Skip to main content

Fótbolti- Óheiðarlegasta íþrótt í heimi?

Ég er búinn að horfa talsvert á HM. Hef haft ansi gaman af því, þótt mér leiðist fótbolti svona almennt séð. Ég fylgist ekki með ensku, eða neinni annarri deild. Ég hef reyndar svipað viðhorf til íþrótta og til kynlífs: Mér finnst skemmtilegra að stunda þær en að horfa á einhverja aðra spreyta sig.

HM er hins vegar "a whole different ball game". Þarna kljást þjóðir og heimsálfur og dramatíkin er mikil. Á köflum sér maður hæfileika á dásamlegu plani og þótt ég haldi ekki sérstaklega með neinni þjóð þá er þetta oft unun á að líta. Ég er samt ekki frá því að ég sé farinn að halda með Þjóðverjum, enda eru þeir með einstaklega skemmtilegt og ungt lið. Bunderslígan er ekki sú ríkasta í heimi, þannig að þeir hafa lagt mikið upp úr því að ala upp góða leikmenn og að uppskera árangur erfiðisins núna. Ég vona að þeir vinni keppnina.

Við það að horfa á þessa leiki hefur það samt farið sífellt meira í taugarnar á mér hvað óheiðarleiki og óíþróttamannsleg framkoma er ríkur hluti af þessari íþrótt. Dæmi:

  • Ef það er svo mikið sem andað á leikmenn þá kasta þeir sér í jörðina eins og þeir hafi stigið á jarðsprengju. Þetta er kallað að "fiska". Þetta er ömurleg hegðun. Ég man ekki eftir því úr nokkurri annarri íþrótt að það sé svona ríkur hluti af leiknum að reyna að blekkja dómara með þessum hætti.
  • Í hvert einasta skipti sem boltinn fer út af vellinum, þá halda báðir leikmenn því fram að þeir eigi boltann. Annar þeirra er alltaf að ljúga. Þeir vita nákvæmlega hver á boltann. Hvað er málið?!!
  • Leikmaður sem brýtur á öðrum leikmanni þrætir nánast undantekningalaust fyrir því að hafa gert það. Verður jafnvel oft alveg brjálaður út í dómarann ef dæmd er aukaspyrna eða spjald. Leikmaðurinn vissi alveg hvað hann gerði. Áhorfendur vita alveg hvað hann gerði (enda myndavélar að taka upp frá ótal sjónarhornum). Samt er tuðað, oft af mikilli vandlætingu.
  • Það er viðurkennd hegðun að bjálast út í dómarann. Menn æða mjög ógnandi að honum og öskra eins og vitlausir menn. Af hverju er þetta leyft? Af hverju eru menn ekki reknir umsvifalaust af velli fyrir svona nokkuð?

Mér finnst sorglegt að ofangreint skuli vera viðurkenndur hluti af leiknum. Hverskonar siðferðisboðskapur er þetta? Er þetta eitthvað sem við viljum hafa í heiðri og kenna börnunum okkar?

Eh...nei takk!

Mér finnst að fótboltinn þurfi að gera gangskör í að laga þetta og það væri ágætt að byrja á að laga þetta á HM. Og þetta er einfalt. Það á bara að fara yfir leikinn eftirá og spjalda öll þessu brot. Ef menn "fiska" víti= Rautt spjald. Ef menn sparka í einhvern viljandi og þykjast svo vera saklausir sem nýfædd lömb=Rautt spjald. O.s.frv.

Ég held að þetta sé eina leiðin til að breyta þessu. Það virðist a.m.k. ólíklegt að leikmenn taki það upp hjá sjálfum sér að haga sér eins og alvöru íþróttamenn.

Comments

Popular posts from this blog

Vinir Dóra

Einhverjir hafa eflaust umsvifalaust ályktað sem svo að nú ætlaði ég að fara að tjá mig um framsóknarflokkinn, en svo er ekki (þannig að þið getið lesið áfram án þess að eiga það á hættu að fá heilablóðfall af leiðindum).

Ég var nefnilega að lesa viðtal við Halldór Bragason, blúshund, í Mogganum um helgina. Þá lét lítil minning á sér kræla:

"Árið er ca. 1995. Ég er staddur á Reykjavíkurflugvelli í bið-"sal" Íslandsflugs. Á biðstofunni eru tvö farlama gamalmenni, kona með grátandi ungabarn og bólugrafinn unglingur sem er að sporðrenna prins póló númer 2 og drekka kókómjólk. Ég er heldur daufur í dálkinn yfir þessari ofurraunsæislegu hversdagssenu þegar hurðin þeytist skyndilega upp og inn ganga fjórir svartklæddir menn. Snjófjúk fylgir þeim inn í biðstofuna og ískaldur ferskur andblær.

Mennirnir eru Halldór Bragason og vinir hans. Dóri er með kúrekahatt á höfði og í leðurstígvélum. Guðmundur Pétursson er í skósíðum frakka með krullurnar í allar áttir. Þeir eru með gítartösk…

Rafmagnsbílar- ofurvélar

Var á leið í vinnu um daginn þegar ég heyrði viðtal við rafmagnsverkfræðing sem sagði illskiljanlegt af hverju ekki væri lögð meiri áhersla á framleiðslu og notkun rafmagnsbíla. Miklar framfarir hefðu orðið í framleiðlsu rafmótora og rafhlaðna og að í dag væru rafmagnsbílar fremri sprengimótorum að flestu, ef ekki öllu leyti.

Verandi forvitinn maður fór ég að rannsaka málið og datt niður á þessa síðu:

http://www.teslamotors.com/learn_more/faqs.php

Þetta er FAQ síða hjá fyrir tæki sem heitir Tesla Motors. Þeir framleiða rafmagnssportbíl (neibb....ekki oximoron!). Græjan er 4 sekúndur í hundraðið, kemst 400 km á hleðslunni og virðist vera ofursvöl græja. Og...hann kostar innan við 100.000 dollara. Strategían hjá þeim virðist vera að gera bílinn algengann hjá ríka fólkinu- fá umhverfismeðvitaða uppa til að skipta Porche-num út fyrir Teslu (Svona rafmagnsbíll myndi örugglega "get one laid" í henni Kaliforníu ,svo dæmi sé tekið). Afar snjallt.

Það sem ég er að velta fyrir mér er þet…

Menntakerfið byggir á úreltum og skaðlegum forsendum

Ákveðnar forsendur liggja til grundvallar í menntakerfinu okkar. Kerfið er í grófum dráttum svona:
Nemendum er skipt í hópa eftir aldri. Allir eru skulu dvelja á skólastofnun frá 6-16 ára. Þar skulu þeir læra samkvæmt gildandi aðalnámsskrá. Aðalnámsskráin er sett saman af sérfræðingum sem er gert að greina og ákveða hvað allir þurfa að læra svo að þeir séu tilbúnir í framhaldsnám og þátttöku í samfélaginu. Kennarar skulu svo gera sitt besta til að tryggja að allir nemendur tileinki sér sem mest af þeirri hæfni og þekkingu sem aðalnámsskráin segir til um. Það eiga sumsé allir að læra það sama. Frammistaða nemenda er vegin og metin frá upphafi með prófum og verkefnum sem eiga að segja til um hvernig þeim gengur.
Það er hægara sagt en gert að ná þeim markmiðum sem kerfið setur. Börnum er ekki eðlislægt að fylgja skipunum og sitja kyrr. Það þurfa þau samt að gera í skólanum, talsverðan hluta dags. Þau ráða engu um það hvað þau læra, hvenær, hvar, með hverjum eða hvernig (í flestum tilvik…