Skip to main content

Þorrablót

Ég ekki hvort ég hef bloggað áður um þorrablót. Og ég nenni ekki að tékka á því. Bið forláts ef ég er að endurtaka mig.

Í kvöld fer ég á hið stórskemmtilega Kommablót í Neskaupstað. Þrátt fyrir nafnið er þessi samkoma ekki pólitísk, heldur er í raun um að ræða bæjarblót Norðfirðinga þótt það hafi áður verið á vegum Alþýðubandalagsins. Pólitíska tengingin var því vissulega fyrir hendi hér áður fyrr, en þá var líka haldið Mjófirðingablót, Hestamannablót, Sveitablót og Sjálfstæðisblót og er ég örugglega að gleyma einhverju Sveitablótið er það eina af þessum blótum sem enn lifir.

Í dag koma allra flokka kvikindi að Kommablótinu, öll dýrin í skóginum eru vinir og pólitík er mönnum ekki ofarlega í huga, þótt óhjákvæmilega beri hana á góma í annál ársins. Til að tryggja jafnvægi í annálnum eru meðal flytjenda fulltrúar úr ýmsum flokkum. Kommablótið hefur þá sérstöðu að það er meira og minna sama fólkið sem sér um annálsflutning ár hvert, þótt annað slagið detti inn nýir aðilar í hópinn og aðrir detti út sökum aldurs eða búferlaflutninga. Lágmarksafplánun í annálshópnum virðist þó vera a.m.k. 10 ár. Ókosturinn við að hafa ávallt sama hópinn er auðvitað sá að maður veit nokkurnvegin að hverju maður gengur, þótt auðvitað viti maður aldrei hver efnistökin verða.

Kosturinn er svo ákveðin samfella og tilvísanir í fyrri annála. Sumir brandarar nálgast það sem er á ensku kallað "running gag" eða jafnvel "catch phrase" húmor. Brandari eða karakter sem er kannski ekkert brjálæðislega fyndinn einu sinni verður fyndnari og fyndnari eftir því sem árin líða og sumir karakterar eru þannig að maður bíður spenntur eftir því að þeir birtist. Einhver myndi hugsanlega flokka þessa endurteknu brandara sem einelti, en ég held að flestir "fastagestir" í annál hafi fyrir þessu mikinn húmor, auk þess sem annáll á Kommablóti er aldrei rætinn eða ljótur. Smári og co. kunna þá list að gera góðlátlegt grín að fólki og atburðum og er það vel. Eitt af þvi sem gleður mig ávallt við annálsflutning er þegar Smári kemur fram í dragi. Veit ekki af hverju, en mér finnst það bara óstjórnlega skemmtilegt. Kannski af því að maður á von á því?

Hefðin er mjög sterk í kringum blótið og það er auðvitað hluti af því sem gerir það svona ánægjulegt. Maður veit að hverju maður gengur og veit að þetta er alltaf gaman. Ég hef farið á blót síðan ég var á 16. ári, þannig að ég mun hafa fyrst mætt árið 1990. Blótið í ár er það 49. í röðinni og fer ég því nærri því að hafa mætt á helming þeirra, sem minnir mig duglega á hvað ég er orðinn fokk gamall. Ég held að ég hafi kannski misst úr svona þrjú til fjögur blót á öllum þessum árum: Árin tvö sem ég var erlendis í námi og svo kannski eitt eða tvö ár þegar ég bjó í Reykjavík.

Fjöldasamkomur af þessu tagi gegna miklvægu hlutverki í því að tryggja viðgang gilda samfélagsins, enda skemmta sér saman ungir og aldnir, frá 16 ára upp í 98 ára (geri ráð fyrir að Stebbi Þorleifs mæti í kvöld). Að mínu mati er þetta ein mikilvægasta fjöldasamkoma ársins á Norðfirði. Það er í raun kannski bara brekkuskemmtunin á Neistaflugi sem er stærra fjöldasamkomumóment, en þó á annan hátt. Ég hugsa að ef tekin væri blóðprufa af blótsgestum og fólki í brekkunni á Neistaflugi, þá myndi mælast hærra magn oxýtósíns í blóði blótsgesta (reyndar meira magn etanóls einnig, sem gæti verið skýring). Slíkar samkomur þjappa fólki saman og minna okkur á að maður ER manns gaman. Ágæt áminning um að rafræn samskipti koma ekki í staðinn fyrir raunveruleg samskipti.

Mér finnst raunar áhyggjuefni hvað samskipti í kjötheimum virðast sífellt vera að dofna og minnka. Félagsstarf og samkomur eru besta móteitrið: Þorrablót, Neistaflug, Eistnaflug, tónleikar, íþróttakappleikir og starf í íþróttafélögum, björgunarsveit og Brján. Okkur hættir til að vanmeta hvað þetta er allt dýrmætt og mikilvægt. Enda hef ég einsett mér sjálfur að vera duglegri við að sækja félagsstarf og samkomur. Hef m.a. í því skyni tekið að mér stjórnarsetu í Brján, þeim merkilega klúbbi. Ný stjórn hyggst reyna að blása nýju lífi í klúbbinn og tryggja að þessi miklvæga stoð í félagslífi Norðfirðinga fúni ekki.

