Skip to main content

Andinn snýr aftur

Eftir örstutta umhugsun hef ég ákveðið að byrja aftur að blogga á þessari síðu. Kollektífa bloggsíðan sem ég hef skrifað á síðustu mánuðina lognaðist eiginlega út af. Kannski af því að ég var farinn að skrifa megnið að innihaldinu (Humm....maður ætti kannski að taka þetta til sín og hætta þessari vitleysu? Eðaekki...)

Þessi fyrsta færsla verður sundurlaus grautur. You've been forwarned.

Fyrst smá frétt. Í næstu viku, á fimmtudag og föstudag nánar tiltekið, mun ég troða upp á höfuðborgarsvæðinu í fyrsta skipti. Ég mun spila með Birni Thoroddsen í Salnum í Kópavogi á tónleikum sem nefnast "Gítarveisla Bjössa Thor". Bjössi hefur haldið svona tónleika á hverju ári síðustu fimm árin eða svo og þeir verða sífellt vinsælli. Þarna verða gítarleikarar eins og Guðmundur Pétursson, Bjöggi Gísla, Þórður Árna og Robin Nolan. Og ÉG! WTF?

Þetta er þannig til komið að ég söng með Bjössa í sumar á Djasshátíð. Það kom til mjög óvænt. Það var lag á efnisskránni sem ég hélt í bríaríi fram að ég gæti sungið. Ég var tekinn á orðinu og kallaður upp til að "syngja" lagið, sem heitir "Hokus Pokus" og kemur úr smiðju hinnar hollensku hljómsveitar "Fokus". Bjössi var frekar ánægður með þetta og það varð úr að hann bað mig að koma suður og syngja þetta með honum aftur. Og ekki nóg með það, heldur fæ ég líka að syngja "Paranoid" með Black Sabbath og spila með honum á gítar. Þetta verður fjör! Til að kóróna þetta þá verða fyrri tónleikarnir á afmælisdaginn minn, auk þess sem RÚV tekur tónleikana upp.

Það er líka gaman að segja frá því að ég verð ekki eini norðfirski gítarleikarinn á þessum tónleikum, því Jón Hilmar verður líka þarna. Ég spái því að hann muni stimpla sig inn sem einn besti gítarleikari landsins þegar hann tekur "Cliffs of Dover". Það eru ekki margir gítarleikarar hérlendis sem ráða við það lag.

----------------------------

Ég fór í langt frí frá Facebook í sumar og haust. Er sannfærður um að mikil notkun á Facebook getur verði varasöm. Ég hef samt ákveðið að taka aftur upp takmarkaða notkun á henni, fyrst og fremst til að geta náð sambandi við fólk og til að miðla efni og fróðleik. Ég ætla hins vegar að takmarka notkun við örfáar mínútur á dag og nota hana fyrst og fremst sem verkfæri, en ekki stað til að hanga oft á dag eða lengi í einu. Og aldrei mun ég fá mér facebook í símann. Never!

----------------------------

Ég er að baksa við að melta nýju Opeth plötuna. Gífurlega metnaðarfullt stykki frá þessum snillingum. Þeir eru sumpartinn að taka lengra ýmsar pælingar af Watershed, en að stóru leyti er þessi plata mikil stefnubreyting. Ekki heyrist eitt einast urr á allri plötunni og ég verð nú að segja að ég sakna þess pínu. Hins vegar eru þessi ´70 prog áhrif agalega skemmtileg, sándið er frábært (enda Steve Wilson að mixa eins og fyrri daginn) og Akerfeldt brillerar í söngnum. Allur hljóðfæraleikur er unaður á að hlýða. Mendez fær meira pláss fyrir bassalínur og Axe stimplar sig endanlega inn sem einn besti trommari í bransanum. Þeir sem töluðu um að Lopez hefði verið "svo skemmtilega djassaður" þurfa endanlega að viðurkenna að Axe er ekki síðri trommari.

----------------------------

Ég er búinn að lesa talsvert upp á síðkastið. Plægði í gegnum hnullunginn "Game of Thrones". Það var ekki leiðinlegt. Held samt að ég láti bara duga að horfa á þættina. Mér skilst að þeir séu mjög trúir bókunum. Gott stöff. Er núna að lesa eina gamla eftir Jonathan Franzen. Sá maður er mikill snillingur. Mikið væri gaman að geta skrifað svona.

