Skip to main content

Aldan

Ég bauð pabba út að borða á Öldunni á Seyðisfirði í vikunni. Hann varð sextugur í maí og ég ákvað að afmælisgjöfin yrði í formi gönguferða og sælkerafóðurs. Það reyndist vera góð ákvörðun. Við gengum víða um þennan fallega fjörð tvo daga í röð og máltíðin olli svo sannarlega ekki vonbrigðum.

Í forrétt boðuðum við grafið lamb með geitaosti. Mikið bragð of hvoru tveggja. Mjög vel heppnaður réttur sem gældi við bragðlaukana. Með þessu drakk ég fyrirtaks Rioja Reserva sem gat staðið uppi í ullinni á lambinu og geitinni. 

Í aðalrétt borðuðum við fisk dagsins, sem reyndist vera þorskur. Á disknum reyndist vera stóreflis hnkkastykki, hárrétt eldað og ekki ofkryddað eða saltað. Datt í fallegar flögur sem bráðnuðu í munni. Þorskurinn var á byggbeði sem var mjög gott, kryddað með hvítlauk og kryddjurtum. Fíngert bragð sem yfirgnæfði ekki þorskinn og smellpassaði. Með þessu var ferskt og gott salat. Í heildina frábær réttur og einhver besti þorskur sem ég hef borðað. Með þessu drakk ég dásamlegt vín, Villa Maria Sauvignon Blanc frá Nýja Sjálandi. Villa Maria er uppáhaldsvínið mitt frá hinu magíska Marlborough héraði, en þar virðast eingöngu vera framleidd góð hvítvín (hef enn ekki smakkað vont vín þaðan!). Mæli eindregið með Vicar's Choice, Cloudy Bay, Oyster Bay og Spy Valley, auk Villa Maria.

Í eftirrétt borðaði ég Creme Brulee sem var fullkomið. Nákvæmlega eins og það á að vera. Minn uppáhalds eftirréttur. Ég stenst sjaldnast freistinguna þegar það er í boði, enda engin ástæða til. Með þessu drakk ég prýðilegt kaffi og 18 ára gamalt Highland Park. Frábært!

Þjónustan var mjög fagmannleg og vingjarnleg í alla staði. Staðurinn er huggulega innréttaður og ekki spillti fyrir að við höfðum útsýni út á spegilslétt lónið. 

Það eina sem ég hnaut um var verðið, sem mér fannst í hærri kantinum, en það er væntanlega afleiðing þess að mikill meirihluti viðskiptavina eru erlendir ferðamenn. Hreindýrasteik kostaði t.d. hátt í 10.000 krónur. Ég efast um að margir Íslendingar séu tilbúnir til að borga svo mikið fyrir aðalrétt. Ég skil samt vel að veitingamenn nýti sér þessa miklu eftirspurn, en auðvitað er spurning hvenær of langt er gengið. Ég hef þó ekki sárar áhyggjur af því. Menn munu auðvitað lækka verðið um leið og þeir sjá eftirspurnina falla. Þannig virkar business. En það er miður ef menn eru í auknum mæli að verðleggja sig út af innanlandsmarkaði. Það væri skemmtilegast að hafa þetta í sæmilegu jafnvægi þannig að íslenskir matgæðingar geti leyft sér að nota alla þessa frábæru veitingastaði okkar.

Ég tek þó fram að mér blöskraði ekki verðmiðinn á máltíðinni í heild, en þess ber þó að geta að við drukkum í hófi og pöntuðum fisk dagsins, sem er yfirleitt hagstæður kostur. En ég borgaði reikninginn sumsé með brosi á vör og fannst máltíðin virkilega vera peninganna virði. Ein albesta máltið sem ég hef nokkru sinni borðað á Austurlandi. 

Að lokum vil ég mæla eindregið með Seyðisfirði sem áfangastað göngufólks. Fjörðurinn er gríðarstór og þar má finna ótal gönguleiðir. Náttúrufegurðin er einstök. Við gengum út á Brimnes, upp í Vestdal og upp í Botna og allsstaðar var fegurðin nánast yfirþyrmandi. Fjallasýnin er mögnuð og fjöldi fallegra fossa meiri en nokkursstaðar sem ég hef komið. Með öll sín gömlu hús og fossaprýdd fjöllin allt um kring er Seyðisfjörður einfaldlega fallegasti bær á Íslandi. 