Ég gegni svo reyndar einnig smá hlutverki á Kommablótinu og hef gert síðustu ár. Ég ber þann virðulega titil "Blótsstjóri", sem er nú ekki alveg eins merkilegt og það hljómar. Mitt hlutverk er að halda öllu á dagskrá og stýra fjöldasöngnum. Hvort tveggja er afar auðvelt mál. Dagskráin er hefðbundin og breytist ekkert ár frá ári og það sama má segja um lögin sem eru sungin. Önnur sérstaða Kommablóts er hinn mikli fjöldasöngur sem þar fer fram. Ég hugsa að það séu sungin á bilinu 20-30 lög þegar allt er talið. Nú finnst sumum fjöldasöngur vera afar hallærislegt fyrirbæri, en ég held að flestir sem komast yfir kjánahrollinn og taka þátt finni hvað þetta er öflugt fyrirbæri. Það gerist nefnilega einhver smá galdur þegar tæplega 400 manns syngja hástöfum. Norðfirðingar eru upp til hópa afar lag- og tónvissir og þakið ætlar hreinlega að rifna af húsinu þegar mest gengur á. Það er afar skemmtilegt að upplifa þetta ofan af sviðinu og sjá yfir svona stóran og prúðbúinn hóp brosa, vagga sér og syngja eins og enginn sé morgundagurinn. Fallegt! Þetta á sér allt auðvitað sállífræðilegar skýringar: http://ideas.time.com/2013/08/16/singing-changes-your-brain/

Ég hlakka því óskaplega til að gleðjast með góðum vinum í kvöld, borða góðan (ok...ágætan) mat, drekka öl og upplifa alla gleðina sem fylgir Kommablóti.

Comments

Popular posts from this blog

Vinir Dóra

Einhverjir hafa eflaust umsvifalaust ályktað sem svo að nú ætlaði ég að fara að tjá mig um framsóknarflokkinn, en svo er ekki (þannig að þið getið lesið áfram án þess að eiga það á hættu að fá heilablóðfall af leiðindum).

Ég var nefnilega að lesa viðtal við Halldór Bragason, blúshund, í Mogganum um helgina. Þá lét lítil minning á sér kræla:

"Árið er ca. 1995. Ég er staddur á Reykjavíkurflugvelli í bið-"sal" Íslandsflugs. Á biðstofunni eru tvö farlama gamalmenni, kona með grátandi ungabarn og bólugrafinn unglingur sem er að sporðrenna prins póló númer 2 og drekka kókómjólk. Ég er heldur daufur í dálkinn yfir þessari ofurraunsæislegu hversdagssenu þegar hurðin þeytist skyndilega upp og inn ganga fjórir svartklæddir menn. Snjófjúk fylgir þeim inn í biðstofuna og ískaldur ferskur andblær.

Mennirnir eru Halldór Bragason og vinir hans. Dóri er með kúrekahatt á höfði og í leðurstígvélum. Guðmundur Pétursson er í skósíðum frakka með krullurnar í allar áttir. Þeir eru með gítartösk…

Menntakerfið byggir á úreltum og skaðlegum forsendum

Ákveðnar forsendur liggja til grundvallar í menntakerfinu okkar. Kerfið er í grófum dráttum svona:
Nemendum er skipt í hópa eftir aldri. Allir eru skulu dvelja á skólastofnun frá 6-16 ára. Þar skulu þeir læra samkvæmt gildandi aðalnámsskrá. Aðalnámsskráin er sett saman af sérfræðingum sem er gert að greina og ákveða hvað allir þurfa að læra svo að þeir séu tilbúnir í framhaldsnám og þátttöku í samfélaginu. Kennarar skulu svo gera sitt besta til að tryggja að allir nemendur tileinki sér sem mest af þeirri hæfni og þekkingu sem aðalnámsskráin segir til um. Það eiga sumsé allir að læra það sama. Frammistaða nemenda er vegin og metin frá upphafi með prófum og verkefnum sem eiga að segja til um hvernig þeim gengur.
Það er hægara sagt en gert að ná þeim markmiðum sem kerfið setur. Börnum er ekki eðlislægt að fylgja skipunum og sitja kyrr. Það þurfa þau samt að gera í skólanum, talsverðan hluta dags. Þau ráða engu um það hvað þau læra, hvenær, hvar, með hverjum eða hvernig (í flestum tilvik…

Rafmagnsbílar- ofurvélar

Var á leið í vinnu um daginn þegar ég heyrði viðtal við rafmagnsverkfræðing sem sagði illskiljanlegt af hverju ekki væri lögð meiri áhersla á framleiðslu og notkun rafmagnsbíla. Miklar framfarir hefðu orðið í framleiðlsu rafmótora og rafhlaðna og að í dag væru rafmagnsbílar fremri sprengimótorum að flestu, ef ekki öllu leyti.

Verandi forvitinn maður fór ég að rannsaka málið og datt niður á þessa síðu:

http://www.teslamotors.com/learn_more/faqs.php

Þetta er FAQ síða hjá fyrir tæki sem heitir Tesla Motors. Þeir framleiða rafmagnssportbíl (neibb....ekki oximoron!). Græjan er 4 sekúndur í hundraðið, kemst 400 km á hleðslunni og virðist vera ofursvöl græja. Og...hann kostar innan við 100.000 dollara. Strategían hjá þeim virðist vera að gera bílinn algengann hjá ríka fólkinu- fá umhverfismeðvitaða uppa til að skipta Porche-num út fyrir Teslu (Svona rafmagnsbíll myndi örugglega "get one laid" í henni Kaliforníu ,svo dæmi sé tekið). Afar snjallt.

Það sem ég er að velta fyrir mér er þet…