Skip to main content

Ósjálfstæðisflokkurinn fengi mitt atkvæði

Síðustu vikur hef ég mikið unnið heima við og á kaffihúsi bæjarins (hvar ég sit nú og sötra afbragðsgott kaffi). Á þessum tíma hef ég fylgst betur með fréttum og þjóðmálaumræðu en síðustu ár. Get ekki sagt að það arna sé til þess fallið að bæta geð og lund. Því betur sem maður fylgist með, því svartsýnni verður maður. Ég er að verða endanlega sannfærður um að Íslendingar geta ekki stjórnað eigin málum.

Ég held því miður að Einar Steingrímsson hafi rétt fyrir sér. Ísland er andverðleikasamfélag. Við eigum ekki nóg af kláru fólki til að halda úti flóknu nútímasamfélagi. Það gerir vandann svo öllu verri að klárasta fólkið okkar kemst aldrei að til að láta ljós sitt skína. Það er ekki okkar besta fólk sem prílar upp á fjóshauginn og galar hæst. Besta fólkið okkar hefur engan áhuga á því að príla upp á fjóshauga.

En þetta er ekkert nýtt. Svona hefur þetta verið áratugum saman. Við erum samt hugsanlega fyrst núna að fá afleiðingarnar í hausinn af fullum þunga. Við höfum algerlega klúðrað okkar málum. Fjármálakerfið í heild sinni er ónýtt. Stór hluti Íslendinga er í skuldafangelsi þar sem dómarnir lengjast og þyngjast um hver mánaðarmót. Engin sátt ríkir um nokkurn skapaðan hlut. Við virðumst algerlega ófær um að komast að skynsamlegum og sanngjörnum niðurstöðum um nýtingu auðlinda lands og sjávar. Hver höndin er uppi á móti annari. Alþingi er óstarfhæft og rúið trausti. Fólk hefur enga trú lengur á stofnunum samfélagisins og væntingavísitalan er á lóðbeinni niðurleið.

Á Íslandi geisar andlegt borgarastríð

Síðast þegar borgarastríð geisaði á Íslandi voru menn nógu skynsamir til að átta sig á því að það þyrfti að höggva á hnútinn. Íslendingar gengust Noregskonungi á hönd og friður komst á í landinu. Ég er að komast á þá skoðun við sambærilega aðgerð þurfi nú. Ég var lengi vel á því að lausnin væri að ganga í Evrópusambandið, en ég óttast að í því myndi ekki felast nægilegt afsal fullveldis (eins og staðan á Írlandi og Grikklandi sýna glögglega). Ég held því að Íslendingar ættu að grátbiðja Norðmenn að taka við okkur aftur. Mér er skítsama þótt fiskimið og orkuauðlindir fylgi með í kaupunum. Við myndum njóta góðs af faglegri stjórnsýslu og verða hluti af öflugu og stöðugu hagkerfi. Losna við allt helvítis fúskið, sérhagsmunapotið, verðtryggingu og ónýtan gjaldmiðil á einu bretti.

AA samtökin predika að fyrsta skrefið í átt að bata sé að viðurkenna vandann. Að maður hafi ekki stjórn á sjálfum sér. Ég bíð því spenntur eftir því að stofnaður verði ósjálfstæðisflokkur. Sá flokkur myndi berjast fyrir því að Íslendingar horfist í augu við það að við séum of fá, vanmáttug og vanhæf til að stjórna eigin málum. Að við munum aldrei útkljá þetta andlega borgarastríð sjálf.

Slíkur flokkur fengi mitt atkvæði.

Comments

Einar said…
Ég væri hlynntur þess háttar flokki Sigurður :) sérstaklega þeim flokki sem legði mikla áherslu á 5. og 9. spor AA samtakana :)
Siggi Óla said…
Haha! Nákvæmlega!

Popular posts from this blog

Vinir Dóra

Einhverjir hafa eflaust umsvifalaust ályktað sem svo að nú ætlaði ég að fara að tjá mig um framsóknarflokkinn, en svo er ekki (þannig að þið getið lesið áfram án þess að eiga það á hættu að fá heilablóðfall af leiðindum).

Ég var nefnilega að lesa viðtal við Halldór Bragason, blúshund, í Mogganum um helgina. Þá lét lítil minning á sér kræla:

"Árið er ca. 1995. Ég er staddur á Reykjavíkurflugvelli í bið-"sal" Íslandsflugs. Á biðstofunni eru tvö farlama gamalmenni, kona með grátandi ungabarn og bólugrafinn unglingur sem er að sporðrenna prins póló númer 2 og drekka kókómjólk. Ég er heldur daufur í dálkinn yfir þessari ofurraunsæislegu hversdagssenu þegar hurðin þeytist skyndilega upp og inn ganga fjórir svartklæddir menn. Snjófjúk fylgir þeim inn í biðstofuna og ískaldur ferskur andblær.

Mennirnir eru Halldór Bragason og vinir hans. Dóri er með kúrekahatt á höfði og í leðurstígvélum. Guðmundur Pétursson er í skósíðum frakka með krullurnar í allar áttir. Þeir eru með gítartösk…

Rafmagnsbílar- ofurvélar

Var á leið í vinnu um daginn þegar ég heyrði viðtal við rafmagnsverkfræðing sem sagði illskiljanlegt af hverju ekki væri lögð meiri áhersla á framleiðslu og notkun rafmagnsbíla. Miklar framfarir hefðu orðið í framleiðlsu rafmótora og rafhlaðna og að í dag væru rafmagnsbílar fremri sprengimótorum að flestu, ef ekki öllu leyti.

Verandi forvitinn maður fór ég að rannsaka málið og datt niður á þessa síðu:

http://www.teslamotors.com/learn_more/faqs.php

Þetta er FAQ síða hjá fyrir tæki sem heitir Tesla Motors. Þeir framleiða rafmagnssportbíl (neibb....ekki oximoron!). Græjan er 4 sekúndur í hundraðið, kemst 400 km á hleðslunni og virðist vera ofursvöl græja. Og...hann kostar innan við 100.000 dollara. Strategían hjá þeim virðist vera að gera bílinn algengann hjá ríka fólkinu- fá umhverfismeðvitaða uppa til að skipta Porche-num út fyrir Teslu (Svona rafmagnsbíll myndi örugglega "get one laid" í henni Kaliforníu ,svo dæmi sé tekið). Afar snjallt.

Það sem ég er að velta fyrir mér er þet…

Menntakerfið byggir á úreltum og skaðlegum forsendum

Ákveðnar forsendur liggja til grundvallar í menntakerfinu okkar. Kerfið er í grófum dráttum svona:
Nemendum er skipt í hópa eftir aldri. Allir eru skulu dvelja á skólastofnun frá 6-16 ára. Þar skulu þeir læra samkvæmt gildandi aðalnámsskrá. Aðalnámsskráin er sett saman af sérfræðingum sem er gert að greina og ákveða hvað allir þurfa að læra svo að þeir séu tilbúnir í framhaldsnám og þátttöku í samfélaginu. Kennarar skulu svo gera sitt besta til að tryggja að allir nemendur tileinki sér sem mest af þeirri hæfni og þekkingu sem aðalnámsskráin segir til um. Það eiga sumsé allir að læra það sama. Frammistaða nemenda er vegin og metin frá upphafi með prófum og verkefnum sem eiga að segja til um hvernig þeim gengur.
Það er hægara sagt en gert að ná þeim markmiðum sem kerfið setur. Börnum er ekki eðlislægt að fylgja skipunum og sitja kyrr. Það þurfa þau samt að gera í skólanum, talsverðan hluta dags. Þau ráða engu um það hvað þau læra, hvenær, hvar, með hverjum eða hvernig (í flestum tilvik…