

46 fermetra smáhýsi


Mörg byggðarlög í landsbyggðunum eru í spennitreyju. Af ýmsum ástæðum er byggingarkostnaður þar hár (fjarlægð frá heildsölum í Reykjavík, skortur á iðnaðarmönnum o.fl.) og lágt fasteignaverð veldur því að útilokað er að selja eldri fasteign og kaupa sér nýja án þess að tapa á því stórfé. Sú eðlilega hringrás sem skapast þegar eldra fólk minnkar við sig til að fara í minna og hentugra húsnæði og rýmir þannig til fyrir barnafjölskyldum og yngra fólki er því rofin. Fólk fer beint út stóra húsinu sínu og á elliheimilið. Staðan er svo þannig í þeim landsbyggðum sem eru að vaxa (víðast vegna uppsveiflu í ferðaþjónustu) að stórvesen er að hýsa starfsfólk. Ungt fólk sem vill prófa að búa á þessum stöðum þarf annaðhvort að taka sénsinn á að kaupa sér einbýlishús sem það losnar svo tæpast við aftur, eða að leigja á háu verði, ef eitthvað leiguhúsnæði er þá í boði. 

Ég er með lausn á þessu. Hún er þessi:

Byggjum lítil og ódýr hús

Af hverju gerum við ráð fyrir að allir vilji búa í stóru húsi? Er ekki bara fullt af fólki sem væri alveg til í að búa í litlu og krúttlegu húsi sem er passlega stórt? Er ekki fullt af einstæðingum og pörum sem væri alveg til í að búa í 40 fermetra húsi, bæði ungt fólk sem er hefja búskap, eldra fólk sem vill losna við stóra húsið sitt og einstæðingar og minimalistar á öllum aldri sem vilja frekar lifa lífinu en að borga af svimandi háu og verðtryggðu fasteignaláni? 

Ég er sannfærður um að það mætti hanna hús af þessu tagi sem myndu kosta undir 8 milljónum, uppsett og fullbúin. Ef þú prófar að gúgla orðin "tiny house", þá blasir við að víða um heim er mikill áhugi á lausnum af þessu tagi. Það þarf því ekki að finna upp hjólið..eða í þessu tilviki...húsið. Það er magnað hvað er hægt að gera flotta hluti þótt fermetrafjöldinn sé lítill. 

Ég hef annað slagið rekist á umfjöllun um lítil hús hér á landi, en aldrei neinar umræður um að í þeim gætu falist alvöru tækifæri. Ég held hins vegar að ef skipulagðar væru lóðir fyrir svona hús og verktakar tækju sig til og færu að bjóða fólki híbýli af þessu tagi, þá yrði bullandi eftirspurn. Það yrði þá ekki óyfirstíganlegt fyrir ungt fólk að komast í eigið húsnæði og eldra fólk sem vildi minnka við sig gæti gert það án þess að tapa stórfé. 

Þessi hús mætti jafnvel hanna þannig að það væri hægt að hífa þau upp á vörubílspall og flytja þau. Þar með væri fjáhagslega áhættan við að prófa að búa í landsbyggðarþorpi úr sögunni (og áður en einhver fer að röfla...nei, ég er ekki að leggja til að búa til einhverja "trailer park". Svona hús geta verið alveg jafn vönduð og stærri hús. Þau eru bara miklu minni og því miklu ódýrari. Og auðvitað gætu smáhýsi alveg verið góð hugmynd í höfuðborginni líka, þótt smáíbúðir væru kannski meira málið þar af landrýmis og samgönguástæðum.)

Smáhýsi geta líka verið umhverfisvæn og hagkvæm í rekstri, sem er bara jákvætt. Þeir sem búa í smáhýsum geta svo eytt peningunum sínum í eitthvað annað en botnlausa hít húsnæðislána og því notið lífsins betur, auk þess sem meiri peningar fara þá út í nærsamfélagið í stað þess að renna til íbúðalánasjóðs. 

Smáhýsi gætu einnig unnið gegn efnishyggju, því ef húsið þitt er pínulítið, þá þarftu að hugsa þig vel um áður en þú kaupir eitthvað drasl og tilhneygingin verður þá að kaupa fyrst og fremst það sem þig raunverulega vantar. Þetta gæti því verið mikilvægt skref í átt að sjálfbærari lífsháttum.

No comments: