Sunday, October 23, 2016

"...Og hvernig er svo að vera ekki á Facebook lengur?..."

Þessa spurningu hef ég fengið oft síðustu vikurnar og nokkrir hafa skorað á mig að skrifa um þetta. Eftir smá umhugsun ákvað ég að láta slag standa.

Ég tók sumsé þá ákvörðun í júlímánuði að hætta að nota Facebook. Ég hafði þá í talsverðan tíma haft miklar efasemdir um að notkun á þessum miðli væri sniðug fyrir mig, af ástæðum sem ég hef áður lýst.

Í stuttu máli er ég ákaflega sáttur við þessa ákvörðun og sakna Facebook ekki baun. Reyndar varð ég var við talsverð fráhvarfseinkenni fyrstu vikurnar, enda ávaninn að skruna í gegnum fréttaveituna ansi sterkur. En fráhvarseinkennin liðu hjá og hefur andleg líðan síðan verið mjög á uppleið. Mér finnst reynslan hingað til staðfesta efasemdir mínar um ágæti þessa miðils.

Mér finnst ég vera afslappaðari, glaðari, bjartsýnni og einbeittari heldur en áður. Mér finnst ég upplifa fleiri "vökustundir", þar sem ég er hér og nú. Ég er búinn að enduruppgötva ánægjuna í því að sitja í friði og ró og lesa dagblöð, sem ég var alveg hættur að gera, auk þess sem ég les fleiri bækur. Ég er búinn að enduruppgötva ánægjuna sem fylgir því að eiga alvöru einkalíf og ég upplifi meiri og innilegri gleði þegar ég hitti ættingja, vini og kunningja.

Ég mæli eindregið með því að láta Facebook eiga sig ef fólk hefur einhvern grun um að það sé að eyða of miklum tíma í þennan miðil. Ég held að þetta sé óttaleg djöflasýra sem fokkar meira í heilanum á okkur en við gerum okkur grein fyrir. Netheimurinn er furðulegur speglasalur sem þægilegt er að flýja inn í, en ég held að hann veiti óskaplega litla alvöru gleði. Alvöru gleðin er hér og nú - í kjötheiminum þar sem við getum horfst í augu, knúsast, spjallað, hlegið og myndað alvöru tengsl.

p.s. Það er svo auðvitað dásamlega írónískt að sennilega mun enginn lesa þennan pistil, því ég get ekki deilt honum á Facebook. Mér er samt eiginlega svolítið mikið sama...

No comments: