Skip to main content

Kaupfélagsbarinn: Frábær nýr veitingastaður í Neskaupstað

Síðast þegar ég skrifaði pistil á þessu bloggi var ég að bölsótast yfir skelfilegum skorti á alvöru veitingastöðum í Fjarðabyggð. Mér finnst óskaplega skemmtilegt að borða góðan mat og rann til rifja að hvergi skyldi vera hægt að fá alvöru veitingahúsaupplifun í minni heimabyggð (tek reyndar aftur fram að ég hef ekki prófað Randulfssjóhúsið á Eskifirði, sem er opið yfir sumartímann).

En nú er öldin önnur. Nýtt veitingahús hefur opnað í Neskaupstað og það er sko alvöru veitingahús.

Ég borðaði á Kaupfélagsbarnum á Hildibrand Hótel í gærkveldi með fjölskyldunni. Tilefnið var afmæli eiginkonunnar. Máltíðin var hreint út sagt frábær. Ég byrjaði á humarsúpu. Kannski ekki mjög ævintýragjarnt val af svona spennandi matseðli, en það getur verið mjög gott að prófa klassískan rétt til að gá hvernig veitingastaðir standast samanburð. Súpan var nákvæmlega eins og ég vil hafa humarsúpu, í frábæru jafnvægi, þar sem ekkert yfirgnæfði annað. Skýrt og gott humarbragð, örlítill koníakskeimur, ekki of mikið af rjóma, fersk steinselja og nóg af góðum humri. Góð byrjun!

Í aðalrétt fékk ég lambafilet með fennel í lakkríssósu með kartöfluköku og sultuðum rauðlauk. Kjötið var passlega steikt og lungamjúkt. Sósan var dásamleg og lakkrísbragðið passlega milt. Meðlætið harmóneraði mjög vel við kjötið og sósuna.

Í eftirrétt fengum við bakka með þremur mismunandi eftirréttum: "randalín" ísköku, skyrköku og súkkulaði á þrjá vegu. Allt virkilega gott stöff, en ísinn stóð upp úr. Mæli eindregið með honum.

Ég smakkaði líka að sjálfsögðu allt sem allir aðrir við borðið pöntuðu. Jóna fékk salat með gröfnu folaldafilet, Sigga Thea lax og Júlli litli hamborgara. Allt var þetta mjög gott.

Vínin sem ég drakk með matnum voru vín hússins, bæði rautt og hvítt. Bæði frá vínhúsinu Piccini á Ítalíu, mjög frambærileg og vönduð. Hvítvínið þótti mér sérlega ljúft og man hreinlega ekki eftir því að hafa fengið betra hvítvín hússins. Mjög algengt er að lakari veitingahús falli í þá gryfju að hafa óspennandi vín hússins, en það er klárlega ekki raunin hér. Aukaprik fyrir það, þar sem að ég drekk oftast vín hússins í glasavís, enda eiginkonan ekki mikið gefin fyrir sopann. Mér láðist raunar að skoða vínseðilinn, en þegar ég leit upp í hillurnar voru ítösk vín áberandi, sem er vel. Þau eru yfirleitt mest "bang for the buck" að mínu viti.

Kaupfélagsbarinn er sérlega fallega innréttaður. Húsbúnaður er smekklegur og stílhreinn, en viðarklæðning, listmunir og gamlar myndir á veggjum skapa hlýlegt andrúmsloft sem oft vill vanta þegar menn ganga langt í minimalismanum. Ekki spillir fyrir að útsýni er beint út á fjörð. Virkilega huggulegt veitingahús.

Þjónustan var fumlaus og alúðleg og lágstemmd brasilísk bossanovatónlist hljómaði í bakgrunni. Verð var mjög sanngjarnt miðað við gæði. Getur maður beðið um meira?

Að máltíð lokinni gengum við út södd og sæl. Ég var nánast klökkur af gleði yfir því að vera kominn með svona góðan veitingastað í bæinn minn. Nú er bara að vona að Hákoni og co. takist að halda þessum klassa, en ef svo verður þá má reikna með að ég verði fastagestur. Ég hvet Norðfirðinga og nærsveitunga að sjálfsögðu til að prófa, því hér er komið veitingahús sem myndi sóma sér fyllilega í miðborg Reykjavíkur.

