Skip to main content

Samfélagsmiðlar og hugarró

Ég á í ástar-/haturssambandi við samfélagsmiðla. Svolítið eins og krakkhórur eiga í ástar-/haturssambandi við krakk. Ég er sífellt meira hugsi yfir notkun þessara miðla og hvað sú notkun er hugsanlega að gera manni.

Mér finnst ég orðinn skuggalega háður þessum miðlum, sérstaklega Facebook. Og það er engin furða.

Ég á um fimmhundruð vini á Facebook og hef mjög gaman af því að fylgjast með þeim. Facebook gerir manni kleyft að vera í einhverskonar sambandi við fullt af fólki sem maður væri ellegar í mjög litlu sambandi við. Margir vinir mínir eru duglegir að pósta einhverju skemmtilegu, fyndnu og fróðlegu, auk þess að deila molum úr eigin lífi. Svo er ég búinn að breyta fréttaveitunni í sérhannaða fréttasíðu um eigin áhugamál og fæ því endalausar fréttir um tónlist, bókmenntir, viskí, útiveru, hreyfingu, samfélagsmál og ýmislegt annað sem ég hef áhuga á. Ég skelli oft inn myndum, hlekkjum eða athugasemdum og fæ oft fínt feedback frá þeim vinum mínum sem sjá uppfærslurnar mínar.

Allt þetta veldur því að Facebook er mjög ávanabindandi. Endalaus uppspretta fróðleiks og afþreyingar, en líka maskína sem gefur endalaust jákvætt feedback og tækifæri til að eiga í samræðum við fólk um áhugamál og málefni líðandi stundar. Feedbackið klappar og ógnar egóinu á víxl.  Það er auðvelt að sogast inn og gleyma sér, jafnvel tímunum saman.

Vinur minn skrifaði svolítið um daginn sem mér fannst sláandi. Hann sagði eitthvað á þá leið að hann eyddi nú orðið miklu meiri tíma í að lesa það sem er skrifað um bækur og tónlist heldur en að lesa bækur eða hlusta á tónlist. Ég tengdi mjög sterkt við þessa observasjón, en leið ekkert sérlega vel með það. Er þetta ekki svolítið eins og að liggja endalaust yfir matreiðslubókum, en elda aldrei neitt? Erum við síflellt meira að lesa um lífið í stað þess að lifa því? Ég óttast að svo sé.

Annað sem ég er hugsi yfir eru þau óhjákvæmilegu tilfinningaviðbrögð sem maður upplifir þegar maður les um kvíðvænlega og ljóta hluti. Talsverður hluti þess er maður sér í fréttaveitunni á Facebook eru neikvæðir hlutir. Fólk sér fréttir um eitthvað sem kemur því í uppnám og póstar þeim beint á vegginn sinn með tilheyrandi upphrópunum. Ég geri þetta reglulega sjálfur. Oft er um að ræða hluti sem vekja óþægilegar tilfinningar þegar maður les um þá; kviða og depurð. Ég held líka að áhrifin séu meiri þegar fréttirnar koma frá fólki sem maður þekkir og þykir vænt um.

Í ofanálag er Facebook útsmogin auglýsingamaskína. Mér dettur ekki í hug að halda því fram að ég sé svo rosalega klár og meðvitaður að ég sé ónæmur fyrir þessum auglýsingum. Fyrirtæki eyða ekki milljörðum dollara í auglýsingar og markaðssetningu upp á djók. Þau gera það vegna þess að það virkar.

Ég hallast því sífellt meira að því að Facebook sé varasöm fyrir mig og að ég ætti að minnka notkunina. Það er bara ekkert auðvelt að ætla sér að verða bara kasjúal krakkneytandi eftir að maður er löngu orðinn húkkd.

Bottom læn: Ég held að það sé vænlegra að GERA og UPPLIFA það sem maður hefur áhuga á en að lesa um það. Að sama skapi held ég að það sé best að velta sér ekki um of upp úr hlutum sem gera mann kvíðinn og sorgmæddan. Þetta ber allt að sama brunni: Minni netnotkun er klárlega málið...og ofnotkun er sennilega mjög varasöm. Ég held að samfélagsmiðlar hafi ekki góð áhrif á hugarró mína og hamingju. Ég hugsa því að eitt af áramótaheitunum verði að taka í eigið hnakkadramb og ná betri tökum á frétta- og samfélagsmiðlafíkninni. Ég er því að spá í að stofna Facebook grúppu fólks sem....eða....sko.....nei, nei.


