Skip to main content

Póstmódernísk angistAfsakið uppskrúfaða fyrirsögn. Ég hef verið að velta þessum skrítnu tímum fyrir mér. Veruleikinn sem flestir upplifa verður brotakenndari með hverjum deginum. Hjá mörgum er stafræn örvun nánast stöðug. Ef menn eru ekki tengdir við netið, þá er sjónvarpið í gangi. Ef ekki sjónvarpið, þá útvarpið. Allan daginn upplifum við ólíkar túlkanir og útgáfur af veruleikanum. Sterk öfl hafa hagsmuna gæta í því að við trúum þeirra útgáfu af honum og kaupum í kjölfarið þeirra lausn. Við búum við alvarlegt offramboð af veruleikum. Og framboðið er sífellt að aukast. Einu sinni var það takmarkað við samskipti okkar og samræður við annað fólk. Svo komu bækur og blöð, útvarp, sjónvarp og loks netið. Netið varð svo þráðlaust og færanlegt og félagsvefir ruddu sér til rúms og hafa á skömmum tíma orðið óaðskiljanlegur hluti af lífi margra. Og veruleikaframboðið eykst stöðugt. Nú fáum ekki veruleikann bara frá fréttamönnum, skáldum og skríbentum. Við fáum hann úr mörg þúsund áttum: Á facebook, twitter og bloggsíðum.

Því miður held ég að þetta mikla framboð á veruleika sé ekki að gera okkur að hamingjusamari manneskjum. Það er sífellt erfiðara að gera sér grein fyrir því hvaða veruleiki á við rök að styðjast: Hvað er rétt og hvað er rangt. Heilabúið í manni fer á yfirsnúning við að reyna að móta sér skoðanir, fylgjast með umræðu, rannsóknum, fréttum....Og við erum húkkd á þessu. Það er eiginlega ekki valkostur að aftengjast og vera ekki með.

Ágætt dæmi sem ég hef upplifað á sjálfum mér eru hreyfing og næring. Ég hef áhuga á því að halda mér í formi og hef því verið duglegur að lesa mér til á þessum sviðum. Þar er hins vegar ekki auðvelt að finna svör. Ótal aðilar þykjast hafa höndlað sannleikann. Flestir vísa í rannsóknir máli sínu til stuðnings. Það er mjög erfitt fyrir leikmann að átta sig á því hvað snýr upp og hvað snýr niður. Maður þyrfti að fara í það fúlltæm að lesa sér til ef maður ætlaði að finna út úr þessu og það myndi sennilega varla duga til. Niðurstaðan verður sú að maður er kolringlaður í þessu og á erfitt með að ákveða hvað maður á að láta ofan í sig og gera til að halda sér í formi.

Og hreyfing og næring eru tilfölulega einföld mál miðað við margt annað sem maður hefur verið að spá í, svo sem pólitík, efnahagsmál, trúmál o.fl. Við höfum aðgang að meiri upplýsingum og skoðunum á því hvernig best er að lifa heldur en nokkru sinni fyrr og samt hefur aldrei verið eins erfitt að ákveða hvernig maður á að lifa. Möguleikarnir eru endalausir. Sjónarhornin eru svo mörg að mann svimar. Og vandamálið er enn verra ef maður er víðsýnn og opinn. Þetta er svolítið eins og að koma í verslun þar sem úrvalið er yfirgengilega mikið. Góður vinur minn eigraði til dæmis um í Mall of America í heilan dag og endaði svo á því að kaupa eina te-síu. Hættan er sú að valmöguleikarnir verði svo yfirþyrmandi að maður gefist upp á því að velja og endi hálf lamaður.

Ég ætla ekki að halda því fram að ég kunni lausnirnar á þessu. Mig rennur þó í grun um að það sem ég nefndi í síðasta pistli geti verið mikilvægt. Eftirfarandi leiðir gætu verið vænlegar til að díla við póstmóderníska angist:

1. Vera eins VIRKUR og mögulegt er. GERA meira, hugsa minna
2. Takmarka notkun á stafrænum miðlum. Skammta sér tíma daglega í net og sjónvarp.
3. Finna sér álitsgjafa/vísindamann/hugsuð sem maður treystir til að forvinna fyrir sig. Ég tek t.d. mikið mark á ákveðnum kvikmyndagagnrýnendum og er líklegri til að horfa það sem þeir gefa toppdóma. Maður getur gert það sama með margt annað. Ég er ekki að segja að maður eigi að slökkva á gagnrýninni hugsun eða að hætta að lesa sér til sjálfur, en það getur sparað mikinn tíma að finna einhvern fagnörd sem nennir að liggja yfir hlutunum og fylgja svo bara ráðleggingum viðkomandi.
4. Ekki gleyma að hreinsa hugann annað slagið. Til erum ýmsar leiðir til þess arna, en engin öflugri en hugleiðsla.

