Skip to main content

Að mannast

Hvenær verður maður eiginlega fullorðinn? Hafið þið pælt í þessu? Finnist þér þú vera orðinn fullorðinn? Þetta er svolítið búið að vera að bögga mig upp á síðkastið. Ég er nefnilega ekki viss um að ég sé orðinn fullorðinn. Held samt að það gæti verið kominn tími til þess að fullorðnast. En spurningin er- hvenær er maður orðinn fullorðinn. Hvað er það?

Mín mynd af þessu ástandi er sú að sá fullorðni:
 • Viti hver hann er
 • Sé öruggur með sig
 • Viti hvað hann vill (og vill ekki)
 • Sé duglegur
 • Horfist í augu við raunveruleikann
 • Sé ábyrgur
 • Sé samfélagslega meðvitaður

Spáum að eins í hvern punkt og hvort "fullorðnir" (þ.e. þeir sem eru eldri en ég) uppfylli þessi skilyrði.

 • Að vita hver maður er- Stór hluti fólks hefur mjög takmarkaða hugmynd um þetta. Veist þú hver þú ert og hvað þú stendur fyrir? Ég er alls ekki viss. Flestir reyna að presentera slétt og fellt og ábyrgt yfirborð. Eru hins vegar með ófreskjur í undirdjúpunum sem sletta upp sporðinum fyrirvaralaust.
 • Að vera öruggur með sig- Nútíminn er geðveikislega flókinn. Menn þurfa að uppfylla ótrúlegustu kröfur. Allir eiga að vera gáfaðir, fallegir, fyndnir, vel klæddir......... stórir hlutar efnahagslífs okkar vinna markvisst að því að koma í veg fyrir að við séum örugg með okkur, til að selja okkur snyrtivörur, bíla, föt.............
 • Að vita hvað maður vill- Við viljum allt. Við viljum ekki skuldbinda okkur. Heimurinn er eins og risavaxið hlaðborð. Við viljum smakka allt. Ef við veljum að eins einn rétt þá þurfum við að horfa á alla hina háma í sig kræsingarnar. Ég vil vera lögga, kennari, blaðamaður, læknir, eiginmaður, elskhugi, faðir, vinur, fræðimaður, ljóðskáld, aumingi, hetja, fyllibytta, prestur.........brandarakjúklingur og ofurhetja (þó að mér finnist fínt að vera framkvæmdastjóri). Við erum alltaf með alla möguleika stanslaust fyrir augunum: á sjónvarpsskjánum, í séð og heyrt, á netinu. Allir möguleikar eru opnir. Hvernig eigum við að vita hvað við viljum?
 • Að vera duglegur- Flestir eru latir. Ég er latur. Ég vildi helst komast upp með að gera bara það sem mér sýnist. Ég held að flestir hugsi eins.
 • Að horfast í augu við raunveruleikann- Flestir eru á örvæntingarfullum flótta undan raunveruleikanum. Drekka brennivín, sökkva sér í sápur, líma saman módel, rúnka sér endalaust yfir internetklámi, sökkva sér í vinnu (ekki allir gera sér grein fyrir því að í því geti fólgist veruleikaflótti).
 • Að vera ábyrgur- Það kannski einna helst að sumum takist þetta. Samt er gríðarlega algengt að menn hlaupist frá því að bera ábyrgð, sama hvort um er að ræða börnin þeirra, vinnuna, heilsuna, fjármálin eða eitthvað annað.
 • Að vera samfélagslega meðvitaður- Flestir hugsa nánast eingöngu um eigið rassgat. Enough said......

Niðurstaða: Þótt maður eigi það til að panikka yfir því hvað maður á langt í land með að verða fullorðinn, þá er e.t.v. örlítil huggun fólgin í því að vita að það er mjög fáum sem yfir höfuð tekst að ná því þroskastigi.

Lífið er líka svolítið eins og slönguspil. Það kemur fyrir að maður er svo heppinn að lenda á stiga. Maður nær ótrúlega langt með lítilli fyrirhöfn. Stígur svo á slöngu og rennur aftur niður á byrjunarreit.