Comments

Popular posts from this blog

Vinir Dóra

Einhverjir hafa eflaust umsvifalaust ályktað sem svo að nú ætlaði ég að fara að tjá mig um framsóknarflokkinn, en svo er ekki (þannig að þið getið lesið áfram án þess að eiga það á hættu að fá heilablóðfall af leiðindum).

Ég var nefnilega að lesa viðtal við Halldór Bragason, blúshund, í Mogganum um helgina. Þá lét lítil minning á sér kræla:

"Árið er ca. 1995. Ég er staddur á Reykjavíkurflugvelli í bið-"sal" Íslandsflugs. Á biðstofunni eru tvö farlama gamalmenni, kona með grátandi ungabarn og bólugrafinn unglingur sem er að sporðrenna prins póló númer 2 og drekka kókómjólk. Ég er heldur daufur í dálkinn yfir þessari ofurraunsæislegu hversdagssenu þegar hurðin þeytist skyndilega upp og inn ganga fjórir svartklæddir menn. Snjófjúk fylgir þeim inn í biðstofuna og ískaldur ferskur andblær.

Mennirnir eru Halldór Bragason og vinir hans. Dóri er með kúrekahatt á höfði og í leðurstígvélum. Guðmundur Pétursson er í skósíðum frakka með krullurnar í allar áttir. Þeir eru með gítartösk…

Rafmagnsbílar- ofurvélar

Var á leið í vinnu um daginn þegar ég heyrði viðtal við rafmagnsverkfræðing sem sagði illskiljanlegt af hverju ekki væri lögð meiri áhersla á framleiðslu og notkun rafmagnsbíla. Miklar framfarir hefðu orðið í framleiðlsu rafmótora og rafhlaðna og að í dag væru rafmagnsbílar fremri sprengimótorum að flestu, ef ekki öllu leyti.

Verandi forvitinn maður fór ég að rannsaka málið og datt niður á þessa síðu:

http://www.teslamotors.com/learn_more/faqs.php

Þetta er FAQ síða hjá fyrir tæki sem heitir Tesla Motors. Þeir framleiða rafmagnssportbíl (neibb....ekki oximoron!). Græjan er 4 sekúndur í hundraðið, kemst 400 km á hleðslunni og virðist vera ofursvöl græja. Og...hann kostar innan við 100.000 dollara. Strategían hjá þeim virðist vera að gera bílinn algengann hjá ríka fólkinu- fá umhverfismeðvitaða uppa til að skipta Porche-num út fyrir Teslu (Svona rafmagnsbíll myndi örugglega "get one laid" í henni Kaliforníu ,svo dæmi sé tekið). Afar snjallt.

Það sem ég er að velta fyrir mér er þet…

Menntakerfið byggir á úreltum og skaðlegum forsendum

Ákveðnar forsendur liggja til grundvallar í menntakerfinu okkar. Kerfið er í grófum dráttum svona:
Nemendum er skipt í hópa eftir aldri. Allir eru skulu dvelja á skólastofnun frá 6-16 ára. Þar skulu þeir læra samkvæmt gildandi aðalnámsskrá. Aðalnámsskráin er sett saman af sérfræðingum sem er gert að greina og ákveða hvað allir þurfa að læra svo að þeir séu tilbúnir í framhaldsnám og þátttöku í samfélaginu. Kennarar skulu svo gera sitt besta til að tryggja að allir nemendur tileinki sér sem mest af þeirri hæfni og þekkingu sem aðalnámsskráin segir til um. Það eiga sumsé allir að læra það sama. Frammistaða nemenda er vegin og metin frá upphafi með prófum og verkefnum sem eiga að segja til um hvernig þeim gengur.
Það er hægara sagt en gert að ná þeim markmiðum sem kerfið setur. Börnum er ekki eðlislægt að fylgja skipunum og sitja kyrr. Það þurfa þau samt að gera í skólanum, talsverðan hluta dags. Þau ráða engu um það hvað þau læra, hvenær, hvar, með hverjum eða hvernig (í flestum tilvik…