Comments

Popular posts from this blog

Vinir Dóra

Einhverjir hafa eflaust umsvifalaust ályktað sem svo að nú ætlaði ég að fara að tjá mig um framsóknarflokkinn, en svo er ekki (þannig að þið getið lesið áfram án þess að eiga það á hættu að fá heilablóðfall af leiðindum).

Ég var nefnilega að lesa viðtal við Halldór Bragason, blúshund, í Mogganum um helgina. Þá lét lítil minning á sér kræla:

"Árið er ca. 1995. Ég er staddur á Reykjavíkurflugvelli í bið-"sal" Íslandsflugs. Á biðstofunni eru tvö farlama gamalmenni, kona með grátandi ungabarn og bólugrafinn unglingur sem er að sporðrenna prins póló númer 2 og drekka kókómjólk. Ég er heldur daufur í dálkinn yfir þessari ofurraunsæislegu hversdagssenu þegar hurðin þeytist skyndilega upp og inn ganga fjórir svartklæddir menn. Snjófjúk fylgir þeim inn í biðstofuna og ískaldur ferskur andblær.

Mennirnir eru Halldór Bragason og vinir hans. Dóri er með kúrekahatt á höfði og í leðurstígvélum. Guðmundur Pétursson er í skósíðum frakka með krullurnar í allar áttir. Þeir eru með gítartösk…

Rafmagnsbílar- ofurvélar

Var á leið í vinnu um daginn þegar ég heyrði viðtal við rafmagnsverkfræðing sem sagði illskiljanlegt af hverju ekki væri lögð meiri áhersla á framleiðslu og notkun rafmagnsbíla. Miklar framfarir hefðu orðið í framleiðlsu rafmótora og rafhlaðna og að í dag væru rafmagnsbílar fremri sprengimótorum að flestu, ef ekki öllu leyti.

Verandi forvitinn maður fór ég að rannsaka málið og datt niður á þessa síðu:

http://www.teslamotors.com/learn_more/faqs.php

Þetta er FAQ síða hjá fyrir tæki sem heitir Tesla Motors. Þeir framleiða rafmagnssportbíl (neibb....ekki oximoron!). Græjan er 4 sekúndur í hundraðið, kemst 400 km á hleðslunni og virðist vera ofursvöl græja. Og...hann kostar innan við 100.000 dollara. Strategían hjá þeim virðist vera að gera bílinn algengann hjá ríka fólkinu- fá umhverfismeðvitaða uppa til að skipta Porche-num út fyrir Teslu (Svona rafmagnsbíll myndi örugglega "get one laid" í henni Kaliforníu ,svo dæmi sé tekið). Afar snjallt.

Það sem ég er að velta fyrir mér er þet…

Menntakerfið byggir á úreltum og skaðlegum forsendum

Ákveðnar forsendur liggja til grundvallar í menntakerfinu okkar. Kerfið er í grófum dráttum svona:
Nemendum er skipt í hópa eftir aldri. Allir eru skulu dvelja á skólastofnun frá 6-16 ára. Þar skulu þeir læra samkvæmt gildandi aðalnámsskrá. Aðalnámsskráin er sett saman af sérfræðingum sem er gert að greina og ákveða hvað allir þurfa að læra svo að þeir séu tilbúnir í framhaldsnám og þátttöku í samfélaginu. Kennarar skulu svo gera sitt besta til að tryggja að allir nemendur tileinki sér sem mest af þeirri hæfni og þekkingu sem aðalnámsskráin segir til um. Það eiga sumsé allir að læra það sama. Frammistaða nemenda er vegin og metin frá upphafi með prófum og verkefnum sem eiga að segja til um hvernig þeim gengur.
Það er hægara sagt en gert að ná þeim markmiðum sem kerfið setur. Börnum er ekki eðlislægt að fylgja skipunum og sitja kyrr. Það þurfa þau samt að gera í skólanum, talsverðan hluta dags. Þau ráða engu um það hvað þau læra, hvenær, hvar, með hverjum eða hvernig (í flestum tilvik…