Comments

Popular posts from this blog

Vinir Dóra

Einhverjir hafa eflaust umsvifalaust ályktað sem svo að nú ætlaði ég að fara að tjá mig um framsóknarflokkinn, en svo er ekki (þannig að þið getið lesið áfram án þess að eiga það á hættu að fá heilablóðfall af leiðindum).

Ég var nefnilega að lesa viðtal við Halldór Bragason, blúshund, í Mogganum um helgina. Þá lét lítil minning á sér kræla:

"Árið er ca. 1995. Ég er staddur á Reykjavíkurflugvelli í bið-"sal" Íslandsflugs. Á biðstofunni eru tvö farlama gamalmenni, kona með grátandi ungabarn og bólugrafinn unglingur sem er að sporðrenna prins póló númer 2 og drekka kókómjólk. Ég er heldur daufur í dálkinn yfir þessari ofurraunsæislegu hversdagssenu þegar hurðin þeytist skyndilega upp og inn ganga fjórir svartklæddir menn. Snjófjúk fylgir þeim inn í biðstofuna og ískaldur ferskur andblær.

Mennirnir eru Halldór Bragason og vinir hans. Dóri er með kúrekahatt á höfði og í leðurstígvélum. Guðmundur Pétursson er í skósíðum frakka með krullurnar í allar áttir. Þeir eru með gítartösk…

Rafmagnsbílar- ofurvélar

Var á leið í vinnu um daginn þegar ég heyrði viðtal við rafmagnsverkfræðing sem sagði illskiljanlegt af hverju ekki væri lögð meiri áhersla á framleiðslu og notkun rafmagnsbíla. Miklar framfarir hefðu orðið í framleiðlsu rafmótora og rafhlaðna og að í dag væru rafmagnsbílar fremri sprengimótorum að flestu, ef ekki öllu leyti.

Verandi forvitinn maður fór ég að rannsaka málið og datt niður á þessa síðu:

http://www.teslamotors.com/learn_more/faqs.php

Þetta er FAQ síða hjá fyrir tæki sem heitir Tesla Motors. Þeir framleiða rafmagnssportbíl (neibb....ekki oximoron!). Græjan er 4 sekúndur í hundraðið, kemst 400 km á hleðslunni og virðist vera ofursvöl græja. Og...hann kostar innan við 100.000 dollara. Strategían hjá þeim virðist vera að gera bílinn algengann hjá ríka fólkinu- fá umhverfismeðvitaða uppa til að skipta Porche-num út fyrir Teslu (Svona rafmagnsbíll myndi örugglega "get one laid" í henni Kaliforníu ,svo dæmi sé tekið). Afar snjallt.

Það sem ég er að velta fyrir mér er þet…

Menntakerfið byggir á úreltum og skaðlegum forsendum

Ákveðnar forsendur liggja til grundvallar í menntakerfinu okkar. Kerfið er í grófum dráttum svona:
Nemendum er skipt í hópa eftir aldri. Allir eru skulu dvelja á skólastofnun frá 6-16 ára. Þar skulu þeir læra samkvæmt gildandi aðalnámsskrá. Aðalnámsskráin er sett saman af sérfræðingum sem er gert að greina og ákveða hvað allir þurfa að læra svo að þeir séu tilbúnir í framhaldsnám og þátttöku í samfélaginu. Kennarar skulu svo gera sitt besta til að tryggja að allir nemendur tileinki sér sem mest af þeirri hæfni og þekkingu sem aðalnámsskráin segir til um. Það eiga sumsé allir að læra það sama. Frammistaða nemenda er vegin og metin frá upphafi með prófum og verkefnum sem eiga að segja til um hvernig þeim gengur.
Það er hægara sagt en gert að ná þeim markmiðum sem kerfið setur. Börnum er ekki eðlislægt að fylgja skipunum og sitja kyrr. Það þurfa þau samt að gera í skólanum, talsverðan hluta dags. Þau ráða engu um það hvað þau læra, hvenær, hvar, með hverjum eða hvernig (í flestum tilvik…