Skip to main content

The times, they are-a changing

Jæja...

Mér finnst kominn tími á samhengislaust blogg þar sem blandast saman sjálfmiðaðar fréttir og random röfl um hvaðeina sem mér flýgur í hug. Spennið beltin.

Framundan eru stórar breytingar í tengslum við vinnu. Ég er að fara í ársleyfi frá Fjarðaáli eftir rúmlega sex ára dvöl. Ég ætla að reyna fyrir mér í sjálfstæðum rekstri sem mun aðallega snúast um mitt eigið heilabú. Ég ætla sumsé í ráðgjafabransann, a.m.k. næsta árið. Fyrir þessu eru allnokkrar ástæður, en kannski fyrst og fremst þörf fyrir tilbreytingu. Ég hef ekki gert neitt jafn lengi og að vinna hjá Alcoa og það er kominn tími á upplit. Þetta verður samt örugglega mjög skrítið, enda á ég fullt af góðum vinum hjá Alcoa og hef lagt lif og sál í þessa vinnu í ansi mörg ár. Það er þó ekki svo að ég muni slíta tengslin alveg, því ég mun að öllum líkindum eyða talsverðum tíma í verkefni fyrir Alcoa. Verð samt talsvert feginn að þurfa ekki að keyra yfir Oddsskarð á hverjum degi. Mér reiknast gróflega til að ég hafi keyrt 1320 sinnum yfir skarðið og tilbaka á þessum tíma. Úff.

Tilhlökkunin er talsverð, en þetta er auðvitað ekki áhyggjulaust. Þegar maður vinnur sjálfstætt þá stendur þetta augljóslega allt og fellur með manni sjálfum. En það verður virkilega gaman að prófa þetta og sjá hvernig gengur.

Ég vona að þetta verði skref í þá átt að bæta jafnvægi vinnu og einkalífs hjá familíunni, en það er ekkert grín að reka heimili með sómasamlegum hætti þegar báðar fyrirvinnurnar vinna krefjandi störf í 40 kílómetra fjarlægð, hinumegin við hæsta fjallveg landsins. Ég hyggst því taka til hendinni í heimilishaldi samhliða ráðgjafavinnu og brillera í þvottum, eldamennsku og uppeldi barns og unglings. Ég vona líka að ég muni hafa meira svigrúm til að halda mér í almennilegu formi, en mér finnst alls ekki hafa verið nógur tími til þess arna síðustu misseri.

-------------------------------------

Ég hef enn ekkert lesið af jólabókum ársins, en hef rökstuddan grun um að ég muni fá a.m.k tvær þeirra í jólagjöf. Ég er spenntur fyrir Arnaldi, en mér finnst það verða ómissandi hluti af jólahaldinu að lesa nýjustu bókina eftir hann. Kannski plebbismi, en mér er nákvæmlega sama. Annars er að koma út mikið af bókum sem mig langar að lesa: Endurminningar Sigurðar Pálssonar, ný bók Ólafs Jóhanns Ólafssonar, Steinunn Sigurðardóttir, Guðmundur Andri, Hallgrímur Helga o.fl. o.fl. Fullt af flottum bókum sem maður þarf nauðsynlega að nálgast. Vona að bókasafnið eigi eitthvað bödget í innkaup á árinu!

Ég er annars búinn að vera grauta í ýmsum bókmenntum síðustu vikur og mánuði. Ég er svolítið búinn að lesa af trúleysingjabókmenntum, og ber þar hæst Christopher nokkurn Hitchens. Hann skrifaði bók sem heitir "God is not great", sem er frábær lesning. Ég núna að lesa "The moral landscape" eftir Sam Harris, sem er líka klár gaur. Það er auðvelt fyrir okkur á litla Íslandi, þar sem trúarbrögð hafa glatað ítökum sínum að miklu leyti, að gleyma því hverskonar ógnarafl trúarbrögðin eru um víða veröld og í raun einhver stærsta ógnin við framtíð mannkyns.

Stærsta breytingin á lestrarvenjum mínum tengjast litlu tæki sem ég eignaðist fyrr í haust. Græjan sú heitir Kindle og er mikið dásemdartæki frá Amazon (fyrirtækinu...ekki ánni). Það er ljóst að Kindillinn á eftir að spara manni stórfé í bókakaupum, auk þess að spara mikið hillupláss. Það er líka fjandi þægilegt að geta haft heilt bókasafn með sér í fríið. Mæli eindregið með Kindlinum!

--------------------------------

Hvað mússík varðar, þá hef ég óvenjulítið hlustað á tónlist í haust. Hlustaði þó mikið á nýja plötu Opeth, "Heritage". Frábær plata sem ég mæli eindregið með fyrir alla rokk- og proggnörda.