---------------------------

Góðar stundir. Ég mun dúndra hér inn færslum þegar andinn kemur yfir mig.

Comments

Popular posts from this blog

Vinir Dóra

Einhverjir hafa eflaust umsvifalaust ályktað sem svo að nú ætlaði ég að fara að tjá mig um framsóknarflokkinn, en svo er ekki (þannig að þið getið lesið áfram án þess að eiga það á hættu að fá heilablóðfall af leiðindum).

Ég var nefnilega að lesa viðtal við Halldór Bragason, blúshund, í Mogganum um helgina. Þá lét lítil minning á sér kræla:

"Árið er ca. 1995. Ég er staddur á Reykjavíkurflugvelli í bið-"sal" Íslandsflugs. Á biðstofunni eru tvö farlama gamalmenni, kona með grátandi ungabarn og bólugrafinn unglingur sem er að sporðrenna prins póló númer 2 og drekka kókómjólk. Ég er heldur daufur í dálkinn yfir þessari ofurraunsæislegu hversdagssenu þegar hurðin þeytist skyndilega upp og inn ganga fjórir svartklæddir menn. Snjófjúk fylgir þeim inn í biðstofuna og ískaldur ferskur andblær.

Mennirnir eru Halldór Bragason og vinir hans. Dóri er með kúrekahatt á höfði og í leðurstígvélum. Guðmundur Pétursson er í skósíðum frakka með krullurnar í allar áttir. Þeir eru með gítartösk…

Rafmagnsbílar- ofurvélar

Var á leið í vinnu um daginn þegar ég heyrði viðtal við rafmagnsverkfræðing sem sagði illskiljanlegt af hverju ekki væri lögð meiri áhersla á framleiðslu og notkun rafmagnsbíla. Miklar framfarir hefðu orðið í framleiðlsu rafmótora og rafhlaðna og að í dag væru rafmagnsbílar fremri sprengimótorum að flestu, ef ekki öllu leyti.

Verandi forvitinn maður fór ég að rannsaka málið og datt niður á þessa síðu:

http://www.teslamotors.com/learn_more/faqs.php

Þetta er FAQ síða hjá fyrir tæki sem heitir Tesla Motors. Þeir framleiða rafmagnssportbíl (neibb....ekki oximoron!). Græjan er 4 sekúndur í hundraðið, kemst 400 km á hleðslunni og virðist vera ofursvöl græja. Og...hann kostar innan við 100.000 dollara. Strategían hjá þeim virðist vera að gera bílinn algengann hjá ríka fólkinu- fá umhverfismeðvitaða uppa til að skipta Porche-num út fyrir Teslu (Svona rafmagnsbíll myndi örugglega "get one laid" í henni Kaliforníu ,svo dæmi sé tekið). Afar snjallt.

Það sem ég er að velta fyrir mér er þet…

Menntakerfið byggir á úreltum og skaðlegum forsendum

Ákveðnar forsendur liggja til grundvallar í menntakerfinu okkar. Kerfið er í grófum dráttum svona:
Nemendum er skipt í hópa eftir aldri. Allir eru skulu dvelja á skólastofnun frá 6-16 ára. Þar skulu þeir læra samkvæmt gildandi aðalnámsskrá. Aðalnámsskráin er sett saman af sérfræðingum sem er gert að greina og ákveða hvað allir þurfa að læra svo að þeir séu tilbúnir í framhaldsnám og þátttöku í samfélaginu. Kennarar skulu svo gera sitt besta til að tryggja að allir nemendur tileinki sér sem mest af þeirri hæfni og þekkingu sem aðalnámsskráin segir til um. Það eiga sumsé allir að læra það sama. Frammistaða nemenda er vegin og metin frá upphafi með prófum og verkefnum sem eiga að segja til um hvernig þeim gengur.
Það er hægara sagt en gert að ná þeim markmiðum sem kerfið setur. Börnum er ekki eðlislægt að fylgja skipunum og sitja kyrr. Það þurfa þau samt að gera í skólanum, talsverðan hluta dags. Þau ráða engu um það hvað þau læra, hvenær, hvar, með hverjum eða hvernig (í flestum tilvik…