Ég var reyndar svo spenntur að fara aftur að ég kíkti þangað í hádeginu í dag og borðaði gómsætt Sushi. Ljóst er að Kaupfélagsbarinn verður mjög freistandi kostur í hádeginu líka.

 

Comments

Popular posts from this blog

Vinir Dóra

Einhverjir hafa eflaust umsvifalaust ályktað sem svo að nú ætlaði ég að fara að tjá mig um framsóknarflokkinn, en svo er ekki (þannig að þið getið lesið áfram án þess að eiga það á hættu að fá heilablóðfall af leiðindum).

Ég var nefnilega að lesa viðtal við Halldór Bragason, blúshund, í Mogganum um helgina. Þá lét lítil minning á sér kræla:

"Árið er ca. 1995. Ég er staddur á Reykjavíkurflugvelli í bið-"sal" Íslandsflugs. Á biðstofunni eru tvö farlama gamalmenni, kona með grátandi ungabarn og bólugrafinn unglingur sem er að sporðrenna prins póló númer 2 og drekka kókómjólk. Ég er heldur daufur í dálkinn yfir þessari ofurraunsæislegu hversdagssenu þegar hurðin þeytist skyndilega upp og inn ganga fjórir svartklæddir menn. Snjófjúk fylgir þeim inn í biðstofuna og ískaldur ferskur andblær.

Mennirnir eru Halldór Bragason og vinir hans. Dóri er með kúrekahatt á höfði og í leðurstígvélum. Guðmundur Pétursson er í skósíðum frakka með krullurnar í allar áttir. Þeir eru með gítartösk…

Rafmagnsbílar- ofurvélar

Var á leið í vinnu um daginn þegar ég heyrði viðtal við rafmagnsverkfræðing sem sagði illskiljanlegt af hverju ekki væri lögð meiri áhersla á framleiðslu og notkun rafmagnsbíla. Miklar framfarir hefðu orðið í framleiðlsu rafmótora og rafhlaðna og að í dag væru rafmagnsbílar fremri sprengimótorum að flestu, ef ekki öllu leyti.

Verandi forvitinn maður fór ég að rannsaka málið og datt niður á þessa síðu:

http://www.teslamotors.com/learn_more/faqs.php

Þetta er FAQ síða hjá fyrir tæki sem heitir Tesla Motors. Þeir framleiða rafmagnssportbíl (neibb....ekki oximoron!). Græjan er 4 sekúndur í hundraðið, kemst 400 km á hleðslunni og virðist vera ofursvöl græja. Og...hann kostar innan við 100.000 dollara. Strategían hjá þeim virðist vera að gera bílinn algengann hjá ríka fólkinu- fá umhverfismeðvitaða uppa til að skipta Porche-num út fyrir Teslu (Svona rafmagnsbíll myndi örugglega "get one laid" í henni Kaliforníu ,svo dæmi sé tekið). Afar snjallt.

Það sem ég er að velta fyrir mér er þet…

Menntakerfið byggir á úreltum og skaðlegum forsendum

Ákveðnar forsendur liggja til grundvallar í menntakerfinu okkar. Kerfið er í grófum dráttum svona:
Nemendum er skipt í hópa eftir aldri. Allir eru skulu dvelja á skólastofnun frá 6-16 ára. Þar skulu þeir læra samkvæmt gildandi aðalnámsskrá. Aðalnámsskráin er sett saman af sérfræðingum sem er gert að greina og ákveða hvað allir þurfa að læra svo að þeir séu tilbúnir í framhaldsnám og þátttöku í samfélaginu. Kennarar skulu svo gera sitt besta til að tryggja að allir nemendur tileinki sér sem mest af þeirri hæfni og þekkingu sem aðalnámsskráin segir til um. Það eiga sumsé allir að læra það sama. Frammistaða nemenda er vegin og metin frá upphafi með prófum og verkefnum sem eiga að segja til um hvernig þeim gengur.
Það er hægara sagt en gert að ná þeim markmiðum sem kerfið setur. Börnum er ekki eðlislægt að fylgja skipunum og sitja kyrr. Það þurfa þau samt að gera í skólanum, talsverðan hluta dags. Þau ráða engu um það hvað þau læra, hvenær, hvar, með hverjum eða hvernig (í flestum tilvik…