Urð hefur legið í láginni í allt haust. Meðlimir hafa verið uppteknir í ýmsum verkefnum. Orri tók þátt í rokkshowi Brján (og ég reyndar líka...söng þrjú lög eða svo), Jón Hafliði datt í Bítla og Stones show og Álbandið var með í jólalagakeppni Geðhjálpar, svo eitthvað sé nefnt. Við stefnum hins vegar á upprisu á nýju ári og verður þá fyrst á dagskrá að klára plötuna. Annað verkefni sem er svo á teikniborðinu er að æfa prógramm með lögum Red Hot Chilipeppers í félagi við góða menn. Það verður stuð!

Comments

Anonymous said…
Hahahahahhaa. Ekki sa fyrsti sem heldur ad frelsi og fritimi aukist vid ad starfa sjalfstætt! :) en ef thad tekst - endilega tha ad nyta timann til ad heimsækja Einar litla i noregi :)
Anonymous said…
Ég ætla ekkert að stofna dot com og ráða fullt af fólki sko :-) Væri annars mjög til í að kíkja til Norge. Var þar reyndar fyrr í haust. Skrapp til Mosjoen í vinnuerindum. Djöfull er að kósí bær. Eníhú...vona að þið hafið það sem allra best í Noregi!

kv.
Siggi

Popular posts from this blog

Vinir Dóra

Einhverjir hafa eflaust umsvifalaust ályktað sem svo að nú ætlaði ég að fara að tjá mig um framsóknarflokkinn, en svo er ekki (þannig að þið getið lesið áfram án þess að eiga það á hættu að fá heilablóðfall af leiðindum).

Ég var nefnilega að lesa viðtal við Halldór Bragason, blúshund, í Mogganum um helgina. Þá lét lítil minning á sér kræla:

"Árið er ca. 1995. Ég er staddur á Reykjavíkurflugvelli í bið-"sal" Íslandsflugs. Á biðstofunni eru tvö farlama gamalmenni, kona með grátandi ungabarn og bólugrafinn unglingur sem er að sporðrenna prins póló númer 2 og drekka kókómjólk. Ég er heldur daufur í dálkinn yfir þessari ofurraunsæislegu hversdagssenu þegar hurðin þeytist skyndilega upp og inn ganga fjórir svartklæddir menn. Snjófjúk fylgir þeim inn í biðstofuna og ískaldur ferskur andblær.

Mennirnir eru Halldór Bragason og vinir hans. Dóri er með kúrekahatt á höfði og í leðurstígvélum. Guðmundur Pétursson er í skósíðum frakka með krullurnar í allar áttir. Þeir eru með gítartösk…

Rafmagnsbílar- ofurvélar

Var á leið í vinnu um daginn þegar ég heyrði viðtal við rafmagnsverkfræðing sem sagði illskiljanlegt af hverju ekki væri lögð meiri áhersla á framleiðslu og notkun rafmagnsbíla. Miklar framfarir hefðu orðið í framleiðlsu rafmótora og rafhlaðna og að í dag væru rafmagnsbílar fremri sprengimótorum að flestu, ef ekki öllu leyti.

Verandi forvitinn maður fór ég að rannsaka málið og datt niður á þessa síðu:

http://www.teslamotors.com/learn_more/faqs.php

Þetta er FAQ síða hjá fyrir tæki sem heitir Tesla Motors. Þeir framleiða rafmagnssportbíl (neibb....ekki oximoron!). Græjan er 4 sekúndur í hundraðið, kemst 400 km á hleðslunni og virðist vera ofursvöl græja. Og...hann kostar innan við 100.000 dollara. Strategían hjá þeim virðist vera að gera bílinn algengann hjá ríka fólkinu- fá umhverfismeðvitaða uppa til að skipta Porche-num út fyrir Teslu (Svona rafmagnsbíll myndi örugglega "get one laid" í henni Kaliforníu ,svo dæmi sé tekið). Afar snjallt.

Það sem ég er að velta fyrir mér er þet…

Menntakerfið byggir á úreltum og skaðlegum forsendum

Ákveðnar forsendur liggja til grundvallar í menntakerfinu okkar. Kerfið er í grófum dráttum svona:
Nemendum er skipt í hópa eftir aldri. Allir eru skulu dvelja á skólastofnun frá 6-16 ára. Þar skulu þeir læra samkvæmt gildandi aðalnámsskrá. Aðalnámsskráin er sett saman af sérfræðingum sem er gert að greina og ákveða hvað allir þurfa að læra svo að þeir séu tilbúnir í framhaldsnám og þátttöku í samfélaginu. Kennarar skulu svo gera sitt besta til að tryggja að allir nemendur tileinki sér sem mest af þeirri hæfni og þekkingu sem aðalnámsskráin segir til um. Það eiga sumsé allir að læra það sama. Frammistaða nemenda er vegin og metin frá upphafi með prófum og verkefnum sem eiga að segja til um hvernig þeim gengur.
Það er hægara sagt en gert að ná þeim markmiðum sem kerfið setur. Börnum er ekki eðlislægt að fylgja skipunum og sitja kyrr. Það þurfa þau samt að gera í skólanum, talsverðan hluta dags. Þau ráða engu um það hvað þau læra, hvenær, hvar, með hverjum eða hvernig (í flestum tilvik…