Comments

Popular posts from this blog

Vinir Dóra

Einhverjir hafa eflaust umsvifalaust ályktað sem svo að nú ætlaði ég að fara að tjá mig um framsóknarflokkinn, en svo er ekki (þannig að þið getið lesið áfram án þess að eiga það á hættu að fá heilablóðfall af leiðindum).

Ég var nefnilega að lesa viðtal við Halldór Bragason, blúshund, í Mogganum um helgina. Þá lét lítil minning á sér kræla:

"Árið er ca. 1995. Ég er staddur á Reykjavíkurflugvelli í bið-"sal" Íslandsflugs. Á biðstofunni eru tvö farlama gamalmenni, kona með grátandi ungabarn og bólugrafinn unglingur sem er að sporðrenna prins póló númer 2 og drekka kókómjólk. Ég er heldur daufur í dálkinn yfir þessari ofurraunsæislegu hversdagssenu þegar hurðin þeytist skyndilega upp og inn ganga fjórir svartklæddir menn. Snjófjúk fylgir þeim inn í biðstofuna og ískaldur ferskur andblær.

Mennirnir eru Halldór Bragason og vinir hans. Dóri er með kúrekahatt á höfði og í leðurstígvélum. Guðmundur Pétursson er í skósíðum frakka með krullurnar í allar áttir. Þeir eru með gítartösk…

Rafmagnsbílar- ofurvélar

Var á leið í vinnu um daginn þegar ég heyrði viðtal við rafmagnsverkfræðing sem sagði illskiljanlegt af hverju ekki væri lögð meiri áhersla á framleiðslu og notkun rafmagnsbíla. Miklar framfarir hefðu orðið í framleiðlsu rafmótora og rafhlaðna og að í dag væru rafmagnsbílar fremri sprengimótorum að flestu, ef ekki öllu leyti.

Verandi forvitinn maður fór ég að rannsaka málið og datt niður á þessa síðu:

http://www.teslamotors.com/learn_more/faqs.php

Þetta er FAQ síða hjá fyrir tæki sem heitir Tesla Motors. Þeir framleiða rafmagnssportbíl (neibb....ekki oximoron!). Græjan er 4 sekúndur í hundraðið, kemst 400 km á hleðslunni og virðist vera ofursvöl græja. Og...hann kostar innan við 100.000 dollara. Strategían hjá þeim virðist vera að gera bílinn algengann hjá ríka fólkinu- fá umhverfismeðvitaða uppa til að skipta Porche-num út fyrir Teslu (Svona rafmagnsbíll myndi örugglega "get one laid" í henni Kaliforníu ,svo dæmi sé tekið). Afar snjallt.

Það sem ég er að velta fyrir mér er þet…

Menntakerfið byggir á úreltum og skaðlegum forsendum

Ákveðnar forsendur liggja til grundvallar í menntakerfinu okkar. Kerfið er í grófum dráttum svona:
Nemendum er skipt í hópa eftir aldri. Allir eru skulu dvelja á skólastofnun frá 6-16 ára. Þar skulu þeir læra samkvæmt gildandi aðalnámsskrá. Aðalnámsskráin er sett saman af sérfræðingum sem er gert að greina og ákveða hvað allir þurfa að læra svo að þeir séu tilbúnir í framhaldsnám og þátttöku í samfélaginu. Kennarar skulu svo gera sitt besta til að tryggja að allir nemendur tileinki sér sem mest af þeirri hæfni og þekkingu sem aðalnámsskráin segir til um. Það eiga sumsé allir að læra það sama. Frammistaða nemenda er vegin og metin frá upphafi með prófum og verkefnum sem eiga að segja til um hvernig þeim gengur.
Það er hægara sagt en gert að ná þeim markmiðum sem kerfið setur. Börnum er ekki eðlislægt að fylgja skipunum og sitja kyrr. Það þurfa þau samt að gera í skólanum, talsverðan hluta dags. Þau ráða engu um það hvað þau læra, hvenær, hvar, með hverjum eða hvernig (í flestum tilvik…